Á lífi

Það eru 17 mánuðir síðan ég skrifaði inn á þessa bloggsíðu síðast. Þá fór ég yfir ástæður þess að hætta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.  Þar á undan var voru tvö innantóm blogg sem ég var bara að tala um bloggþurrð. Síðasta sem ég hef skrifað hérna efnislega inn er frá því í ágúst 2010. Einmitt þann vetur urðu breytingar hjá mér sem voru undanfari fyrirtækjarekstursins í kringum AN Lausnir og síðar AXnorth. Ég hef í raun ekki litið upp úr þeim verkefnum síðan.
 
Hef á þessum tíma ekki gefið mér stund í að pæla í neinu sem viðkemur öðru en fyrirtækjarekstri og svo reynt að passa upp á að eiga fjölskyldu, sem er bara ekki sjálfgefið. Hefði ég vitað hvaða vegferð ég var að leggja upp í fyrir þremur árum með allri þeirri vinnu og álagi sem því fylgir, er ég ekki viss um að ég hefði valið þá leið. 
 
Þannig að ég hef ekki fylgst mikið með dægur eða þjóðmálum, eins og ég hafði og hef mikinn áhuga á þeim. Hef ekkert tjáð mig á síðunni minni eins og síðustu þrjár færslur eru til vitnis um.  Ég er svo sem ekkert laus við skoðanirnar, áhugasviðið kannski færst svolítið til. Líklega hef ég líka færst örlítið til á pólitíska litrófinu eða meira kannski útvatnast, upplifi hálfgert landleysi. Það vera í fyrirtækjarekstri setur líka önnur og ný sjónarhorn í forgrunn, sem útiloka ekkert endilega þau sem maður horfði helst á áður. Kannski og vonandi að maður sé bara jafnvel færari um að sjá hlutina frá fleiri vinklum.
 
Ég spyr mig stundum hvort þetta brölt er að skila mér sem betri manneskju. Fram að þessu finnst mér það ekki, en þetta breytir manni. Út á við til hins verra held ég. Inn á við hefur samt safnast reynsla sem ég vonandi get lært af og nýtt mér til að verða betri manneskja. Held að þetta umhverfi hafi gert mig ómeðvitað svolítið hrokafullan og sjálfhverfan í samskiptum. Kannski var pólitíkin búin að gera það líka þá fáu mánuði sem ég sinnti því. Langar til að laga þetta. 
 
Langar svo að vera duglegri að setja fram hugrenningar mínar hérna á síðuna, því mér finnst mjög gaman að skoða aftur í tímann það sem maður var að spá og spekulera um einstök málefni á hverjum tíma. Þetta tjáningarform endurspeglar líka aðeins hvar maður er staddur hverju sinni, hvernig maður hugsar og jafnvel hvernig manni líður.
 
Kannski skrifa ég ekkert annað en þessa stuttu hugleiðingu næstu 20 mánuði. Það er allavega komið kvitt fyrir því að ég var á lífi seinni hluta ársins 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband