Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
Notkun á opnum hugbúnaði
21.5.2010 | 00:43
Tölvur og hugbúnaður er staðalbúnaður í allri skrifstofuvinnu. Það er greiddar talsverðar fjárhæðir í leyfisgjöld á hugbúnaði hjá flestum sveitafélögum og fer Fljótsdalshéraði ekki varhluta af þeim kostnaði. Gerður hefur verið altækur þjónustusamningur um hýsingu og rekstur neta hjá sveitafélaginu sem rennur út árið 2012. Það er ljóst að stór hluti af þeim hugbúnaði og kerfum sem starfsfólk stofnana og stjórnsýslu er að nota er hefðbundinn skrifstofuhugbúnaður. Mörg þessara kerfa er aðgengilegur sem opinn eða frjáls hugbúnaður á internetinu.
Í mars 2008 var samþykkt stefna þáverandi ríkisstjórnar um að auka vægi notkunnar á frjálsum og opnum hugbúnaði. Þannig er það gert að vinnureglu að meta ætíð kosti þess að taka upp opinn hugbúnað, þegar velja á ný hugbúnaðarverkfæri. Héraðslistinn setur fram þá stefnu að auka þekkingu á opnum hugbúnaði innan stjórnsýslu og stofnana sveitafélagsins, með það markmið að skipta út leyfisskildum hugbúnaði fyrir opin hugbúnað.
Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu á slíkum hugbúnaði í skólunum. Með því að byggja upp þekkingu og getu fólks til að nýta sér opinn hugbúnað og vekja áhuga á aðgengi hans, verður hægt að stíga stærri skref þegar hýsingar og þjónustusamningar verða endurskoðaðir. Þá gefst möguleiki á að skipta út leyfisskyldum stýrikerfum fyrir opinn stýrikerfi þar sem það er hægt. Það er líka ljóst að það verður seint hægt að skipta út öllum leyfisskyldum hugbúnaði, því margt af þeim hugbúnaði verið er að nota er mjög sérhæfður og jafnvel sérsmíðaður. Slík verfæri þarf alltaf að gera ráð fyrir að séu notuð samhliða.
Þessi þróun í opnum hugbúnaði er að eiga sér víða stað og það er mikilvægt að Fljótsdalshérað taki þátt, því til lengri tíma mun þetta geta sparað talsverðar upphæðir og um leið gefur það sveitarfélaginu meiri möguleika á sveigjanleika hvað varðar kaup á þjónustu og uppbyggingu þekkingar.
Héraðslistinn vill fara í það sem fyrst að setja af stað verkefni um að auka notkun á opnum hugbúnaði í stjórnsýslu og stofnunum sveitafélagsins.
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 23.5.2010 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í framboði á Fljótsdalshéraði
19.5.2010 | 13:01
Það kom mörgum á óvart sem til mín þekkja að ég skuli vera kominn í fremstu víglínu í framboði til sveitarstjórnar. Ég hef oft gefið þá yfirlýsingu í gegnum tíðina að ég myndi aldrei vilja standa í þessu vafstri hafandi fylgst með föður mínum á þessum vettvangi. Þar varð maður vitni af því að allt virtist vera leyfilegt þegar komið er út á þessa braut og oft á tíðum lítil virðing borin fyrir fólki og fjölskyldum þeirra sem taka að sér slík störf.
Ég hef því nánast ekkert komið nálægt stjórnmálum síðan ég var unglingur á Eskifirði og stofnaði ungliðafélag sjálfstæðismanna þar ásamt fleirum. Þar gengu margir unglingar í félagsskapinn og hafa ekki borið þess bætur síðan, má þar nefna oddvita sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð sem þá var mikill kommúnisti. En ég starfaði aldrei innan sjálfstæðisflokkinn og gekk svo úr honum þegar ég flutti á höfuðborgasvæðið . Ég kom svo ekki nálægt pólitík fyrr en ég gekk í Samfylkinguna fyrir tveimur árum. Hef reyndar verið duglegur að kjósa í prófkjörum allra flokka, því mér finnst mikilvægt að það sé frambærilegt fólk í forsvari öllum flokkum.
Ég flutti í Egilsstaði 2006 eftir að haf búið í Reykjavík og Hafnarfirði í 10 ár. Ég flutti starfið mitt með mér hingað og hélt því áfram sömu vinnu og áður. Að flytja inn í sveitafélagið Fljótsdalshérað var eins og að flytja heim, enda er ég fæddur á Egilsstöðum og bjó mín fyrstu ár upp á Jökuldal. Þegar ég bjó á Eskifirði var ég í sveit á sumrin út í Jökulsárhlíð hjá ömmu og afa. Ég sótti svo Alþýðuskólann á Eiðum og útskrifast svo frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þannig hef ég verið samofinn Fljótsdalshéraði allt mitt líf.
Eitt það fyrsta sem ég fann við að koma til baka inní minna samfélag, er nálægðin við fólk og umhverfi. Þjónusta sem maður taldi sjálfsagða á höfuðborgasvæðinu var ýmist ekki fyrir hendi eða átti undir högg að sækja. Annað sem vakti mig til umhugsunar var umhverfi fyrirtækja til rekstrar. Ég varð t.d. vitni af því hvernig sterkt þekkingarfyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu, yfirbauð starfsmenn heimafyrirtækis með það markmið að koma sér fyrir á svæðinu og reyna um leið að kæfa það sem var fyrir. Þetta heimafyrirtæki brást til varnar, sem sennilega hefur riðið því að fullu því það er ekki til lengur, var selt í burtu og er nú eins manns útstöð.
Þessi vistnisburður kallaði fram hjá mér réttlætiskenndina, því þarna sá ég hversu umhverfi frumkvöðla er brothætt. Því fyrirtæki sem búið er að koma undir sig fótum og er farið að byggja upp þekkingu og sérfhæfingu, er alla jafna háð starfsfólki.
Ég leigði á þessum tíma aðstöðu ásamt nokkrum öðrum úr þekkingargeiranum. Þessi hópur átti það sammerkt að vera starfsfólk fyrirtækja í Reykjavík og fæst okkar að vinna verkefni fyrir fyrirtæki eða stofnanir á svæðinu. Þessi staðreynd sameinaði þennan hóp í þeirri hugsjón að reyna að vinna að því að skapa sameiginleg verkefni sem unnin væri á svæðinu. Þetta endaði með stofnun fyrirtækis sem hefur vaxið og dafnað síðan.
Í þeirri deiglu sem ég hef tekið þátt í kringum þessi verkefni hef ég kynnst mörgu fólki, bæði í stofnunum og fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði. Það kemur mér alltaf meira og meira á óvart hve við eigum mikið af snjöllu fólki á hinum ýmsu sviðum. Fólk sem hefur mikið fram að færa, en vantar kannski bara örlítinn bakstuðning til að taka næstu skref í að gera hæfileika sína að viðurværi. Við búum yfir miklum mannauði og það ásamt umhverfinu er okkar auðlind, sem verður að virkja.
Þetta er ástæðan fyrir því að mig langar að taka þátt í sveitarstjórnarmálunum, þrátt fyrir algert reynsluleysi á þeim vettvangi. Því það eru sveitarstjórnirnar sem eru milliður milli hugmynda og framkvæmda þegar kemur að uppbyggingu innviða sveitafélagsins. Því þó við séum í fjárhagslegri lægð, þá eru tækifærin allt í kringum okkar og við verðum bara að hafa djörfung og dug til að nálgast þau og láta þau ekki fara fram hjá okkur. Það er því gríðarlega mikilvægt að sveitarfélagið hafi umgjörð og stoðir sem að fólk getur treyst á og langi til að búa á Fljótsdalshéraði. Ef stoðirnar eru í lagi, þá eru tækifærin fyrir uppbyggingu atvinnu mun meiri hvað varðar nýsköpun , sem og aðdráttarafl fyrir rótgróin fyrirtæki að byggja upp starfsstöðvar. Því atvinna snýst fyrst og fremst um fólk.
Atvinnumálin eru mér mikið hjartans mál og það er mín skoðun að allir sem geta og vilja vinna, hafi vinnu. Atvinnuleysi er mikið samfélagsböl og það má ekki gefa því færi á að festast í sessi.
Mál hafa svo æxlast þannig að ég er í öðru sæti á lista Héraðslistans fyrir næstu sveitastjórnarkosningar og er fullur af eldmóði og áhuga fyrir verkefnum næstu missera. Á Héraðslistanum er fólk úr öllum geirum samfélagsins með fjölbreyttan bakgrunn. Í efstu sætum er nýtt fólk sem ekki hefur setið áður í bæjarstjórn og kemur því ferskt inn á vettvanginn. Ég hef mikla trú á þessum hópi sem er einstaklega samheldinn, hugmyndaríkur og traustur.
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 23.5.2010 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af gefnu tilefni
1.5.2010 | 00:58
Framboðslisti Héraðslistans var samþykktur á félagsfundi 20. apríl. Það var uppstillinganefnd listans sem lagði fram tillögur að uppstillingu og tók hún mið af niðustöðu í opnu forvali sem fram fór 27. mars. Nokkrar breytingar voru gerðar á listanum í meðförum uppstillingarnefndar, en þær breytingar voru gerðar í fullu samráði við frambjóðendur og af þeirra frumkvæði.
Þegar ákveðið var að fara í forval þá lá fyrir að það yrði mikil endurnýjun á listanum. Þeir sem höfðu hvað mesta reynslu af bæjarstjórnamálum, buðu sig ekki fram til forystu. Það var ákveðið að forvalið yrði leiðbeinandi en ekki bindandi. Sú nálgun gerði það að verkum að fleiri ákváðu að vera með í forvalinu og tóku alls 20 þátt í því og vorum við nokkur sem gáfum kost á okkur í efstu sætin. Það var síðan ákveðið að birta niðurstöður forvalsins á vefsíðu Héraðlistans um leið og úrslit yrðu ljós.
Niðurstaða forvalsins var sú að ég fékk flest atkvæði í fyrsta sætið og Sigrún Blöndal fékk flest atkvæði í fyrsta og annað sætið.
Uppstillinganefnd tók svo til starfa og hafði til hliðsjónar niðustöðu úr forvalinu. Uppstillinganefnd kom með þá tillögu að við Sigrún hefðum sætaskipti á listanum. Rök nefndarinnar voru þessi:
Úrslit forvalsins:
Sigrún fékk yfirburðakosningu í efstu sæti listans. Fyrir fyrstu 9 sætin var útkoma tveggja efstu í þessum hlutföllum.
1
1-2
1-3
1-4
1-5
1-6
1-7
1-8
1-9
Sigrún Blöndal 28%
73%
79%
80%
80%
82%
83%
83%
83%
Tjörvi Hrafnkelsson 33%
43%
58%
71%
73%
74%
75%
77%
79%
Eins og sést á þessum tölum þá fær Sigrún gríðarlega góða kosningu í fyrstu tvö sætin og svo jafnast þetta út þegar komið er að fjórða sætinu. Þannig að ég fæ mjög góða kosningu ef litið er á efstu fjögur sætin.
Kona í oddvitasæti:
Það lá nokkurn veginn fyrir að það yrði enginn kona í oddvitasæti framboðanna á Fljótsdalshéraði . Önnur framboð voru búin að velja sína lista og enginn kona hafði boðið sig fram til forrystu. Í þessari staðreynd láu ákveðinn tækifæri, því það er ákveðinn krafa og væntingar til þess að áhrifa kvenna gæti meira í sveitastjórnmálum á Íslandi.
Tillaga send nefndinni:
Nefndin tók einnig fram að ég hefði sent þeim bréf samhljóma ofangreindum tillögum sem hefði stutt þau í að leggja þetta til. Þetta bréf skrifaði ég þeim eftir að velt fyrir mér tölfræðinni í niðurstöðum forvalsins og styrkleikum þess að hafa konu í efsta sæti listans.
Það má vera að nefndin hefði hvort sem er lagt til að við hefðum sætaskipti, enda eðlilegt mat útfrá niðustöðum forvalsins. Ástæðan fyrir því að ég rek þessar staðreyndir hér, er sú, að ég hef fengið á mig talsvert að spurningum sem varða oddvitasætið og þá afhverju ég sit ekki í því. Spurningar eins... ...af hverju varstu færður niður um sæti? ...varstu látinn lúffa fyrir konu? ... ertu ekki ógeðslega fúll yfir þessu? Osfrv. Ofangreindar upplýsingar svara þessum spurningum.
Ég er því mjög ánægður með uppröðun listans og það er mín sannfæring að það styrki framboð Héraðslistans mjög að Sigrún Blöndal skuli leiða listann.
Ég tel jafnframt að við séum með mjög vel mannaðann og samheldinn lista sem getur náð góðum árangri í komandi sveitastjórnarkosningum!
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 23.5.2010 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)