Í framboði á Fljótsdalshéraði

Það kom mörgum á óvart sem til mín þekkja að ég skuli vera kominn í fremstu víglínu í framboði til sveitarstjórnar.  Ég hef oft gefið þá yfirlýsingu í gegnum tíðina að ég myndi aldrei vilja standa í þessu vafstri hafandi fylgst með föður mínum á þessum vettvangi. Þar varð maður vitni af því að allt virtist vera leyfilegt þegar komið er út á þessa braut og oft á tíðum lítil virðing borin fyrir fólki og fjölskyldum þeirra sem taka að sér slík störf.

Ég hef því nánast ekkert komið nálægt stjórnmálum síðan ég var unglingur á Eskifirði og stofnaði ungliðafélag sjálfstæðismanna þar ásamt fleirum.  Þar gengu margir unglingar í félagsskapinn og hafa ekki borið þess bætur síðan, má þar nefna oddvita sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð sem þá var mikill kommúnisti.   En ég starfaði aldrei innan sjálfstæðisflokkinn og gekk svo úr honum þegar ég flutti á höfuðborgasvæðið . Ég kom svo ekki nálægt pólitík fyrr en ég gekk í Samfylkinguna fyrir tveimur árum.  Hef reyndar verið duglegur að kjósa í prófkjörum allra flokka, því mér finnst mikilvægt að það sé frambærilegt fólk í forsvari öllum flokkum.

Ég flutti í Egilsstaði 2006 eftir að haf búið í Reykjavík og Hafnarfirði í 10 ár. Ég flutti starfið mitt með mér hingað og hélt því áfram sömu vinnu og áður. Að flytja inn í sveitafélagið Fljótsdalshérað var eins og að flytja heim, enda er ég fæddur á Egilsstöðum og bjó mín fyrstu ár upp á Jökuldal. Þegar ég bjó á Eskifirði var ég í sveit á sumrin út í Jökulsárhlíð hjá ömmu og afa.  Ég sótti svo Alþýðuskólann á Eiðum og útskrifast svo frá Menntaskólanum á Egilsstöðum.  Þannig hef ég verið samofinn Fljótsdalshéraði allt mitt líf.

Eitt það fyrsta sem ég fann við að koma til baka inní  minna samfélag, er nálægðin við fólk og umhverfi.  Þjónusta sem maður taldi sjálfsagða á höfuðborgasvæðinu var ýmist ekki fyrir hendi eða átti undir högg að sækja.  Annað sem vakti mig til umhugsunar var umhverfi fyrirtækja  til rekstrar. Ég varð t.d. vitni af því hvernig sterkt þekkingarfyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu, yfirbauð starfsmenn heimafyrirtækis með það markmið að koma sér fyrir á svæðinu og reyna um leið að kæfa það sem var fyrir.  Þetta heimafyrirtæki brást til varnar, sem sennilega hefur riðið því að fullu því það er ekki til lengur, var selt í burtu og er nú eins manns útstöð.

Þessi vistnisburður kallaði fram hjá mér réttlætiskenndina, því þarna sá ég hversu umhverfi frumkvöðla er brothætt.  Því fyrirtæki sem búið er að koma undir sig fótum og er farið að byggja upp þekkingu og sérfhæfingu, er alla jafna háð starfsfólki. 

Ég leigði á þessum tíma aðstöðu ásamt nokkrum öðrum úr þekkingargeiranum. Þessi hópur átti það sammerkt að vera starfsfólk fyrirtækja í Reykjavík og fæst okkar að vinna verkefni fyrir fyrirtæki eða stofnanir á svæðinu.  Þessi staðreynd sameinaði þennan hóp í þeirri hugsjón að reyna að vinna að því að skapa sameiginleg verkefni sem unnin væri á svæðinu.  Þetta endaði með stofnun fyrirtækis sem hefur vaxið og dafnað síðan.

Í þeirri deiglu sem ég hef tekið þátt í kringum þessi verkefni hef ég kynnst mörgu fólki, bæði í stofnunum og fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði.  Það kemur mér alltaf meira og meira á óvart hve við eigum mikið af snjöllu fólki á hinum ýmsu sviðum. Fólk sem hefur mikið fram að færa, en vantar kannski bara örlítinn bakstuðning til að taka næstu skref í að gera hæfileika sína að viðurværi.   Við búum yfir miklum mannauði og það ásamt umhverfinu er okkar auðlind, sem verður að virkja.

Þetta er ástæðan fyrir því að mig langar að taka þátt í sveitarstjórnarmálunum, þrátt fyrir algert reynsluleysi á þeim vettvangi. Því það eru sveitarstjórnirnar sem eru milliður milli hugmynda og framkvæmda þegar kemur að uppbyggingu innviða sveitafélagsins.  Því þó við séum í fjárhagslegri lægð, þá eru tækifærin allt í kringum okkar og við verðum bara að hafa djörfung og dug til að nálgast  þau og láta þau ekki fara fram hjá okkur.  Það er því gríðarlega mikilvægt að sveitarfélagið hafi umgjörð og stoðir sem að fólk getur treyst á og langi til að búa á Fljótsdalshéraði.  Ef stoðirnar eru í lagi, þá eru tækifærin fyrir uppbyggingu atvinnu mun meiri hvað varðar nýsköpun , sem og aðdráttarafl fyrir rótgróin fyrirtæki að byggja upp starfsstöðvar. Því atvinna snýst fyrst og fremst um fólk.

Atvinnumálin eru mér mikið hjartans mál og það er mín skoðun að allir sem geta og vilja vinna, hafi vinnu.  Atvinnuleysi er mikið samfélagsböl og það má ekki gefa því færi á að festast í sessi. 

Mál hafa svo æxlast þannig að ég er í öðru sæti á lista Héraðslistans fyrir næstu sveitastjórnarkosningar og er fullur af eldmóði og áhuga fyrir verkefnum næstu missera.   Á Héraðslistanum er fólk úr öllum geirum samfélagsins með fjölbreyttan bakgrunn. Í efstu sætum er nýtt fólk sem ekki hefur setið áður í bæjarstjórn og kemur því ferskt inn á vettvanginn. Ég hef mikla trú á þessum hópi sem er einstaklega samheldinn, hugmyndaríkur og traustur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband