Árið 2016 kvatt

Þá er árið 2016 á enda runnið og 2017 gengið í garð. Ég ætlaði að setja saman smá facebook status með yfirferð ársins, en það endaði í löngum texta sem ég ákvað bara að setja hérna inn sem skjölun á árinu.

----

Árið hjá okkur fjölskyldunni hefur verið svona ár aðlögunar og úrlausna eftir mjög erfitt ár 2015. Við fluttum frá Bothell til Redmond í Mars á frábæran stað, sem er í raun á bæjarmörkum, Kirkland, Redmond og Bellevue. 

Við ferðuðumst ekki mikið hérna innanlands í USA. Náðum að fara til Portland tvisvar að heimsækja vinafólk þar, annað skiptið yfir helgi. Vorum svo í sumarbústað yfir helgi í Levenworth í apríl með íslendinga mafíunni sem heppnaðist afar vel, ótrúlega flott umhverfi í þessum litla bæ með Tyrola yfirbragðið.

Þegar Ísar og Embla voru bæði á Íslandi þá vorum við hjónin ein í kotinu í hálfan mánuð. Við náðum að nýta þennan tíma mjög vel hér í nærumhverfinu okkar. Hjóluðum mikið, fórum í nokkrar fjallgöngur, spiluðum golf og byrjuðum að hlaupa reglulega. Þannig náðum við að kynnast svæðinu aðeins betur og er óhætt að segja að við urðum ekki fyrir vonbrigðum með það. Það er ótrúlega mikið hægt að gera í útivist og ekki skemmir fyrir hvað er fallegt hérna.

Við fórum svo til Íslands í lok júlí og var fjölskyldan öll saman á Íslandi í rúma viku. Við náðum að ferma Isar og í leiðinni hitta ótrúlega mikið af okkar fólki á einu bretti.

Þegar við komum til baka frá íslandi þá tókum við Kristbjörg og Isar þátt í nokkrum utanvegahlaupum hérna á svæðinu, en það er mjög mikið framboð á keppnishlaupum um hverja helgi. Hlaupin hjá mér urðu hinsvegar að lúta í gras fyrir gamalkunnum bakeymslum sem lögðu mig flatan í nokkrar vikur í byrjun október og hef ekki getað hlaupið neitt síðan.

Um miðjan desember þá tókum við fjölskylda pakka í LA fitness og erum öll að sprikla þar. Vonandi nær maður að halda reglu á því og styrkja sig til að geta hlaupið aftur.

Við fengum nokkrar heimsóknir til okkar frá Íslandi. Ólína Helga var hjá okkur í viku í byrjun Febrúar meðan við bjuggum enn í Bothell, mjög viðburðarík vika. María Jóngerð og Emilía Sól heimsóttu Emblu í Mars, Valdimar Brimir heimsótti Ísar í júlí. Adda Birna, Daníel Freyr og Jóel Freyr voru hjá okkur í lok október og svo var rúsínan í pylsunendanum að fá þær Töru Ösp og Ísold Birtu til okkar í lok Nóvember.

Það voru líka fjöldamargir hittingar hjá Íslendinga mafíunni hérna svæðinu, áramótahittingar, þorrablót, sumarbústaðaferð, 17 júní, EM leikir, thanksgiving, skötuveisla og óteljandi afmæli svo eitthvað sé nefnt. Hópurinn er orðinn meira en 50 manns þegar allir koma saman og fólk er meira segja farið að mæta frá Kanada á suma viðburðina. Óhætt að segja að það eru forréttindi að þekkja þetta fólk allt saman og eiga sem vini. Frábær hópur.

Kristbjörg hefur sótt líkamsrækt sem heitir Bar method í Redmond center, sem er víst mikil snilld. Þó það hljómi alltaf soldið óheilbrigt að vera að fara á Bar í hádeginu á virkum dögum.

Kristbjörg og Ísar leigðu sér svo skíði og hafa farið einu sinni en stefnt að frekari afrekum þar fljótlega. Ætla að sjálfur að bíða með skíðin, þar til ég finn að bakið heldur.

Kristbjörg hefur svo verið einna duglegust af okkur að nýta sér endalausa hjólastígana í Redmond og nágrenni og á þar nokkur hundruð km að baki.

Sjáflur nýtti ég mér það aðeins að búa við hliðina á golfvelli. Spilaði nokkra hringi með Hjalta og Kristbjörgu, auk þess að fara á "Driving range" -ið. 

Ég hef aðeins reynt að grípa í gítarinn og reyndum við í stofu hljómsveitinni "More cowbells" að hittast nokkrum sinnum, þurfum hinsvegar að hittast oftar á þessu ári og slípa okkur saman.

Vinnan hjá AXnorth/SAGLobal gekk nokkurnvegin sinn vanagang, þó fyrri hluta ársins hafi ég aðeins verið frá. Ég leigði mér skrifstofupláss í Orange studios í Redmond síðasta vor og er nú þar með mjög góða vinnuaðstöðu í skemmtilegu umhverfi.

---

Það hefur ekki verið nein lognmolla í kringum krakkana okkar heldur.

---

Árið hjá Töru minni byrjaði með því að hún var valinn austfirðingur ársins hjá Austurfrétt/Austurglugganum fyrir framlag sitt til opinnar umræðu um þunglyndi og aðra geðsjúkdóma og m.a. um stöðu þeirra á austurlandi. Verkefnin sem hún hratt af stað 2015 voru t.d. facebook grúppan Geðsjúk, átakið #Egerekkitabu, árið 2016 hefur hún svo fylgt þessu eftir með verkefni Faces of depression og stofnað samtökin Stigma. Hún var svo valin framúrskarandi íslendingur ársins , var með erindi á TED ráðstefnu , auk viðtala í ýmsum fjölmiðlum. Hún hefur því helgað sig talsvert þessu málefni.

Tara er í margmiðlunarnámi í Danmörku, en klárar það í fjarnámi þar sem hún flutti til Íslands og tók upp sambúð með Rakel Sölvadóttur og búa þær í Garðabæ ásamt Ólínu Helgu, Daníel Breka og Ísold Birtu. Tara vinnur hjá Skema sem markaðsráðgjafi og við kennslu, auk þess að sinna ljósmyndunarverkefnum. Hún útskrifast svo sem margmiðlunarhönnuður frá KEA í Kaupmannahöfn núna í lok janúar.

Ísold Birta flutti til mömmu sinnar í Garðabæinn síðasta vor og var þar í allt sumar eða þar til hún flutti aftur nú haust í Egilstaði til pabba síns.

Þær mæðgur komu í heimsókn til Seattle/Redmond til okkar í nóvember og var það algerlega frábær tími. Dásamlegt að vera með þeim og finna hve samrýmdar þær eru, þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður á árinu. Það var eitthvað allt svo fullkomið og rétt að sjá þær saman. Sönn ást.

Ísold er ótrúlega skýr og klár krakki með ótrúlega góða nærveru, það einhvernvegin verður allt bjart þegar hún er nálægt. Það lang,lang erfiðasta við dvöl okkar hér í USA er að vera ekki nær þeim mæðgum.

---

Það er ekkert auðvelt að flytja til útlanda þegar maður er rétt að verða 16 ára, það hefur hún Embla mín sannarlega fengið að reyna. Fyrstu mánuðir ársins hjá Emblu voru bísna erfiðir fyrir marga sakir. Hún hafði skipt um Highschool haustið 2015 og hafði aðlögun við nýjan skóla ekki gengið alveg upp. Það leit því út fyrir að hún þyrfti að fara í sumarskóla til að halda í við árganginn sinn. Hún hinsvegar tók rosalegan endasprett og náði öllum fögunum sem hún þurfti og því var enginn þörf á sumarskóla. Þess í stað fór hún til Íslands og bjó hjá Siggu ömmu sinni og vann á Salt myrkrana á milli. Þar stóð hún sig afar vel og náði að vinna sér inn góðan vasapening. 

Embla byrjaði í æfingaakstri í byrjun ársins og tók svo bílpróf í byrjun júní og rúllaði því upp í fyrstu tilraun ( sem er meira en pabbi hennar getur sagt ). Hún fór því til Íslands nýkominn með bílpróf, sem ég hef grun um að hafi leitt til misnotkunar á bíl ömmu sinnar á Íslandi.

Hún fékk góða heimsókn í Mars, þegar þær Emelía Sól og María Jóngerð komu í heimsókn og voru hjá henni í viku.

Embla skipti svo um söngkennara í haust og hittir hana Brittany einu sinni í viku og tekur þátt í tónleikum á hennar vegum í lok Janúar.

Embla ákvað að prófa að fara í áheyrnaprufu hjá Seattle Talent nú í haust og var hún valinn áfram og er kominn inn í prógram þar. Hún er núna í workshop hjá þeim um hverja helgi. Hún þarf að skila inn bæði studio upptöku af lagi og ljósmyndum af sér til að hafa í profile. Systir hennar tók af henni myndir í Nóvember þegar hún var hjá okkur og setti svo upp heimasíðu fyrir Emblu fyrir prófílinn hennar. Lagið/lögin verða svo tekin upp fljótlega.

Þegar hún var á Íslandi í sumar þá vorum við upplýst um að hún væri kominn í samband með íslenskum dreng, sem reyndar vill svo heppilega til að er búsettur í Seattle ( Kirkland ), en er í raun austfirðingur í húð og hár (Neskaupstaður/Reyðarfjörður). Patrekur hefur reyndar búið meira og minna hjá okkur síðan í haust, afskaplega geðþekkur og góður drengur.

Skólinn hjá Emblu hefur svo gengið mun betur núna í haust og er hún að ná topp einkunum í flestum fögum. Við vonum því að hún nái að útskrifast úr Highschool í sumar.

----

Árið byrjaði ekkert mjög vel fyrir Isar. Hann hafði ekki getað spilað heilan leik í Desember 2015 vegna sársauka og dofa í hnjám. Þjálfari Isars sem spilaði með Sounders, hafði milligöngu um að við hittum Dr.Morris sem er liðs læknir hjá Sounders og jafnframt bæklunarskurðlæknir.

Eftir röntgen og sneiðmyndatökur þá kom dómur frá honum um miðjan Janúar um að bæði hnén væru í raun í messi. Vinstra megin hafði hnéskelin brotnað þegar hann var 11 ára og fengum við þá greiningu hjá bæklunarlækni á Íslandi að þetta brot myndi bara lagast. Hinsvegar var alltaf til staðar sársauki þar í ákveðnum líkamsstöðum sem aldrei lagaðist, auk þess var hann með fæðingargalla, Bipartite patella sem er einhverskonar auka brjósk á hnéskelinni sem ýtti enn frekar undir sársauka . Þetta varð til þess að það myndaðist óeðlilegt álag á hægra hnéð, sem hafði valdið kvilla sem var mun verri og heitir Osteochondritis Dissecans .

Bæði hnén voru því óstarfhæf og lausnin felst allajafna í skurðaðgerð í báðum tilfellum. Aðgerð á vinstra tiltölulega einföld, en mjög flókin á hægra hné. Hinsvegar vegna þess að hann var ný orðinn 13 ára og ekki fullvaxta þá var möguleiki að hægra hnéð þyrfti bara hvíld í 8-12 mánuði. Vinstra hnéð hinsvegar yrði að skera upp ef hann ætti einhverntíma að losna við sársaukan þar. Niðurstaðan var því að aðgerð var framkvæmd á vinstra hné í lok febrúar, en hægra hné þurfti algera hvíld í lágmark 6 mánuði. Hann mátti ekki stunda neinar íþróttir allan þennan tíma nema sund og hjóla á jafnsléttu.

Þetta var talsvert áfall fyrir Isar, ekki síst af því hann var að spila með besta liðinu í WA fylki í sínum aldursflokki og líklega eitt af þeim bestu í USA, en nú var allt komið á núllpunkt.

Eftir að hann gat labbað aftur eftir aðgerðina þá byrjaði hann að æfa sund, en nýtti tímann líka sem áður hafði farið í hreyfingu í að læra á gítar, tefla, forrita og lesa fræðibækur.

Í byrjun júlí var svo myndtaka á hægra hnénu og þá fékk hann leyfi til að byrja að hreyfa sig aftur og sparka aðeins í bolta, hann þyrfti hinsvegar að vera þolinmóður því það myndi taka langan tíma að koma sér af stað aftur. Það kom líka á daginn að það gekk mjög illa að komast í gang, auk þessa að díla við hefðbundna endurhæfingu eftir skurðagerð og langa hvíld, þá hafði hann stækkað um eina 15 centimetra á þessum tíma. Það var ekki fyrr en í byrjun Nóvember sem Dr. Morris skoðaði hann og gaf út að bæði hné væru completely healed, sem hann fór að sína alvöru framfarir. Síðan þá hefur þetta gengið betur og hann að ná upp hraða, snerpu og farinn að skora mörk með liðinu sínu.

Í júlí kom Valdimar Brimir í heimsókn til Isar frá Egilsstöðum. Það var mikið brallað þann tíma sem hann var hér og mikið rosalega var gaman að hafa hann hjá okkur og mjög mikilvægt fyrir Isar sem hafði hrokkið aðeins til baka félagslega verandi ekki með æfinga og leikja hitting reglulega.

Isar fór svo með Valda til Íslands um miðjan Júlí og eitt það fyrsta sem var gert var þátttaka í Reycup. Isar var skráður þar, en gat lítið spilað með gamla liðinu sínu því hann átti langt í land að vera í keppnisformi. Þetta reyndist líka erfitt mót fyrir Valda þar sem hann handleggsbrotnaði í einum leiknum. Framhaldið af dvölinni á Íslandi litaðist aðeins af því að nú gat Valdi lítið sem ekkert gert vegna sársauka, þannig að þeir vinirnir voru soldið komnir í haltur leiðir blindan gírinn. Það varð því ekkert úr landsmótsferð, en Hilmar var hinsvegar duglegur að halda Isari við efnið og fá hann til að hreyfa sig og erum við afar þakklát Hilmari og Stefu fyrir að þennan tíma.

Það hafði verið ákveðið með stuttum fyrirvara að ferma Isar og fengum við okkar gamla prest á Eskifirði, Davíð Baldurson til að sjá um það fyrir okkur. Fermt var í Eskifjarðarkirkju og svo smá veisla í safnaðarheimilinu þar. Þarna fengum við tækifæri til að hitta sem flesta vini og ættingja á einu bretti á þeim stutta tíma sem við vorum á Íslandi. Erum við afar þakklát fyrir alla sem komu að því að gera þetta mögulegt með stuttum fyrirvara.

Isar skipti svo um skóla í haust og byrjaði í Highschool í Lake Washington High School. Hann hefur staðið sig mjög vel í skólanum og er með topp einkunnir.
Vægast sagt mjög viðburðaríkt ár hjá Isari.

---

Af Teklu er það helst að frétta að hún er allajafna mjög ljót í augunum, en á afar fallegan og skemmtilegan hátt.

---

Þetta er svona í grófum dráttum sem á daga okkar dreif árið 2016. Árið litaðist vissulega líka af hlutum sem voru almennara eðlis. Allar þessar kosningar, alþingi, forseti íslands, Brexit og hápunkturinn náttúrulega kjörið á Donald Trump. Við komum saman hérna úti og ætluðum að fagna sigri Clinton, en það dofnaði fljótlega yfir þeirri stemmingu þegar leið á kvöldið. Það er hægt eyða miklu púðri í að ræða þann óskunda allan. Læt það vera hér.

Íslendingar voru hinsvegar mun skynsamari í sínu vali á forseta, held að Guðni verði okkur til sóma, þó ég hefði valið Höllu hefði ég kosið.

Hinsvegar voru þessar alþingiskosningar í haust hálfgert klúður fyrir margar sakir, sem svo umbirtist í stjórnarkreppu, sem þó að leysist mun varla verða með mjög starfhæfa ríkistjórn.

EM í fótbolta setti allt á hliðina á Íslandi og við fengum alveg skerf af því hérna úti. Þó að fótbolti sé ekki vinsælasta íþróttagreinin í USA, þá er hún mjög vinsæl hér á Seattle svæðinu og allir leikir sýndir á ESPN. Það vita því allir eitthvað Ísland núna sem fylgjast með fótbolta, svo ekki sé nú talað um víkingaklappið.

Seattle Sounders sem er fótbolta (soccer) félagið hérna í MLS deildinni, unnu svo MLS bikarinn í fyrsta skipti á árinu. Það ævintýri er nánast á við Leicester og Ísland frammistöðuna, því þeir voru neðstir í lok júlí þegar þeir skiptu um þjálfara. Ég fór á nokkra leiki með þeim og er mögnuð stemming á leikjum, enda státar sounders af því að hafa langflesta áhorfendur í MLS að meðaltali á leikjum hjá sér, 44.000, sem er eitthvað sem Premier Leuge félög gætu sum verð fullsæmd af.

Seattle Seahawks eru svo á góðu rönni í NFL og hver veit nema það verði Superbowl ævintýri framundan á þeim vígstöðvum.

---

Þó að nú í lok mánaðar sé Trump að taka við hérna í USA, þá erum við þrátt fyrir allt bara þokkalega bjartsýn fyrir árið 2017.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband