Að búa til forseta

Ég fylgdist aðeins með umræðuþætti á ruv, þar sem allir frambjóðendur til forseta Íslands mættu. Fannst gaman að sjá og heyra í frambjóðendum sem hafa lítið rými fengið í fjölmiðlum. Það kom líka svolítið ljós hversu vettvangurinn við að fara í framboð getur verið góður til að koma boðskap til skila, burtséð frá möguleikum að ná kjöri. Getur reyndar virkað í báðar áttir, þ.e.a.s. ef menn geta ekki komið því almennilega frá sér fyrir hvað þeir standa.

Tveir frambjóðendur komu mér á óvart og finnst jákvætt að hafa þá í þessum hóp. Hefði fyrirfram ekki hvarflað að mér hversu skemmtileg og opin Elísabet Jökulsdóttir er og hún er líka með skilaboð. Sturla Jónsson, finnst mér ótrúlega röggsamur og veit alveg hvað hann stendur fyrir. Mér finnst þessi tvö bæði hafa hæfileika til að koma sínu til skila og ættu ef til vill bæði heima á Alþingi. Vil samt ítreka að ég er engan vegin skoðanasystkin þeirra, en held þau væru góðir fulltrúar þeirra sem deila með þeim skoðunum og lífsýn.

En af því að umræddur þáttur var nú á RUV. Það hefur verið uppi gagnrýni á Guðna Th, um að hann sé 'Frambjóðandi RUV' allavega búin til af RUV og sumum finnst það ósanngjörn gagnrýni. Nú tek ég fram að mér finnst Guðni Th afskaplega frambærilegur og ég gæti alveg hugsað mér að kjósa hann. Hvað er það hinsvegar upphaflega sem kemur honum í þessa stöðu sem hann er með í dag? Var það ekki vegna þess að hann fékk óvenju mikið rými á sjónvarpskjánum þegar Wintris og SDG málin voru algleymi? Í kjölfarði fer einhver bylgja af stað full af jákvæðum skrefum fyrir mögulegt framboð Guðna. Spurning hvaðan var því stjórnað? Varð það RUV eða tengt RUV? Og ef svo er, skiptir það bara nokkru máli? Því Guðni er mjög frambærilegur einstaklingur sem á augljóslega fullt erindi í embættið.

Hvað ef Wintris og SDG hefði ekki verið í algleymingi en í stað þess mál þar sem þótt hefði rétt að kalla Höllu Tómasdóttur til álitsgjafar? Hún hefði svo verið fastagestur á skjánum í einhverjar vikur og staðið sig þar afarvel eins og hún gerir jafnan þar sem hún er í forsvari. Hefði ekki getað myndast jákvæð bylgja í kringum hana, sem hefði svo verið stutt af réttum fjölmiðlum með jákvæðri umfjöllun? Halla hefur allt til að bera finnst mér til að verða forseti, en hún fékk klárlega ekki forskotið sem Guðni fékk!

Mér finnst því sú gagnrýni um að RUV hafa svolítið búið Guðna Th til alveg eiga rétt á sér. Mér sjálfum finnst það hinsvegar ekki skipta máli, því ég held að RUV hafi þá allavega fundið góðan kandídat. Mér finnst það hinsvegar einna ósanngjarnast gagnvart Höllu, því hún er mjög frambærileg en ekki jafn þjóðþekkt og t.d. Ástþór, Davíð og Andri Snær. Nú er hún að taka mestu fylgissveifluna til sín, því fólk er að sjá hana meira og kynnast hennar röggsemi. Held hinsvegar að það sé að gerast of seint, enda án forgjafar.

Það er klárt mál að fjölmiðlar og sérstaklega RUV hefur haft mikil áhrif á framvindu mála í þessu framboðsmálum. Því það skiptir máli hvort það er RUV, Útvarp Saga eða mogginn sem beitir sér. Ábyrgð RUV er meiri. En var RUV kannski bara að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðill allra landsmanna og finnur frambærilegan kandídat með víðtæka og jákvæða skírskotun til bjóða sig fram til forseta Íslands? Er ekki embættið í eðli sínu þjónustuhlutverk og ætti þá ekki að sitja þar einstaklingur sem er þokkaleg almenn sátt um, en ekki einhver sem er að svala persónulegum metnaði?

Ég persónulega mun nú sennilega ekki ná að kjósa hérna úti, en ef ég legði það nú á mig þá eru allavega tveir, jafnvel þrír af þeim sem eru í framboði sem kæmu til greina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband