Forsetakosningar 2016

Nú á að kjósa forseta á morgun og hef ég reynt hérna í útlandinu að fylgjast aðeins með og reynt að mynda mér afstöðu án þess að ná að hitta neitt af þessu frambjóðendum og ég náði ekki heldur að kjósa utankjörstaðar.

Ég skrifaði blogg fyrir tveimur vikum með yfirskriftinni að búa til forseta, þar sem mér fannst hafa hallað á Höllu Tómasdóttur. Það hefur komið á daginn að Halla eykur stanslaust við sig fylgið eftir því sem hún sést meira og hittir fólk og svo ber hún venjulega af í umræðuþáttum.

Sama var upp á teningnum í kvöld í fyrra hluta umræðuþáttar um frambjóðendur. Halla bar þar af að mínu mati. Strákarnir allir ágætir, hver á sinn hátt.

Mér þótti það á vissan hátt spennandi að Davíð Oddson skyldi bjóða sig fram og hélt í einfeldni minni að hann myndi nota tækifærið og sýna þjóðinni jákvæða hlið á sér og fá smá uppreisn æru. Hann myndi nota þá miklu reynslu, meðbyr og mótbyr til sýna þjóðinni styrk sinn. Það var ekki raunin, heldur birtist bara bitur einstaklingur barinn áfram af sjálfshóli og hroka. Það er því miður birtingarmyndin, þó hörðustu stuðningsmenn reyni að halda öðru fram ( fyrir 25 árum var ég í þeim hópi ). Það er eiginlega sorglegt að horfa upp á þennan mikla mann verða svona lítinn. Hann átti sín skítaskot í kvöld eins og áður, en átti líka jákvæð tilþrif.

Guðni finnst mér svolítið vera þessi náungi, sem allir geta sætt sig við. Ég mun alveg gera það líka, held þetta sé góð manneskja. Hans styrkleiki er helst hvað hann veit mikið um embættið og veit hvað allir hinir hafa gert, en um leið finnst mér það vera ákveðinn veikleiki. Held að hann muni ekki verða afgerandi forseti með nýjar hugmyndir eða sýn, heldur fletta upp í hvað hinir hefðu mögulega gert. Enda hefur hann svo sem lýst því að hann vildi vera einhver blanda af þeim öllum. Hann er svona þessi öruggi kostur fyrir flesta og ásættanlegur.

Andri hefur hefur kannski aðeins ferskari sýn, en er líka svolítið umdeildur. Hann myndi líklega breyta embættinu, allavega velja sér áberandi verkefni tengd sínum hugðarefnum. Sé hann samt ekki fyrir mér taka á erfiðum málum, en kannski lærist það og því mikilvægt að hann hafi góða ráðgjafa þegar að því kemur. Vonandi að hann hafi það. Ég er kannski ekki að öllu leyti sammála hans skoðunum, en ég held hann myndi samt gera þetta vel. Ég myndi ekkert taka bakföll þó hann yrði kosinn.

Halla hefur bara einhvern sjarma og viðmót sem er heillandi, sterkt og jákvætt. Hún er skelegg og virkar á mig eins og hún geti tekið á málum af ákveðni. Ég er nokkuð viss um að ef kjósendur hafa ekki verið búnir að gera upp hug sinn fyrir þáttin í kvöld muni mjög margir gefa Höllu sitt atkvæði.

Í seinni hluta umræðuþáttarins var rætt við hina 5 frambjóðendurna. Af þeim stendur Sturla upp úr og hann bara vex. Held að hann hafi lagt góðan grunn að því að fara fram til alþingis í haust og er algerlega sannfærður um að hann nær kjöri þar. Elísabet hefur lífgað upp á þetta með skemmtilegri nálgun og býr yfir reynsluheimi sem er öllum er hollt að setja sig inn í.  Því miður þá eru Guðrún, Hildur og Ástþór ekki að skilja neitt eftir.

Það er nokkuð ljóst að Guðni verður kosinn forseti á morgun og ég held við getum svo sem alveg verið sátt við það. Hinsvegar er ég sannfærður um að Halla hefði ekki þurft nema nokkrar vikur í viðbót til að teygja sig upp í fylgi Guðna og ég er líka sannfærður um að ef það hefði verið tveggja umferða kosning hefði hún haft betur.  Ég hef t.d. heimildir fyrir því að fólk sem kaus utankjörstaðar og ætlaði sér að kjósa Höllu, ákvað á síðustu stundu að kjósa Guðna eftir ráðleggingar um að það væri öruggast svo að Davíð Oddsson yrði ekki kosinn! Þannig hefur einhvern veginn allt unnið með Guðna í þessum kosningum. Í kosningu milli tveggja frambjóðenda er ekkert svoleiðis rugl í boði.

Ef ég hefði möguleika á að kjósa á morgun þá myndi ég kjósa Höllu Tómasdóttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Góður punktur hjá þér með Davíð, ég upplifi hann sem mjög bitran einstakling.  Ég hugsaði nákvæmlega sama og þú og hélt að Davíð myndi kannski sýna meira af léttu hliðinni á sér, hann byrjaði vissulega sem spaugari í útvarpi og riti.  Ég er auðvitað ekki að segja að forsetaframboð eigi að vera eitthvað spaug, en það er í lagi að sýna jákvæða hlið á sér í þessari kosningabaráttu.

Sjálfur er ég ekki enn búin að gera upp hug minn.  Ég sem er að fara í kjörklefann á eftir.  Kannski Halla bara  ;)

Garðar Valur Hallfreðsson, 25.6.2016 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband