Fyrsti bæjarstjórnarfundur
21.6.2010 | 01:08
Sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í vikunni. Þar var eitt mál á dagskrá, þ.e. kosning fulltrúa í embætti, stjórnir og nefndir. Fundurinn rann ljúft með upptalningum og handuppréttingum á víxl. Fátt um þá framvindu að segja í sjálfu sér. Niðurstöðuna má lesa í fundargerð fundarins sem má finna á vef sveitafélagsins.
Nú er ég nýgræðingur í sveitastjórnarmálum og ætla að leyfa mér að tjá mig sem slíkur. Ég var því ekki með mjög fastmótaða hugmynd um hvernig fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar ætti að fara fram. Það sem vakti athygli mína var það sem ekki var á dagskrá og mér hefði þótt eðlilegt að væri á dagsrkrá fyrsta fundar.Í fyrsta lagi þá var málefnasamningur hins nýja meirihluta ekki lagður fram eða ræddur á þessum fyrsta fundi. Hefði það ekki verið eðlilegt að sveitarstjórn væri kynntur formlega málefnasamningur meirihlutans? Hann er reyndar kominn á vef sveitafélagsins sem er kannski nóg, þekki ekki hefðina í þessu. Tékkaði samt á netinu hjá öðrum bæjarfélögum og t.d. í Grindavík, Seyðisfirði og Akureyri var lagður fyrir málefnasamningur eða yfirlýsing lesin upp á fyrsta fundi. Það lýtur því út fyrir að almennan reglan sé sú að yfirlýsing sé lögð fram á fyrsta fundi og gefinn kostur á umræðum.
Annað sem vakti líka athygli er að ekki skyldi rætt um bæjarstjóraskipti. Því það kemur fram á heimsíðu sveitafélagsins að búið er að auglýsa eftir bæjarstjóra. En það kemur líka fram í lögum og samþykktum um ráðningu framkvæmdastjóra bæjarins að það er sveitarstjórn sem ræður framkvæmdastjóra (bæjarstjóra), ekki bara meirihluti sveitarstjórnar, sem þó vissulega í ljósi aflsmunar mun hafa úrslita áhrif á það hver verður ráðinn. Hefði ekki verið eðlilegt að hafa lið á dagskrá sem þar sem væri rætt um og bókað að auglýsa skuli starf bæjarstjóra? Ef önnur sveitarfélög eru skoðuð má sjá að allavega Grindavík hefur farið þessa leið á fyrsta fundi.
Í ljósi þessa fyrsta fundar þá spyr ég mig hvort þetta séu væntanleg vinnubrögð nýs meirihluta að halda málum út af fyrir sig. Held reyndar að þetta sé frekar vitnsiburður um að þetta var fyrsti fundur, þar sem 7 af 9 bæjarfulltrúum eru nýjir. Held og vona að hópurinn eigi eftir að slípast til og vinna að heilindum í öllum málum.
En hér talar vissulega reynslulaus bæjarfulltrúi sem á eftir að skólast til.
Athugasemdir
Heill og sæll.
Gaman að lesa þessa færslu, ekki endilega til að sjá hvað þér þykir athugavert hjá meirihluta heldur hvernig upplifun venjulegs manns er á stjórnmálum!
Flott hjá þér að linka á upplýsingar.
Jón Gunnar (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 08:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.