Forsetakosningar 2016

Nú á að kjósa forseta á morgun og hef ég reynt hérna í útlandinu að fylgjast aðeins með og reynt að mynda mér afstöðu án þess að ná að hitta neitt af þessu frambjóðendum og ég náði ekki heldur að kjósa utankjörstaðar.

Ég skrifaði blogg fyrir tveimur vikum með yfirskriftinni að búa til forseta, þar sem mér fannst hafa hallað á Höllu Tómasdóttur. Það hefur komið á daginn að Halla eykur stanslaust við sig fylgið eftir því sem hún sést meira og hittir fólk og svo ber hún venjulega af í umræðuþáttum.

Sama var upp á teningnum í kvöld í fyrra hluta umræðuþáttar um frambjóðendur. Halla bar þar af að mínu mati. Strákarnir allir ágætir, hver á sinn hátt.

Mér þótti það á vissan hátt spennandi að Davíð Oddson skyldi bjóða sig fram og hélt í einfeldni minni að hann myndi nota tækifærið og sýna þjóðinni jákvæða hlið á sér og fá smá uppreisn æru. Hann myndi nota þá miklu reynslu, meðbyr og mótbyr til sýna þjóðinni styrk sinn. Það var ekki raunin, heldur birtist bara bitur einstaklingur barinn áfram af sjálfshóli og hroka. Það er því miður birtingarmyndin, þó hörðustu stuðningsmenn reyni að halda öðru fram ( fyrir 25 árum var ég í þeim hópi ). Það er eiginlega sorglegt að horfa upp á þennan mikla mann verða svona lítinn. Hann átti sín skítaskot í kvöld eins og áður, en átti líka jákvæð tilþrif.

Guðni finnst mér svolítið vera þessi náungi, sem allir geta sætt sig við. Ég mun alveg gera það líka, held þetta sé góð manneskja. Hans styrkleiki er helst hvað hann veit mikið um embættið og veit hvað allir hinir hafa gert, en um leið finnst mér það vera ákveðinn veikleiki. Held að hann muni ekki verða afgerandi forseti með nýjar hugmyndir eða sýn, heldur fletta upp í hvað hinir hefðu mögulega gert. Enda hefur hann svo sem lýst því að hann vildi vera einhver blanda af þeim öllum. Hann er svona þessi öruggi kostur fyrir flesta og ásættanlegur.

Andri hefur hefur kannski aðeins ferskari sýn, en er líka svolítið umdeildur. Hann myndi líklega breyta embættinu, allavega velja sér áberandi verkefni tengd sínum hugðarefnum. Sé hann samt ekki fyrir mér taka á erfiðum málum, en kannski lærist það og því mikilvægt að hann hafi góða ráðgjafa þegar að því kemur. Vonandi að hann hafi það. Ég er kannski ekki að öllu leyti sammála hans skoðunum, en ég held hann myndi samt gera þetta vel. Ég myndi ekkert taka bakföll þó hann yrði kosinn.

Halla hefur bara einhvern sjarma og viðmót sem er heillandi, sterkt og jákvætt. Hún er skelegg og virkar á mig eins og hún geti tekið á málum af ákveðni. Ég er nokkuð viss um að ef kjósendur hafa ekki verið búnir að gera upp hug sinn fyrir þáttin í kvöld muni mjög margir gefa Höllu sitt atkvæði.

Í seinni hluta umræðuþáttarins var rætt við hina 5 frambjóðendurna. Af þeim stendur Sturla upp úr og hann bara vex. Held að hann hafi lagt góðan grunn að því að fara fram til alþingis í haust og er algerlega sannfærður um að hann nær kjöri þar. Elísabet hefur lífgað upp á þetta með skemmtilegri nálgun og býr yfir reynsluheimi sem er öllum er hollt að setja sig inn í.  Því miður þá eru Guðrún, Hildur og Ástþór ekki að skilja neitt eftir.

Það er nokkuð ljóst að Guðni verður kosinn forseti á morgun og ég held við getum svo sem alveg verið sátt við það. Hinsvegar er ég sannfærður um að Halla hefði ekki þurft nema nokkrar vikur í viðbót til að teygja sig upp í fylgi Guðna og ég er líka sannfærður um að ef það hefði verið tveggja umferða kosning hefði hún haft betur.  Ég hef t.d. heimildir fyrir því að fólk sem kaus utankjörstaðar og ætlaði sér að kjósa Höllu, ákvað á síðustu stundu að kjósa Guðna eftir ráðleggingar um að það væri öruggast svo að Davíð Oddsson yrði ekki kosinn! Þannig hefur einhvern veginn allt unnið með Guðna í þessum kosningum. Í kosningu milli tveggja frambjóðenda er ekkert svoleiðis rugl í boði.

Ef ég hefði möguleika á að kjósa á morgun þá myndi ég kjósa Höllu Tómasdóttur.


Að búa til forseta

Ég fylgdist aðeins með umræðuþætti á ruv, þar sem allir frambjóðendur til forseta Íslands mættu. Fannst gaman að sjá og heyra í frambjóðendum sem hafa lítið rými fengið í fjölmiðlum. Það kom líka svolítið ljós hversu vettvangurinn við að fara í framboð getur verið góður til að koma boðskap til skila, burtséð frá möguleikum að ná kjöri. Getur reyndar virkað í báðar áttir, þ.e.a.s. ef menn geta ekki komið því almennilega frá sér fyrir hvað þeir standa.

Tveir frambjóðendur komu mér á óvart og finnst jákvætt að hafa þá í þessum hóp. Hefði fyrirfram ekki hvarflað að mér hversu skemmtileg og opin Elísabet Jökulsdóttir er og hún er líka með skilaboð. Sturla Jónsson, finnst mér ótrúlega röggsamur og veit alveg hvað hann stendur fyrir. Mér finnst þessi tvö bæði hafa hæfileika til að koma sínu til skila og ættu ef til vill bæði heima á Alþingi. Vil samt ítreka að ég er engan vegin skoðanasystkin þeirra, en held þau væru góðir fulltrúar þeirra sem deila með þeim skoðunum og lífsýn.

En af því að umræddur þáttur var nú á RUV. Það hefur verið uppi gagnrýni á Guðna Th, um að hann sé 'Frambjóðandi RUV' allavega búin til af RUV og sumum finnst það ósanngjörn gagnrýni. Nú tek ég fram að mér finnst Guðni Th afskaplega frambærilegur og ég gæti alveg hugsað mér að kjósa hann. Hvað er það hinsvegar upphaflega sem kemur honum í þessa stöðu sem hann er með í dag? Var það ekki vegna þess að hann fékk óvenju mikið rými á sjónvarpskjánum þegar Wintris og SDG málin voru algleymi? Í kjölfarði fer einhver bylgja af stað full af jákvæðum skrefum fyrir mögulegt framboð Guðna. Spurning hvaðan var því stjórnað? Varð það RUV eða tengt RUV? Og ef svo er, skiptir það bara nokkru máli? Því Guðni er mjög frambærilegur einstaklingur sem á augljóslega fullt erindi í embættið.

Hvað ef Wintris og SDG hefði ekki verið í algleymingi en í stað þess mál þar sem þótt hefði rétt að kalla Höllu Tómasdóttur til álitsgjafar? Hún hefði svo verið fastagestur á skjánum í einhverjar vikur og staðið sig þar afarvel eins og hún gerir jafnan þar sem hún er í forsvari. Hefði ekki getað myndast jákvæð bylgja í kringum hana, sem hefði svo verið stutt af réttum fjölmiðlum með jákvæðri umfjöllun? Halla hefur allt til að bera finnst mér til að verða forseti, en hún fékk klárlega ekki forskotið sem Guðni fékk!

Mér finnst því sú gagnrýni um að RUV hafa svolítið búið Guðna Th til alveg eiga rétt á sér. Mér sjálfum finnst það hinsvegar ekki skipta máli, því ég held að RUV hafi þá allavega fundið góðan kandídat. Mér finnst það hinsvegar einna ósanngjarnast gagnvart Höllu, því hún er mjög frambærileg en ekki jafn þjóðþekkt og t.d. Ástþór, Davíð og Andri Snær. Nú er hún að taka mestu fylgissveifluna til sín, því fólk er að sjá hana meira og kynnast hennar röggsemi. Held hinsvegar að það sé að gerast of seint, enda án forgjafar.

Það er klárt mál að fjölmiðlar og sérstaklega RUV hefur haft mikil áhrif á framvindu mála í þessu framboðsmálum. Því það skiptir máli hvort það er RUV, Útvarp Saga eða mogginn sem beitir sér. Ábyrgð RUV er meiri. En var RUV kannski bara að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðill allra landsmanna og finnur frambærilegan kandídat með víðtæka og jákvæða skírskotun til bjóða sig fram til forseta Íslands? Er ekki embættið í eðli sínu þjónustuhlutverk og ætti þá ekki að sitja þar einstaklingur sem er þokkaleg almenn sátt um, en ekki einhver sem er að svala persónulegum metnaði?

Ég persónulega mun nú sennilega ekki ná að kjósa hérna úti, en ef ég legði það nú á mig þá eru allavega tveir, jafnvel þrír af þeim sem eru í framboði sem kæmu til greina.


Þakkir

Þakka góð viðbrögð við pistlinum mínum. Það var ákveðinn léttir að koma þessu frá sér. Ætla svo sem ekki að fara á meira dýpi varðandi mín veikindi í bili, er bara að díla við þau á hverjum degi eins og svo margir aðrir.

Langar á næstunni að deila hérna hugrenningum mínum um daginn og veginn. Segi kannski líka frá því sem á daga okkar drífur hér í Ameríkunni.


Byrðin afhjúpuð

Síðustu árin hef ég ekki verið duglegur að tjá mig í rituðu máli, reyndar bara að átt erfitt með tjáningu yfir höfuð. Átti það til að blogga reglulega og hafði skoðanir á flestu og fannst gaman að rökræða. Við pabbi höfðum t.d. mismunandi sýn á suma hluti og gátum átt í löngum samtölum og bréfaskriftum, sérstaklega um pólitík. Ég bloggaði mest fyrir sirka 10-11 árum, eins þegar ég var í pólitíkinni með Héraðslistanum 2010. Síðan þá hef ég í raun ekkert skrifað um skoðanir mínar, rétt komið frá mér almennum fréttum. 

Nú hef ég fundið hvöt til þess að byrja að skrifa eitthvað aftur, en til þess að geta það þá verð ég eiginlega að koma frá mér smá byrði sem hefur litað mig síðustu misserin.

  • Byrði sem náði hámarki á síðasta ári og var farið að hafa veruleg áhrif á mitt daglega líf.
  • Byrði sem hefur fylgt mér leynt og ljóst í nokkur ár og hefur nærst á persónulegum áföllum í fjölskyldu og nærumhverfi
  • Byrði sem ég reyndi að fela og ljúga mig frá í lengstu lög og ekki viljað viðurkenna.
  • Byrði sem sneyddi mig öllu sjálfstrausti og frumkvæði.
  • Byrði sem ég skammaðist mín fyrir og geri jafnvel enn, þótt í ég dáist af öðrum sem hafa viðurkennt hana og eru að takast á við hana.
  • Byrði sem lengi hafði ekki heiti á og reyndi að vinna svör við sjálfur í gegnum t.d. andleg málefni
  • Byrði sem ég hélt ég myndi geta leyst úr sjálfur með tímanum.

Það urðu hinsvegar straumhvörf síðasta ári þegar dóttir mín hún Tara Ösp sem borið hafði byrðar af svipuðum toga mjög lengi, bara margfalt erfiðari, fór að tala um þessa hluti við mig. Hún var á góðum stað í sínu bataferli og sá einkenni hjá mér og benti mér á nokkur ráð sem ég reyndi að tileinka mér. Það sem hinsvegar gerði útslagið voru facebook samskipti milli okkar 27 September í fyrra. Þá sendi hún mér facebook skilaboð eftir andvöku nótt hjá sér og í viðhengi var bréf þar sem hún hafði skrifað niður upplifun sína og átök síðustu árin við að kljást við sína byrði. Ég las bréfið og ég grét látlaust í langan tíma. Þetta voru tár sem áttu sér margar stoðir út úr þessum lestri.

  • Ég grét því sem foreldri fannst mér ég hafa brugðist að hafa ekki geta skilið hana mikla fyrr.
  • Ég grét því sem foreldri gat kom ekki í veg fyrir hluti sem hún varð fyrir í æsku og voru líklega rót þess sem hún var að kljást við.
  • Ég grét því sem foreldri hafði ég gefist upp fyrir austfirska heilbrigðiskerfinu og gerði ekki nóg til að finna aðrar leiðir.
  • Ég grét líka af þakklæti yfir því að dóttir mín skyldi vera á lífi. Því að útfrá því sem við höfðum gengið í gegnum með henni og lýsingum hennar þá var það engan vegin sjálfsagt.
  • Ég grét ekki síst vegna þess að hún var að lýsa að stórum hluta minni eigin líðan. Dóttir mín hafði opnað augu mín fyrir því ég var veikur og talsvert mikið veikur.
  • Ég grét því að dóttir mín hafði treyst mér fyrir sínum tilfinningum og upplifunum til þess að hjálpa pabba sínum.

Byrðin sem hún lýsti var þunglyndi, ég semsagt viðurkenndi þarna fyrir sjálfum mér í tárataumunum að ég gæti mögulega þjáðst af þunglyndi. Ég pantaði mér tíma hjá heimilslækninum mínum samdægurs og fékk tíma næsta dag. Í náði að stynja því út úr mér að mér hefði verið bent á að ég væri mögulega að kljást við Depression. Án þess að blikna sótti hún ítarlegt próf sem hún lét mig taka. Þar krossaði ég samviskusamlega við það sem ég taldi eiga við mig. Niðurstaðan staðfesti þann grun að ég væri haldin alvarlegu þunglyndi. Meðferðin hefðbundinn, geðlæknir, sálfræðingur og lyfjagjöf.

Ég byrjaði að nota þunglyndislyf 3 dögum eftir bréfið frá Töru og þau fóru að virka mjög fljótlega. Það var ekki síst þá sem ég gerði mér grein fyrir á hversu vondum stað ég var, því hinn stingandi kvíðasársauki og þyngsli fyrir brjósti var horfinn og allt einu var kominn meiri orka til að takast betur á við dagsins önn, meiri drifkraftur.


Hinsvegar var bara hálfur sigur unninn með þessu, því ég hélt daglegri rútínu en ég náði ekki að byggja mig upp. Til þess þurfti ég að ná meira andrými og því þurfti ég að viðurkenna þetta fyrir vinnuveitendum mínum og sameigendum. Það var virkilega erfitt skref, en þeir sýndu mér mikinn skilning sem var ekki endilega sjálfsagt. Það létti vissulega pressu við þetta þó ég ynni oftast fullan vinnudag, því verkefnin urðu viðráðanlegri. Smá saman hefur svo sjálfstraustið aukist og meira segja farið að örla á frumkvæði. 


Eftirmálarnir af þessum samskiptum okkar Töru minnar má svo sjá víða í dag, því bréfið sem hún sendi mér þennan dag fyrir átta mánuðum varð að grein sem birtist á vefmiðlinum pressunni 30 September, Enginn á að ganga í gegnum þessa byrði einn. Grein skrifuð af tilfiningu á mannamáli sem auðvelt er að skilja. Viðbrögðin sem hún fékk voru ótrúleg, því það rétt eins og hjá mér þá tengdu svo ótrúlega margir sína líðan við hennar lýsingu.  Í kjölfarið hefur hún svo hrundið af stað hlutum eins og #egerekkitabu, gedsjuk.is, faces of depression, farið í óteljandi viðtöl, valin austfirðingur ársins, valin Framúrskarandi Íslendingur ársins 2016 og hefur talað á TED ráðstefnu. Núna vinnur hún svo að heimildarmynd um þunglyndi.

Í flestum viðtölum og efni sem Tara hefur notað vísar hún í þessi samskipti okkar, en þó þannig að ekki væri hægt að lesa út um hvern væri að ræða. Það er ekki fyrr en núna eftir 8 mánuði að ég er tilbúin að viðurkenna þetta fyrir öllum og þannig taka undir að #egerekkitabu.  Nú hef ég náð að skrifa þetta niður og ákveðið að birta hér á síðunni minni. Þar með hef ég afhjúpað byrðina og viðurkenni að ég þjáist að þunglyndi og er að díla við það! 

#egerekkitabu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband