Kominn í Samfylkinguna
7.12.2008 | 01:09
Það er mikil gerjun í pólitískri umræðu þessar vikurnar. Aðstæður í þjóðfélaginu ýta undir það, sem er gott. Fólk bloggar sig til óbóta, er orðið sérfræðingar í málefnum sem enginn vissi hvað var fyrir misseri síðan. Gjaldeyrishömlur, bankaleynd, gjaldeyrisforði, Icesave, Gordon Brown, osfrv, eina sem er ekki nýtt í umræðu síðustu 30 ára eru orð og athafnir Davíðs Oddsonar.
Það má segja að það sé jákvæður vinkill á því ástandi sem við erum inn í. Það eru allir að vakna til vitundar um samfélagið sitt og ekki síst náungann. Gildin og gildismatið er í endurskoðun hjá einstaklingum. Auðsöfnun og einkahagsmunir eru ekki kúl lengur.
Ég hef alltaf haft gaman af stjórnmálum og umræðunni í kringum þau. Fyrir sirka 20 árum þá fórum við Elfar Aðalsteinsson í að stofna félag ungra sjálfstæðismanna á Eskifirði og fékk það nafnið Hávarr. Okkur þótti einmitt mikið til koma á þeim tíma að fá ungan kommúnista til liðs við okkur, en Jens Garðar Helgason hefur verið skrautfjörður Sjálfstæðismanna á Eskifirði síðan þá. Þessi gjörningur var minn fyrsti og eini á þessum vettvangi. Fór reyndar á eitt SUS þing og fann mig ekki þar. Formaður SUS á þessum tíma var Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra. Ég hef reyndar ætíð borið mikla virðingu fyrir þeim ágæti manni síðan, því hann var alveg laus við hroka og yfirlæti í garð okkar austfirðingana, enda dreifbýlistútta frá Borgarnesi á þeim tíma. Ég hef svo verið meira og minna óflokksbundinn síðustu 15 árin, nema hvað dottið inn i Sjálfstæðisflokkinn fyrir prófkjör til að kjósa einstkalinga inn á lista og sennilega oftast kosið sjálfstæðisflokkinn. Hef þá oftar en ekki verið að styðja við föður minn í þeim verkefnum sem hann hefur verið sinna fyrir sjálfstæðisflokkinn.
Síðustu ár hef ég hinsvegar átt erfitt með að kyngja því sem sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að gera. Þessi gengdarlausa frjálshyggja, sem hefur verið brædd inn í kúltur íslendinga síðustu árin með sjálfstæðisflokkinn í brúnni, hefur hrætt mig. Sú kenning að lögmál kapitalismans leiti sjálfkrafa jafnvægis og græðgin þurfi sinn farveg öllum til hagsældar, er bara hættuleg hugsun. En það er hægt að vera skoðanastór og rífast og jagast út í loftið og taka svo ekki alvöru afstöðu með því að skipa sér einhverstaðar í sveit. Faðir minn var duglegur að benda mér á þetta, en ég vann með Héraðslistanum á Fljótsdalshéraði í sveitarstjórnarkosningum 2006 sem er samkurl félagshyggjuafla á Fljótsdalshéraði. Hann taldi þetta vera feluleik félagshyggjuflokkana á landsvísu. Ég get verið sammála honum að því leyti að það felst ekki í því póltísk afstaða að vera í svona samkurli. Það er hálfgerður feluleikur gangvart stóru myndinni, þó sveitarstjórnamál þurfi ekki sérstaklega á stórum stjórnmálakenningum að halda.
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér annað veifið í nokkra mánuði, þá ákvað ég að skilgreinina viðhorf mín enn og aftur. Ég finn mig sem lýðræðislegan félagshyggjumann, með áherslu á að einstaklingurinn fái að njóta sín innan regluverks sem gætir jafnræðis í hvívetna. Einstaklingur með þessa lífssýn getur sennilega réttlætt tilveru sína í flestum flokkum í íslenskri flokkaflóru. En þegar ég leit yfir möguleikana þá kom í raun bara Samfylkingin til greina.
· Ég reyndi að réttlæta það að ganga í sjálfstæðisflokkinn, enda stóð það mér að mörgu leiti næst. En Sjálfstæðisflokkurinn er með sterkan arm innanborðs sem er einfaldlega hættulegur. En það er þessi öfga hægri hópur sem vill gengdarlaust frelsi á nánast öllum sviðum. Eftir vandlega umhugsun, þá fannst mér það vera á skjön við viðhorf mín að ganga þar inn í alvöru. ( Þetta var fyrir hrunið )
· Framsóknarflokkurinn er flokkur sem ég hef aldrei skilið, en grunngildin og samvinnuhugsjóninn er flott. En flokkurinn er skemmdur.
· Vinstri grænir eru á sama hátt og sjálfstæðisflokkurinn með hættulegar fylkingar sem eru öfga vinstri öflin, sem hafa tekið sér bólfestu þar. En þar tala sumir fyrir hömlulausri ríkisvæðingu á öllum sviðum.
· Frjálslyndiflokkurinn er ekki flokkur, heldur safnheiti yfir einstaklinga með persónufylgi byggt á persónulegum skoðunum.
Samfylkingin er ekki gallalaus og reyndar hef ég aldrei haft sérstakt álit á Ingibjörgu Sólrúnu, nema reyndar upp á síðkastið. Manneskja sem hefur gengið í gegnum hausaðgerðir eins og hún farið svo á fullt í að vinna við erfiðustu pólitísku aðstæður sem íslenskt samfélag hefur tekist á við og staðið sig, segir bara að hún algjör nalgi. Ég vel semsagt ekki Samfylkinguna vegna forystusauða eða spútnik einstaklinga til að vinna fyrir mig. Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkurinn og hefur þann Sósíal Demokratíska grunn sem ég vil sjá leitað í þegar tekið er á málum. Samfylkingin er ekki gamall flokkur, en byggir vissulega á gömlum grunni. Hún hefur hinsvegar sýnt fram á lýðræðisleg vinnubrögð í sínu innra starfi fram til þessa allavega.
Ég velti því oft fyrir mér hvað karl faðir minn hefði nú sagt um þessa ákvörðun mína, en hann lést í maí á síðasta ári og var mikill sjálfstæðismaður. Hann talaði reyndar alltaf um að hann væri hægri krati sem hefði fundið skástann safnnefnara fyrir sínar hugsjónir inn í þeim armi sjálfstæðisflokksins sem er þannig þenkjandi. Í nýútkominni bók um pabba Þræðir þá er birt grein eftir hann sem birtist í morgunblaðinu 1.desember 1996. Ég hafði ekki lesið þessa grein þegar ég gekk í Samfylkinguna ( hér er greinin í greinasafni mbl.is). Í þessari grein þá endurspeglar hann nánast nákvæmlega mínar hugleiðingar. Í lok greinarinnar kallar hann eftir nýju afli jafnaðarmanna á Íslandi og telur að hægri kratar sjálfstæðiflokksins ættu heima þar. Ef Samfylkingin hefði verið til þá má vel vera að hann hefði leitað vars þar. Ekki að það hafi skipt öllu máli við mína ákvörðun, en vissulega fannst mér jákvætt að finna þessa samsvörun með skoðunum föður míns.
Ég gekk semsagt í Samfylkinguna 10.mars 2008 að vel ígrunduðu máli.
Athugasemdir
Vertu velkominn. Pabbi þinn flutti ræðu á samfylkingarfundi á Hótel Héraði fyrir nokkrum árum síðan. Reyndar ekki sem samfylkingarmaður, heldur var hann meira svona að stríða Össuri sem þá var formaður og á þessum fundi. Þeir höfðu báðir gaman af.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 01:23
Ég býð þig hjartanlega velkominn í Samfylkinguna og mikið er ég glöð að sjá málefnalega umræðu um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir. Þú minnist á aðgerðirnar sem hún fór í og ég veit af eigin raun að þær eru ekkert smámál. Hún hefur sýnt af sér mikinn dugnað og festu í þessu stórviðri sem nú geisar í stjórnun landsins okkar.
Og þú er sonur hans Hrafnkels. Ég get ekki sagt að ég hafi þekkt hann, en þó hitti ég hann nokkrum sinnum fyrir um 20 árum. Þá var ég í félagsskap sem kallaði sig Samtök um jafnrétti milli landshluta (lipurt nafn) seinna Þjóðarflokkurinn. Hitti hann á nokkrum fundum, mikill sómamaður og blessuð sé minning hans.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.12.2008 kl. 01:38
Gott aðég féll í kramið
Kveðja úr Húnaþingi vestra
Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.12.2008 kl. 01:55
Var ég ekki örugglega búin að bjóða þig velkominn?? Hlakka til samstarfsins við þig á þessum vettvangi.
Sennilega er ég heldur vinstri sinnaðri en þú þó ég sé alin upp á helbláu heimili í bleika kratabænum, Hafnarfirði. En trúin á það að jafnaðarstefnan sé það afl sem við þurfum á að halda nú sem aldrei fyrr er það sem gerir mig að Samfylkingarfélaga svo þeirri grundvallarsýn deilum við algerlega.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, 7.12.2008 kl. 09:35
Þakka ykkur fyrir það
Hér er síða http://samfylkingin.com sem ég held úti og vil gera meira með. Kíkið á það.
Tjörvi Hrafnkelsson, 7.12.2008 kl. 23:50
Flottur pistill Tjörvi og til hamingju með þessa ákvörðun.
Ragnhildur Adalsteinsdottir (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 04:15
Kæri vinur.
Sjálfur hef ég aldrei verið flokksbundinn þó kominn sé af stjórnmálamönnum í báðar ættir, að vísu var ég kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfiði fyrir alþingiskosningarnar...1984 ef ég man rétt en það var bara vinna enda er ég, eða var allavega, fjári sleipur PR maður. Fékk verkið meira að segja greitt "svart" Ég er ánægður fyrir þína hönd að þú sért sáttur við að vera gengin til liðs við Samfylkinguna, tek hatt minn ofan fyrir Sollu núna enda konan sannkallaður nagli. Ég held reyndar að hvorki Samfylkingin né Íhaldið leysi þann vanda sem við okkur blasir, þaðan af síður Vinstri Grænir og örugglega ekki Framsókn.
Það sem blasir við okkur er ástand sem við vorum farin að sjá upp úr 2004, afar stéttskipt þjóðfélag þar sem hinir ríku urðu ríkari og lítilmagnanum blæddi, ég vona að engin sé svo sjálfhverfur að halda að þeir sem urðu "ríkir" séu að tapa einhverju í dag, það tapar engin nema þrælpískaður og kúgaður almúginn sem núna kreistir blóðið undan nöglunum til að reyna að hafa í sig og sína.
Ef þú kæri vinur, getur á einhvern hátt sannfært mig um að stuðningur við Samfylkinguna geti hugsanlega, já segi hugsanlega, breytt þessari mynd þá tek ég næstu vél austur og faðma þig sem aldrei fyrr.
Ég tek undir það með þér að hugsjónir þær sem Samfylkingin stendur fyrir eru þess eðlis að hver meðalgreindur einstaklingur hlýtur að staldra við og vega þær og meta en til að framkvæma þarf fólk og ég er nú ekki aldeilis sáttur við þá sem hæst hafa þar í flokki, á hér vitanlega við ráðherrann Skarphéðinsson hinn raupsama. En, það má alltaf finna fólk, málið er kannski að finna gegnheila einstaklinga sem setja hagsmuni heildarinnar ofar eigin hagsmunum, kannski við förum bara báðir í framboð, söfnum bara smá pening fyrst svo við höfum efni á því að verða alþingismenn ?
Gakktu á Guðs vegum vinur minn...
Ólafur Ólafsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.