Færsluflokkur: Bloggar
Sumarfrí 2010
28.7.2010 | 01:30
Fótboltamót á Ólafsfirði með Hrafnkel. Unnar, Daði og Davíð með í för. Hrafnkell prófaði allar stöður, spilaði vörn, fór í sókn og skoraði nokkur mörk, einn leik í marki þar sem hann stóð sig vel. Góð strákahelgi á Ólafsfirði, en Nikulásarmótið fær slaka einkunn þetta árið, margar ástæður fyrir því sem ég rek ekki hér.
Á sama tíma og strákarnir voru á Ólafsfirði voru stelpurnar á Sumarhátíð UÍA. Þar varð Embla austurlandsmeistari í kúluvarpi, þriðja í spjótkasti og sjötta í langstökki. Frábært hjá henni.
Á þriðjudegi 13 júlí var haldið í ferðalag með fellihýsið. Stefnan tekin norður, hamborgarar á DJ grill á Akureyri og svo sund í Þelamörk. Aftur borgarar í Staðarskála og þaðan keyrt á Hólmavík, þar sem við gistum fyrstu nóttina. Hólmavík er góður staður að heimsækja, þar var nýbúin að vera kærleiksvika og yfirbragð bæjarins bar þess merki með skemmtilegum tilvísunum um allan bæ. Heimsóttum galdrasetrið, en galdrar eru gjarnan kenndir við strandamenn. Fallegur bær.
Frá Hólmavík fórum við yfir Steingrímsfjarðarheiði og stefnan tekin á Ísafjarða kaupstað. Fórum í sund á Reykjanesi við Ísafjörð þar sem er náttúruleg laug og í raun risasstór heitur pottur. Mjög skemmtilegt að koma þarna. Síðan keyrðum við firðina hvern af öðrum, Vatnsfjörð, yfir Mjóafjarðarbrúna nýju, Skötufjörð þar sem við við stoppuðum við Litla-kot og fengum okkur vöflur, kakó og kaffi. Afskaplega hlýlega tekið á móti okkur þarna í fallegu veðri og Eskja fékk að leika lausum hala. Því næst keyrðum við Hestfjörðinn sem er afskaplega fallegur og gróinn, en brattur í sjó fram. Mjög sérstakur. Því næst keyrðum framhjá Seyðisfirði og svo Álftafjörðinn þar sem við fórum í gegnum Súðavík. Stoppuðum ekkert þar og hann var svo sem ekki að skora. Því næst var það bara Skutulsfjörðurinn og Ísafjarðarkaupstaður loksins. Við gistum í Tungudal í frábæru veðri. Fengum okkur Pizzu í Hamraborg og ís, tókum svo golf á 6 holu vellinum sem þeir eru með fyrir byrjendur. Skemmtum okkur konunglega.
Keyrðum yfir á Bolungarvík um Óshlíð og kíktum á Náttúrgripasafnið. Ætluðum að hitta á Bödda sem var því miður í fuglaeftirliti á Patriksfirði, á austurleið. Komum til baka og tókum upp vagnin og tókum göngin til Flateyrar, slepptum alveg Suðureyri. Þvílíkt mannvirki þessi göng og svo eru önnur kominn til Bolungarvíkur. Greinilegt að þingmenn Vestfjarða hafa staðið sig mun betur en okkar Austfirðinga í að fá samgöngubætur. Þeir sem tala hæst um samgöngubætur á Vestfjörðum, hafa sennilega ekki keyrt fjallvegi á Austurlandi. Ætlaði ekki að blanda pólitík í þetta! En við allavega stoppuðum lítið á Flateyri, reyndar vakti tjörn með litlum heimagerðum bátum athygli okkar. Næst
var það Gemlufallsheiði yfir í Dýrafjörðinn og til Þingeyrar. Mjög fallegt í Dýrafirðinum og talsvert undirlendi. Á þingeyri var stoppað og strandblakvöllur myndaður í bak og fyrir. Notað til heimildaöflunar vegna uppbyggingar slíkra mannvirkja á Egilsstöðum. Kristbjörg var mjög hrifinn af þessari aðstöðu. Nú tók við mikil keyrsla frá Þingeyri yfir Hrafnseyrarheiði. Ekki laust við að brugðið hafi fyrir lofthræðslunni, en þetta eru smámunir miðað við flestar heiðarnar hér fyrir austan. Í Arnarfirðirðinum blasti Dynjandi innst í firðinum. Einstaklega glæsilegur foss. Við stoppuðum og löbbuðum upp að honum í frábæru veðri. Ekki spurning að þetta er einn fallegasti foss landsins, ef ekki sá flottasti. Enginn honum líkur. Eftir labbið við Dynjanda, var farið upp á Dynjandisheiði og hún keyrð um Trölladal og horft niður í Geirþjófsfjörð á leiðinni. Við beygðum svo inn Norðdalinn og stefnan tekinn á Tálknafjörð. Þar vorum við stoppuð af ungum Patreksfirðing, því það var verið að taka upp kvikmynd á veginum. Við biðum þarna í 15 mínútur með útsýni yfir Trostantsfjörð. Loks var hleypt á umferð aftur og við keyrðum Trostantsfjörð, Reykjarfjörð og Fossfjörð á leiðinlegum vegi. Komum á malbik aftur við flugvöllin á Bíldudal. Keyrðum hinsvegar framhjá Bíldudal og héldum yfir Hálfdán á leið okkar til Tálknafjarðar. Við vorum orðinn bísna þreytt eftir keyrsluna og áttum ekki von á miklu á Tálknafirði. En þvílíkur staður! Þarna komum við á tjaldstæði, sem er án efa besta tjaldstæðið sem við komum á alla ferðina. Sundlaugin var frábær, það var gervigrasvöllur og strandblakvöllur við tjaldstæðið og mikill gróður. Við fórum svo og fengum okkur frábæra pizzu á veitingastað. Síðan var spilaður fótbolti og blak fram eftir og endað á Trival áður en við fórum að sofa. Tálknafjörður er algerlega frábær staður!
Í pottinum á Tálknafirði fréttum við af miklum vegaframkvæmdum á 20 km kafla á leiðinni áfram frá Brjánslæk. Fólk hafði verið að skemma bæði vagna og jafnvel bíla. Við ákváðum því að taka bara Baldur frá Brjánslæk klukkan 19:00 daginn eftir og bókaði ég það. Við tókum upp frá Tálknafirði og Kristbjörg krafðist þess að stefnan yrði tekin á Rauðasand. Ég var mjög skeptískur á það því að í pottinum hafði vegurinn þangað niðureftir borið á góma og hann ekki talinn fyrir lofthrædda. En lofthræðsla er eitthvað sem ég á erfitt með að díla við. Við allavega héldum af stað og fórum í gegnum Patreksfjörð, sem var mjög óspennandi í samanburði við Tálknafjörð. Stoppuðum ekkert þar, þó að sjóræningjasafn hafi vissulega hljómað spennandi. Við síðan beygjum inn að Látrabjargi sem er sama leið á Rauðasand. Við geymdum fellihýsið í ruslakrús við hliðina á gám merktum Kaupfélagi Héraðsbúa. Síðan var haldið yfir Stórhæð. Vegurinn niður hinumeginn var vissulega brattur til hliðanna, en það var ekkert þverhnípi og þetta miklu léttari vegur t.d. Hellisheiði eystri eða niður í Mjóafjörð. Rauðisandur blasti svo við okkur í frábæru veðri ægifagur. Fjallasýnin að Látrabjörgum stórfengleg og þokkubakkar slúptu yfir fjallabrúnirnar eins og sæng. Algerlega ógleymanleg sýn. Við löbbuðum síðan berfætt út á sandinn og óðum þarna í sjónum. Frábært ævintýri fyrir börnin og ekki síst fyrir Eskju. Rauðisandur er staður sem allir ættu að heimsækja þegar þeir fara vestur. Frá Rauðasandi var haldið í Flókalund að fá sér að borða og í sund. Við tókum síðan Baldur á Brjánslæk og sigldum til Flateyjar, fórum reyndar ekki í land en sáum eyjuna vel. Einstaklega falleg byggð og sérstök, en mjög mikið rok. Síðan siglt til Stykkishólms. Við ákváðum að fara þaðan beint í Borgarnes og gistum þar um nóttina í roki.
Mjög óspennandi í Borgarnesi og við héldum þaðan beint til Reykjavíkur og settum fellihýsið upp í Laugardalnum. Hér er kominn laugardagur og við Hrafnkell ákváðum að skella okkur á Höttur-Afturelding í 2 deildinni upp í Mosfellsbæ. Á meðan fóru stelpurnar Laugaveginn í búðarráp. Leikurinn fór 1-1 og vorum við dulegir að hvetja Hattara. Hitti Fúsa Stefáns á vellinum. Eftir leikinn og búðarrápið var farið í sund í Laugardalnum og svo Kentucky tekin með stæl og svo farið í bíó á skemmtilega mynd, sem ég man ekki hvað heitir. Sváfum vel í Laugardalnum, tókum frjálsíþróttaæfingu á æfingasvæðinu við hliðina morgunin eftir. Hástökk, langstökk, grind og sprettur. Við KJ hlupum í dalnum og svo var tekið sund aftur. Hittum þar Sigurjón Óla og var sett á heimsókn um kvöldið. Fengum þar góðar móttökur eins og venjulega og var mikið etið og spjallað. Alltaf frábært að sækja þau hjón heim. Sváfum svo í Laugardalnum aðra nótt.
Tókum upp og héldum af stað austur fyrir fjall. Komum við á Selfossi og litum á bílsöluna sem við keyptum Krúsa fyrir 6 árum. Erum að huga að bílaskiptum, þar sem við þurfum að selja Freelanderinn og því spurning að selja báða og fara á nýrri bíl. En þetta er hrikalega dýrt dót. Allavega það sem mig langar í. Enduðum svo á Kentucky aftur, hann klikkar ekki. Keyrðum nú sem leið lá að Flúðum, þar var ennþá krökkt af fólki og talsvert rok. Langaði ekki vera þar og ákváðum að halda að Úhlíð og athuga með að komast í golf. Þegar þangað var komið var mikið rok þar og við enduðum á að tjalda í við Geysi eins og í fyrra. Við athugðum svo golfvöllin, en hann var umsetinn og ekki vel séð að vera með eitt sett á fjóra. Greinilega orðinn meiri alvöruvöllur en í fyrra, þar sem við fengum að spila án vandræða. Við fórum því bara í fótbolta við tjaldstæðið og svo í sund í Geysilaug og löbbuðum að Strokk sem blés með reglulegu millibili. Þetta var bara ágætt, nema hvað salernin voru ekki þrifinn og það voru stórir haugar af rusli fyrir utan þau. Mjög sóðalegt og þetta tjaldstæði fær þann heiður að vera versta tjaldstæðið sem við komum í ferðinni.
Frá Geysi var ákveðið að fara á Hvolsvöll og finna aftur pizzastaðinn sem við fórum á í fyrra og sannreyna hvort að þeir væru virkilega með bestu pizzur á Íslandi eins í fyrra. Og viti menn það klikkaði ekki. Þetta er besti pizzustaður á Íslandi, það er bara þannig. Heitir Gallery Pizza og er á Hvolsvelli. Frá Hvolsvelli var haldið af stað austur á bóginn og í raun tekin ákvörðun þarna um að enda bara í Dalskógunum. Við vorum búin að gista 8 nætur í Fellihýsinu og langaði bara að komast aðeins heim. Þannig var keyrt stanslaust til Hafnar í Hornafirði þar sem við fórum í sund og átum Hamborgara á N1. Síðan Öxi tekin heim í Hérað. Ljúft að koma heim.
Þegar heim var komið á miðvikudegi, tókum við tvo vinnudaga og svo var stefnan tekin á Bræðsluna á Borgarfirði Eystri. Ákváðum að tjalda fellihýsinu þar á fjölskyldusvæði og vera frá föstudegi fram á sunnudag. Komum á hádegi á föstudegi og var þá farið beint í að veiða við Höfnina. Þar veiddi Daníel Freyr tvo Maradonna, ég fékk einn Maradonna og einn Máf. Snilld! Við Kristbjörg ákváðum að fara svo á tónleika með Jónasi Sig fyrrum sólstrandagæja. Það spilaði fyrst einhver unglingasveit sem ég man ekki nafnið á og eitthvað í land með að verða áhugaverð. En svo kom Jónas kallinn og þvílíkir tónleikar!! Þetta hlýtur að vera eitt magnaðasta tónleikaband á landinu. Þéttleikin var þvílíkur. Ég var kominn með hrukkur af gæsahúðinni eftir þessa upplifun. Mig langaði ekki einu sinni á Bræðsluna sjálfa eftir þetta, hef reyndar engan sérstakan Dikta áhuga sem flestir voru með. Meðan við KJ vorum á tónleikum var Adda Birna með Emblu og Hrafnkel, Tara sá um sig sjálf. Góður dagur.
Á Laugardeginum var prógrammið að labba eitthvað í Borgarfiðrinum. Við ákváðum að reyna við Brúnavíkurskarð. Lögðum af stað frá Höfn og röltum þangað til við sáum Brúnavíkina, en fórum ekki allaleið niður. Það var ekki meirihluti í hópnum fyrir því. En þetta var þó tveggja og hálfstíma labbitúr í frábæru veðri. Því næst fóru Hrafnkell og Embla í sjóbað. Hrafnkell stökk í sjóinn af bryggjunni og Embla Ósk óð út í og synti í sjónum. Þvílík stemming í gangi. Áður hafði Embla sýnt á tískusýningu. Um kvöldið var komið að okkur að sjá um Daníel og Emilíu meðan Guðgeir og Adda fóru á Bræðsluna. Við heyrðum ágætlega í tónleikunum frá tjaldstæðinu, en mig langaði ekkert að fara. Merkilegt nokk. Átum sveitta borgara hjá Helga Hlyn. Fór í fótbolta með krökkum sem voru þarna í kringum okkur á tjaldstæðinu. Ég og Einar Jóns vorum í marki, meðan strákarnir spiluðu og var mikill hiti í leiknum. Önnur markstöngin réðist á mig og stór sér á henni ennþá. Bara gaman. Á sama tíma tíndust Emblurnar og Emilía, en fundust í fjörunni og hurfu þaðan upp á Álfaborgina. Spjölluðum við Gunnu Völu og Baldur frameftir, átum hákarl og harðfisk frá Kalla og supluðum bjór. Bara næs. Frábær dagur á Borgarfirði.
Á sunnudeginu haldið heim aftur og ákveðið að Stór-Urð biði betri tíma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annar bæjarstjórnarfundur
26.7.2010 | 16:15
Annar bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstjórnar var haldinn 7 júlí. Fundargerð fundarins má finna hér og upptaka af fundinum hér. Þetta var í raun fyrsti fundurinn sem lá fyrir einhver alvöru dagskrá og þegar ég sá hana gerði ég mér grein fyrir vinnunni við að fara í gegnum og setja sig inn í öll þessi mál fyrir einn fund. Sum eru þess eðlis, að einfaldur yfirlestur fundargerða gerir mig ekki færan til að meta eða gagnrýna ákvarðanatökur. Enda fór það svo að eftir að hafa lesið yfir fundargerðir og kynnt mér það sem ég taldi mig geta, þá ákvað ég að treysta afgreiðslu nefnda og bæjarráðs og greiddi atkvæði með þeim tillögum sem voru bornar upp.
Fyrir fundinn hafði ég einsett mér að ræða tvö málefni sem voru á dagskrá fundarins, annarsvegar málefni bæjarstjóra og svo málefnasamning meirihlutans. Það fór reyndar svo að ég blandaði því saman undir umræðum um málefnasamning. Ég hef rýnt í þennann samning og hann er á engan hátt alvondur. Það eru vissulega atriði sem við hefðum áhuga á að fá til viðbótar og hefðum kosið annað orðalag á annað, en heilt yfir væri hægt að skrifa upp á þetta plagg. Því þetta er almennt orðað og engar útfærslur á þessum málefnum til að rökræða.
Ég velti því því fyrir mér hvernig ég ætti að fara inn í umræður um þetta plagg, því það er vissulega hægt að taka þarna fjölmörg atriði og snúa út úr orðalagi og kalla eftir útfærslum og útskýringum og örugglega hefði verið hægt að slá um sig með einhverjum frösum. Ég ákvað að fara millileiðinni í þessu og taka fyrir tvö atriði sem ég gagngrýndi og spurði út úr. Annarsvegar varð það varðandi samvinnu og samstarf við alla flokka sem er í fyrstu málsgreinum samningsins. Þar fór ég í gegnum ferilinn við auglýsingaferli við ráðningu bæjarstjóra sem var engan veginn á þeim nótum að áhugi væri á samvinnu og samstarfi. Enda báðu Gunnar Jónsson og Stefán Bogi minnihlutann afsökunar á þeirri framvindu og hafa í framhaldinu kallaði eftir samstarfi minnihlutans við ráðningarferlið. Hitt atriðið var fyrirspurn út frá klausunni um sjálfstæði skóla, en ég kallaði eftir því hvernig meirihlutinn skilgreindi sjálfstæði skóla, þ.e. hvort hún fæli í sér, fjárhagslegt, stjórnunarlegt eða faglegt sjálfstæði eða jafnvel blöndu af þessu. Eyrún svaraði því til að áherslan væri á faglegt sjálfstæði og þau telja að samruni skóla muni storka því. Útfærsla á hagræðingu í fræðslu og skólamálum á svo eftir að eiga sér stað inn í fræðslunefnd og þar munu væntanlega verða settir fram valkostir að vinna með og þar mun fara fram dýpri umræða um nálganir. Þar gætu menn átt eftir að takast um leiðir.
Ég lokaði svo þessari málefnasamningsumræðu með því að leggja áherslu á þau gildi sem Héraðslistinn vann eftir og mun vinna áfram eftir. Eins ítrekaði ég að við hefðum bæði í ræðu, riti og raun, sett fram þá hugmynd að gerður yrði einn málefnasamningur allra framboða. Gunnar svaraði því með sú staða gæti komið upp að meirihluta þyrfti til að klára mál og vísaði jafnframt í hefðir hvað þetta varðar, ég er þar ósammála og tel að hvert málefni sé verkefni þar sem verði til meirihluti fyrir afgreiðslum. En ég lagði líka áherslu á að fólk hugsaði út fyrir kassann og þyrði að ögra hefðunum. Notaði þarna nýyrði sem ég kallaði víst Gnarr-ísku, veit ekki hvort það hefur verið notað áður.
Kollegar mínir í Héraðslistanum tóku líka til máls. Ítrekaði Sigrún Blöndal bókun varðandi starfsmannamál sem gerð var á bæjarráðsfundi og má sjá hér. Ræddi um stöðu Héraðsskjalasafnsins og lagði áherslu á að þar næðist sátt um ýmis mál sem er verið að glíma við í fulltrúaráðinu. Lagði áherlsu á að borinn væri virðing fyrir mannauðnum sem vinnur í stjórnsýslunni, eins ræddi hún að muna eftir menningarsamningunum. Talaði líka um íbúalýðræði og njóla.
Árni Kristins tók svo til máls undir málefnum skipulagsnefndar og kom á framfæri að þyrfti regluverk um land sem menn taki í fóstur, sér í lagi ef til þess kæmi innan þéttbýlis. Eins ræddi hann skipulag á mótorkross svæði sem þarf að vera klárt fyrir landsmót á næsta ári.
Ræðustubbarnir mínir voru þeir fyrstu á þessu vettvangi og ekki laust við að maður væri talsvert nervus. Ég leyfði mér nú að kíkja á upptökuna og sé að ég þarf að bæta ýmislegt, sem vonandi kemur með reynslunni. Nota t.d. orðið hérna óheppilega oft í stað þagnar. Ágætt að geta gagngrýnt sig svona eftir á.
Eflaust kann einhverjum að þykja að við í minnihlutanum ekki hafa verið nægilega aggressíf í gagnrýninni. Mín skoðun er sú að við eigum að fara af stað í þetta með það markmið að vinna af heilindum fyrir bæjarbúa og það gerum við best með því að reyna að skapa vinnufrið sem fyrst, því næg er upplausnin orðinn nú þegar með sviptingum í starfsmannamálum. Það verður af nægum ágreiningsefnum að taka þegar unnin verður fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og þá eru það mál sem skipta raunverulegu máli.
En í ljósi þessa fundar og upplifunar þá tel ég mikilvægt að kalla eftir innleggi frá íbúum um þau mál sem þeir telja að þurfi að ræða sérstaklega. Dagskrá fundar er venjulega tilbúin nokkrum dögum fyrir bæjarstjórnarfund og þar geta allir séð hvaða mál verða þá á dagskrá. Eins getur bæjarfulltrúi, samkvæmt 10 grein í samþykkt um stjórn Fljótsdalshéraðs og fundarsköp bæjarstjórnar, fengið mál á dagskrá. Það þarf reyndar að vera klárt viku fyrir bæjarstjórnarfund. Ef koma beiðnir um að skoða ákveðinn mál, þá er hægt að setja sig inn í því og skoða með starfsmönnum og meta þá hvort og þá hvernig skuli nálgast slík mál inn í bæjarstjórn.
Ég vil því ítreka að ég sem kjörinn fulltrúi er í forsvari fyrir íbúa og vil því hvetja ykkur til að senda fyrirspurnir á mig. Það má senda á netfangið tjorvi@egilsstadir.is, eins er hægt að fara inn á vef Héraðslistans í Hafa samband og senda inn erindi sem er áframsent á kjörna fulltrúa Héraðslistans, eins hægt að senda heradslistinn@heradslistinn.is sem fer sömu boðleið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsti fundur atvinnumálanefndar
30.6.2010 | 12:54
Ég sit sem aðalmaður í atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs fyrir Héraðslistann. Ég lagði mikla áherslu á að sitja í þeirri nefnd, því mér finnst þetta mjög mikilvægur vettvangur fyrir framþróun samfélagsins og ég tel mig hafa ýmislegt fram að færa inn í þennan málaflokk. Fyrsti fundur í nefndinni var haldin 25 júní en nefndin er skipuð eftirfarandi einstaklingum.
Aðalmenn:
Gunnar Þór Sigbjörnsson ( B ) , formaður
Þórey Birna Jónsdóttir ( B ) , varaformaður
Jóhann Gísli Jóhannson ( Á )
Tjörvi Hrafnkelsson ( L )
Aðalsteinn Jónsson ( D )
Varamenn:
Ingvar Ríkharðsson ( B )
Kristjana Jónsdóttir ( B )
Kristín María Björnsdóttir ( L )
Gunnar Jónsson ( Á )
Þórhallur Harðarson ( D )
Dagskrá fundarins var almenns eðlis eins og sjá má á fundargerð. En í óformlegum umræðum var rætt vítt og breitt um atvinnumál og allir reifuðu sínar hugrenningar stórar og smáar. Þar bar ýmislegt á góma, svo sem Hollensk ylrækt, matvælamiðstöð, náttúrugarðar og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt.
Það verður áhugavert að vinna að þessum málaflokki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um kjör bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði
26.6.2010 | 12:05
Vegna fréttar á vefnum agl.is um kjör fráfarandi bæjarstjóra á Egilsstöðum þá finn ég mig knúinn til að koma með nokkrar athugasemdir. Fyrir því eru tvær ástæður:
- Héraðslistinn sem var í meirihluta bar ábyrgð á þessum samningi og ég er nýkjörinn bæjarfulltrúi fyrir það framboð.
- Ég er einn af eigendum vefsins agl.is, þó ég komi á engan hátt nálægt ritstjórn eða skrifum á vefinn. Ritstjóri og blaðamaður hafa ekki áhuga á að leiðrétta rangfærslur í viðkomandi frétt og því kem ég þessu á framfæri í gegnum mína bloggsíðu.
Í þessari frétt er hafður til grundvallar ráðningarsamningur sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs gerði við bæjarstjóra. Í þessum samningi eru nokkrir liðir sem lúta launakjörum. Ég ákvað fara sömu leið og blaðamaður og leggja út frá samningum og aflaði mér svo upplýsinga hjá fjármálastjóra bæjarins um hvernig launin hefðu raunverulega uppreiknast. Hér eru niðurstöður úr útreikningum í þremur dálkum, þ.e. miða við upphaflegan samning frá 2006, uppreikningur agl.is og svo raunverulegur uppreikningur miðað við júní 2010.
| 2006 | Agl.is | 2010 |
|
Dagvinnulaun | 588.066 | 770.000 | 644.179 | 10 % hækkun á tímabilinu. Taxtinn samsvarar taxta hjá reyndum skólastjóra í meðalstórum skóla. agl.is notar stuðul upp á 24% hækkun |
Föst yfirvinna | 305.331 | 400.000 | 334.490 | Yfirvinnugreiðslur eru vegna fundarsetu bæjarstjórnar, bæjarráðs og nefnda sem bæjarstjóri er kvaddur til sem og annarra verkefna sem fylgja starfinu og eru utan hefðbundins vinnudags. Ekki er um aðrar yfirvinnugreiðslur að ræða. |
Laun alls: | 895.403 | 1.170.000 | 980.679 |
|
Launatengd gjöld | 232.804 | 500.000 | 254.976 | Launtengd gjöld eru reiknuð 26% af dagvinnu og yfirvinnu. Agl.is ákveður hinsvegar að gera ráð fyrir launatengdum gjöldum ofan á bifreiðastyrk, dagpeninga og húsaleigu líka og leggur ca 36% ofan á það. |
Samtals laun og launatengd gjöld: | 1.128.207 | 1.670.000 | 1.235.655 |
|
| ||||
Bifreiðastyrkur | 55.800 | 90.000 | 89.100 | 900 km * 62 krónur ( samsvarar ca 1 1/2 ferð til Akureyrar ) |
Fastir dagpeningar | 70.000 | 95.000 | 95.400 |
|
Húsaleiga | 40.000 | 64.000 | 55.792 |
|
Samtals : | 1.294.007 | 1.919.000 | 1.475.947 | Samtals kostnaður vegna launaliða í ráðningarsamningi. |
2006 | Agl.is | 2010 | ||
Biðlaun í 6 mánuði | 5.947.200 |
| 6.741.366 | Í samningngum er kveðið á um biðlaun í 6 mánuði og miðast þau við dagvinnu, yfirvinnu, bifreiðastyrk og húsaleigu.
|
Launtatengd gjöld | 1.546.276 |
| 1.752.755 | 26 % |
Samtals: | 7.493.494 | 11.514.000 | 8.494.121 | Kostnaðurinn við að skipta um bæjarstjóra. |
Eins og sjá má á þessum samanburði, þá virðist agl.is og Sigurður Aðalsteinsson frændi minn og varamaður í svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir Á-listann meðvitað eða ómeðvitað reyna að skekkja tölur. Því upphaflegar tölur er allar réttar, en svo eru notaðar uppreiknireglur sem eru mjög villandi, en mér skilst að óháður aðili hafi lagt til þennann útreikning, hef ekki kynnt mér það frekar. Skilst svo að það liggi fyrir beiðni um ráðningarsamning bæjarstýru Fjarðabyggðar og þá verður væntanlega beitt sömu reiknikúnstum til samanburðar, þannig að tölur agl.is séu þá innbyrðis í samræmi.
En hér eru allavega eins réttar tölur og ég gat útvegað mér og blaðamaður hefði líka geta fundið. En þrátt fyrir þessa leiðréttingu á frétt agl.is, þá stendur samt eftir að heildarlaun bæjarstjórans eru frekar há sé miðað við launaþróun almennt í stjórnunarstöðum. Má þar nefnda laun forsætisráðherra og umdeild laun seðlabankastjóra.
En hvernig lýtur þetta út samanborið við önnur sveitafélög. Á vef sambands sveitarfélaga má finna þessa úttekt og hér er klausa er varðar kjör sveitarstjóra:
Greiðslur fyrir framkvæmdastjórn Launagreiðslur til bæjarstjóra eru í þremur tilvikum á bilinu 600-799 þúsund kr., í sjö tilvikum 800-999 þúsund kr., í einu tilviki 1.000-1.199 þúsund kr. og í einu tilviki yfir 1.200 þúsund kr. Hlunnindi bæjarstjóra eru í fjórum tilvikum undir 50 þúsund kr. á mánuði, í tveimur tilvikum á bilinu 50-99 þúsund kr. á mánuði, í þremur tilvikum á milli 100 og 149 þúsund kr., og í fjórum tilvikum á bilinu 150-199 þúsund krónur á mánuði. Biðlaunaréttur bæjarstjóra Biðlaunaréttur bæjarstjóra í þessum stærðarflokki er í 12 tilvikum sex mánuðir og í einu tilviki er hann ekki til staðar. |
Samandregið er þetta svona:
Laun | Fjöldi |
|
600-799 þúsund | 3 |
|
800-999 þúsund | 7 | Bæjartjóri Fljótsdalshéraðs: 980.679,00 kr. |
1000-1.199 þúsund | 1 |
|
1.200 þúsund eða meira | 1 |
|
Hlunnindi bæjar-/sveitarstjóra á mánuði sem hluti af launakjörum (þús.kr)Hlunnindi eru skilgreind sem greiðslur eða hlunnindi fyrir utan beinar launagreiðslur s.s. fastur bifreiðastyrkur, frír bíll, frír sími, risna og húsnæðiskostnaður |
Hlunnindi | Fjöldi |
|
Minna en 50 þúsund | 4 |
|
50-99 þúsund | 2 |
|
100-149 þúsund | 3 | 144.892 , bílastyrkur og húsnæðiskostnaður hjá bæjarstjóra. Samkvæmt skilgreiningu falla dagpeningar ekki undir þetta, sem er í samræmi við t.d. biðlaunaákvæði ráðningarsamnigs. |
150-199 þúsund | 4 |
|
Samkvæmt þessu þá eru laun bæjarstjóra í samræmi við önnur sveitarfélög af sömu stærðargráðu.
Svo aftur sé vísað í fréttina á agl.is þá má sjá að þar er uppreiknað með 24% ofan á upphaflegan samning. Það gæti verið tala sem væri hlutfall af vísitölum, annaðhvort neysluvísitölu eða launavísitölu. Hér eru tvær vísitölur sem spanna samningstímann.
| Júní - 2006 | Maí - 2010 | % hækkun |
Vístala neysluverðs | 261,9 | 365,3 | 40% |
Launavísitala | 290,4 | 370,1 | 28% |
|
|
|
|
Ef uppreikningurinn hjá agl.is byggir t.d. á launavísitölunni miða við eitthvert tímabil, þá má vissulega fita útreiknaðar tölur. Það sem gleymist þá augljóslega að taka með í reikningin er sú staðreynd að starfsmenn bæjarins frystu laun frá 1 jan 2009. Sjá fundargerðir bæjarráðs og bæjarstjórnar frá 10 nóvember 2008 og 19 nóvember 2008 . Auk þess tóku starfsmenn skrifsstofu launalaus leyfi á árinu 2009.
Þetta var um kjör bæjarstjórans til leiðréttingar á frétt á agl.is.
En þá að því sem skiptir öllu máli akkurat núna. Hvaða kjör ætlar núverandi meirihluti að bjóða nýjum bæjarstjóra? Miðað við yfirlýsingar þeirra sjálfra í kosningabaráttu og yfirlýsingar stuðningsmanna þeirra t.d. á vef agl.is, þá verður það væntanlega allt mjög gegnsætt og sparsamt. Í mínum huga er það krafa í ljósi yfirlýsinga meirihlutans að það verði gefið upp hvaða upplegg á kjörum verður í viðræðum við nýjan bæjarstjóra. Hver verður dagvinnutaxtinn? Verður greidd föst yfirvinna eða öll unnin yfirvinna? Hvernig verður bíla og húsaleigu hlunnindum háttað? Osfrv. Ekki hef ég sem nýr bæjarfulltrúi fengið neinar skjalfestar upplýsingar um hvernig staðið verður að viðtölum og hvaða ráðningakjör verða í boði. Því þó að sé búið að auglýsa og taka á móti umsóknum, þá er ekki kominn stafur í fundarbækur sveitafélagsins um hvað er að fara fram. Ég skora á eldheita stuðninsgsmenn nýja meirihlutans að kalla líka eftir því að þetta verði uppi á borðum og kannski ætti sá hópur sem hæst hefur að einbeita sér að því að sýna sínu fólki aðhald og fylgja því eftir að það standi sig í fagmennskunni og sparnaðinum.
En það er nú samt sem áður mín trú að þessi mál fái að lokum rétta og réttláta umræðu inn í bæjarráði og svo bæjarstjórn og það verði valinn til verksins hæfur einstaklingur, á sanngjörnum kjörum og það verði breið samstaða og sátt um þá ráðningu. En hvernig sem sú ráðning fer þá verður mikill missir af Eiríki Birni Björgvinssyni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fyrsti bæjarstjórnarfundur
21.6.2010 | 01:08
Sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í vikunni. Þar var eitt mál á dagskrá, þ.e. kosning fulltrúa í embætti, stjórnir og nefndir. Fundurinn rann ljúft með upptalningum og handuppréttingum á víxl. Fátt um þá framvindu að segja í sjálfu sér. Niðurstöðuna má lesa í fundargerð fundarins sem má finna á vef sveitafélagsins.
Nú er ég nýgræðingur í sveitastjórnarmálum og ætla að leyfa mér að tjá mig sem slíkur. Ég var því ekki með mjög fastmótaða hugmynd um hvernig fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar ætti að fara fram. Það sem vakti athygli mína var það sem ekki var á dagskrá og mér hefði þótt eðlilegt að væri á dagsrkrá fyrsta fundar.Í fyrsta lagi þá var málefnasamningur hins nýja meirihluta ekki lagður fram eða ræddur á þessum fyrsta fundi. Hefði það ekki verið eðlilegt að sveitarstjórn væri kynntur formlega málefnasamningur meirihlutans? Hann er reyndar kominn á vef sveitafélagsins sem er kannski nóg, þekki ekki hefðina í þessu. Tékkaði samt á netinu hjá öðrum bæjarfélögum og t.d. í Grindavík, Seyðisfirði og Akureyri var lagður fyrir málefnasamningur eða yfirlýsing lesin upp á fyrsta fundi. Það lýtur því út fyrir að almennan reglan sé sú að yfirlýsing sé lögð fram á fyrsta fundi og gefinn kostur á umræðum.
Annað sem vakti líka athygli er að ekki skyldi rætt um bæjarstjóraskipti. Því það kemur fram á heimsíðu sveitafélagsins að búið er að auglýsa eftir bæjarstjóra. En það kemur líka fram í lögum og samþykktum um ráðningu framkvæmdastjóra bæjarins að það er sveitarstjórn sem ræður framkvæmdastjóra (bæjarstjóra), ekki bara meirihluti sveitarstjórnar, sem þó vissulega í ljósi aflsmunar mun hafa úrslita áhrif á það hver verður ráðinn. Hefði ekki verið eðlilegt að hafa lið á dagskrá sem þar sem væri rætt um og bókað að auglýsa skuli starf bæjarstjóra? Ef önnur sveitarfélög eru skoðuð má sjá að allavega Grindavík hefur farið þessa leið á fyrsta fundi.
Í ljósi þessa fyrsta fundar þá spyr ég mig hvort þetta séu væntanleg vinnubrögð nýs meirihluta að halda málum út af fyrir sig. Held reyndar að þetta sé frekar vitnsiburður um að þetta var fyrsti fundur, þar sem 7 af 9 bæjarfulltrúum eru nýjir. Held og vona að hópurinn eigi eftir að slípast til og vinna að heilindum í öllum málum.
En hér talar vissulega reynslulaus bæjarfulltrúi sem á eftir að skólast til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Úrslit kosninga
31.5.2010 | 15:37
Lýtum aðeins yfir staðreyndir í þeim efnum:
Bæjarfulltrúar Fljótsldalshéraðs voru 11 á síðasta kjörtímabili og úrslit kosninga 2006 voru eftirfarandi.
2006 | 1 mann | 2 menn | 3 menn | Hlutfall | ||
B | 486 | 486 | 243 | 162 | 31% | 3 bæjarfulltrúar |
D | 444 | 444 | 222 | 148 | 28% | 3 bæjarfulltrúar |
L | 404 | 404 | 202 | 135 | 25% | 3 bæjarfulltrúar |
Á | 258 | 258 | 129 | 86 | 16% | 2 bæjarfulltrúar |
1592 | 100% |
Ef hefði verið kosið um 9 bæjarfulltrúa árið 2006 og sömu úrslit þá hefði fulltrúaskipanin verið þessi.
2006 | 1 mann | 2 menn | 3 menn | Hlutfall | ||
B | 486 | 486 | 243 | 162 | 31% | 3 bæjarfulltrúar |
D | 444 | 444 | 222 | 148 | 28% | 3 bæjarfulltrúar |
L | 404 | 404 | 202 | 135 | 25% | 2 bæjarfulltrúar |
Á | 258 | 258 | 129 | 86 | 16% | 1 bæjarfulltrúi |
1592 | 100% |
En skoðum svo úrslit kosninganna á laugardaginn.
2010 | 1 mann | 2 menn | 3 menn | Hlutfall | ||
B | 559 | 559 | 280 | 186 | 33% | 3 bæjarfulltrúar bæta við sig 2% fylgi. |
D | 287 | 287 | 144 | 96 | 17% | 1 bæjarfulltrúi, tapa 2 fulltrúum og 11 % minna fylgi. |
L | 459 | 459 | 230 | 153 | 27% | 3 bæjarfulltrúar, bætir við sig 1 fulltrúa og 2 % fylgi |
Á | 397 | 397 | 199 | 132 | 23% | 2 bæjarfulltrúar, bætir við sig 1 fulltrúa og 7 % fylgi. |
1702 | 100% |
Hverjir eru þá sigurvegarar í þessum kosningum? Það er augljóst að það er Á listinn, hann bætir við sig mestu fylgi 7% og einum manni. Sá sem kemur næst er Héraðslistinn, sem bætir við sig 2% fylgi og einum manni. Framsókn bætir við sig 2% fylgi en engum manni og Sjálfstæðisflokkurinn fær svo skell.
Má þá ekki alveg eins lesa út úr þessum niðurstöðum að það sé kallað eftir samstarfi L-lista og Á-lista?Framsókn hefur talið sig eiga sviðið, þar sem þeir hafa flest atkvæði á bak við sig. En þeirra málflutningur og gagnrýni hefur ekki skilað sér betur en í 2% fylgisaukningu og sama fulltrúafjölda og áður.
Ef ætti að túlka raunverulega kröfu kjósenda út frá niðurstöðu kosninganna, þá er hún sú að L-listi og Á-listi vinni saman í meirihluta næstu 4 árin.
Héraðslistinn hefur lagt fram hugmynd um að vinna að sameiginlegri málefnaskrá allra flokka. Sú hugmynd var sleginn út af borðinu hjá framsókn á fyrsta og eina fundi sem haldin var með þeim um hugsanlegar meirihlutaviðræður, þannig að sú leið er ekki valkostur lengur.Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fljótsdalshérað til framtíðar
24.5.2010 | 01:33
Stefnuskrá Héraðslistans er unnin undir fjórum stoðum; velferð, þekking, þjónusta og umhverfi. Hugmyndin byggir á vinnu sem var unnin um framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027 og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum bæjarstjórnar 7.nóvember 2007. Þó að ýmislegt hafi gerst í samfélaginu frá 2007 þá stendur sú framtíðarsýn sem þarna var mótuð fyllalega og því nærtækt að byggja á umræddum stoðum og horfa á Fljótsdalshérað til framtíðar.
Til að takast á við verkefnin framundan þá telur Héraðslistinn mikilvægt að byggja upp traust gagnvart kjósendum. Liður í því er að leggja til að kjörnir fulltrúar og starfsmenn starfi eftir skilgreindum siðareglum og til að vera heiðarleg í þeirri viðleitni þá birta frambjóðendur upplýsingar um hagsmunatengsl og kjör á vefnum.
Héraðslistinn telur mikilvægt að sýna ábyrgð í verki með því að takast á við innviði sveitarfélagsins. Þar köllum við eftir samvinnu við starfsfólk við að samþætta starfssemi til að ná fram sveigjanleika og jafnræði . Lykilatriði í allri slíkri vinnu er að hafa hagsmuni íbúa í fyrirrúmi. Þegar kemur að stórum ákvörðunum þá vill Héraðslistinn virkt íbúalýðræði við að kynna hugmyndir og kalla jafnframt eftir hugmyndum frá íbúum.
Héraðslistinn vill koma upp föstum viðtalstímum bæjarfulltrúa og útvíka möguleika á gagnvirkum samskiptum í gegnum íbúagátt. Jafnframt að nefndir kynni reglulega á opnum fundi þá vinnu sem þær eru að vinna og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þannig leggur Héraðslistinn áherslu á að íbúum verði haldið eins upplýstum og kostur er.
Héraðslistinn hefur í sinni vinnu velt fyrir sér hugmyndinni um að öll framboð sem fái kjörna fulltrúa myndi með sér einn málefnasamning. Kjörnir fulltrúar eru oftast sammála um afgreiðslu mála sem varða hag sveitarfélagsins og oft nefnt að 90% mála séu án ágreinings. Ef svo er, af hverju er þá til eitthvað sem heitir meirihluti og minnihluti? Ef yrði gerður einn málefnasamningur allra framboða, þá fá öll framboð formenn í nefndum og hafa þar með öll sýnileg áhrif. Það má vera að þetta sé ógerlegt, en ég skora á önnur framboð að hugsa þennan möguleika.
Héraðslistinn mun sýna hugrekki og þolinmæði í þeim verkefnum sem þarf að takast á við og hópurinn er fullur bjartsýni fyrir hönd Fljótsdalshéraðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forval Héraðslistans
25.3.2010 | 00:41
Það eru 20 manns sem taka þátt í opnu forvali Héraðslistans sem haldið verður 25-27 mars. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í eitt af þremur efstu sætunum og er tilbúinn að leiða listann.
Héraðslistinn hefur átt þrjá menn í bæjarstjórn þetta kjörtímabil og er í meirihluta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Bæjarfulltrúar listans, sem voru kosnir í síðustu kosningum, gefa ekki á kost á sér aftur og því ljóst að um mikla endurnýjun verður að ræða. Ég tel mikilvægt að í bæjarstjórn sé fjölbreyttur hópur fólks, með mismunandi bakgrunn og reynslu. Mín reynsla er úr atvinnulífinu í kringum upplýsingatækni og nýsköpun.
Það eru ýmis mál sem brenna á bæjarbúum fyrir þessar kosningar, en líklega ekkert jafnmikið og fjármálin og staða sveitarfélagsins. Sveitarfélagið fór ekki varhluta af hruninu og verkefnin sem bíða nýrra bæjarfulltrúa á margan hátt óspennandi, því við viljum jú vera að byggja upp en ekki þurfa að skera niður. Ýmislegt hefur áunnist á núliðnum vetri við að mæta þessu breytta umhverfi og rétt að benda á fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Sitt sýnist svo hverjum um hvernig og hvar er skorið niður. Ekki ætla ég að þykjast vera með töfralausnir varðandi fjármál sveitarfélagsins, veit hinsvegar að í þessu felast erfið og krefjandi verkefni fyrir nýja bæjarfulltrúa.
Atvinnumálin er sá málaflokkur sem er mér hvað hugleiknastur. Í þeim efnum finnst mér mikilvægast að hlúa að þeim fyrirtækjum og þekkingu sem þegar er til staðar á Fljótsdalshéraði. Ég tel að samvinna fyrirtækja og miðlun þekkingar og reynsla þeirra í milli sé mjög mikilvægur þáttur í að byggja upp atvinnu og treysta grunn fyrirtækja. Sú ráðstöfun að ráða Atvinnumálafulltrúa til starfa til sveitarfélagsins, tel ég hafa verið skynsamlega og mín skoðun að slíkur tengiliður þurfi ætíð að vera til staðar á vegum sveitafélagsins. Tengsl stjórnsýslu og atvinnulífsins þurfa að vera að vera gagnvirk.
Aukið samstarf milli stóru sveitarfélaganna á Austurlandi er mér einnig mjög hugleikið. Reyndar er ýmis samvinna í gangi nú þegar sem gengur vel og því bara spurning um að halda áfram á þeirri braut. Ég vil að stærri sveitarfélögin stuðli að því að myndaður verði vettvangur sem skoði mögulega snertifleti á verkefnum, þar sem hægt er að samnýta krafta og þekkingu.
Ég vil bæta íbúalýðræði með milliliðalausu aðgengi að kjörnum fulltrúum með föstum viðtalstímum. Ennfremur að nýta upplýsingatækni enn frekar til að bæta þjónustu við íbúa með gagnkvæmri upplýsingagjöf, íbúagátt á vefnum er mikilvægt skref í þessu ferli.
Ég geri mér grein fyrir að verkefnin eru ærin fyrir nýtt fólk á vettvangi bæjarmála og líklega sjaldan verið jafn erfið. Ég er tilbúin að leggja mig fram og takast á við þessi verkefni og mun vinna þau af heilindum og áræðni.
Ef þið viljið koma á mig spurningum og ábendingum þá er hægt að senda mér tölvupóst á tjorvi@austurnet.is.
Nánar um forval Héraðslistans á vefsíðu samtakanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forval hjá Héraðslistanum 25-27 mars
18.3.2010 | 00:58
Á heimasíðu Héraðslistans er búið að tilkynna um forval og kominn kynning á þátttakendum. Fríður og föngulögur 20 manna hópur sem er tilbúin að vera með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þorrablót í kvöld!
22.1.2010 | 00:56
Þá er enn og aftur kominn bóndadagur og það þýðir þorrablót á Fljótsdalshéraði í kvöld. Það er alltaf sama eftirvæntingin ár hvert að komast á blót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)