Pabbi Sjötugur

Í dag er afar merkilegur dagur, því faðir minn Hrafnkell A Jónsson hefði orðið 70 ára, en það eru 11 ár tæp síðan hann lést aðeins 59 ára.

Ég var á Íslandi í síðustu viku í fyrsta skipti í næstum tvö ár og eitt af því sem ég gerði var að fara í kótelettur hjá Grétu frænku í Bókakaffi. Sú heimsókn hleypti af stað mörgum minningum um pabba. Í fyrsta lagi vorum við að borða mat sem var í miklu uppáhaldi pabba, kótelettur í raspi. Í öðru lagi vorum við að borða saman Ég, Fjóla og Mamma ásamt Ingvari, sem hefur ekki gerst oft síðustu árin. Í þriðja lagi þá er í Bókakaffi aðgangur að myndasafni Nonna frænda á Torfastöðum, en þar fann ég nokkrar myndir sem kallaði fram sterkar minningar um pabba og hreinlega beint að hjartarótum.

egogpabbiÞessi mynd tekin 1970, ég tæplega 1 árs ogpabbi 22 ára.

 

 

 

 

 

Reyndar er það svo að ég sé föður minn ljóslifandi á hverju einasta degi. Ekki nóg með að sonur minn heiti Hrafnkell (Isar), þá er hann alveg ótrúlega líkur honum bæði í útliti og háttum. Hann er mikill grúskari eins og afi sinn, ef hann vill gera sér glaðan dag þá felur það gjarnan í sér að eyða deginum á bókasafni eða í bókabúðum.

isarogpabbiHér er mynd af þeim tekin þegar þeir eru báðir á fimmtánda ári. Ef einhver er ekki viss, þá er pabbi vinstra megin og Ísar til hægri.

 

 

Pabbi var mikill félagsmálamaður og var annt um nærsamfélagið og lagði mikið á sig til að hafa áhrif á það. Kannski einum of því eitthvað lét undan á endanum og erfið veikindi urðu honum ofviða og hann lést alltof snemma.

Í dag minnist ég hans af hlýhug, ást og með stolti yfir að vera sonur hans.


A most improbable life

Frá því í haust höfum við fengið aðstoð fyrir Isar við að koma sér í form eftir hafa verið marga mánuði frá vegna meiðsla. Okkur var bent á Santa Maria Rivera sem hefur orð á sér fyrir að vera með erfiðar æfingar og gera miklar kröfur. Hann er búin að hjálpa Isari mikið og erum við óendanlega þakklát fyrir hafa kynnst honum. Santa Maria er frá Mexico og kom til USA 12 ára gamall í þriðju tilraun yfir landamærin.  Ég fann fyrir tilviljun á vefnum myndband um lífshlaup Santa sem leggur út frá lífi hans í kringum fótboltann. Þar er stiklað á stóru frá því að laumast yfir landamærin og framt til þess að spila á Century Link með Seattle Sounders. Þetta stutta myndband er mjög áhrifaríkt og hollt að horfa á, ekki síst fyrir krakka sem langar að ná langt í sinni íþrótt. Þetta er líka vitnisburður um hvernig Bandaríkin hafa fengið yfir landamærin frá Mexico, harðduglegt fólk með gott hjartalag til að gera gott samfélag betra. Myndin talar sínu máli og eins þessi grein á soccerwire.com.

Last fall we have got help in Isars recovery process to get him fit after being months out of play. We were told about Santa Maria Rivera who has a reputation for being a hard training and make great demands. He has helped Isar a lot and we are so grateful to have met him. Santa is from Mexico and came to the country 12 years old at third attempt. I found on the internet a video which tells about his life around soccer. It highlights his journey from crossing the border until he plays on Century Link for Seattle Sounders. This short video is very emotional, effective and I think it makes one a bit better to watch. Especially kids who want to achieve success in their sport. This is also a testament how USA have got over the border from Mexico a hardworking people with good heart which makes good society better. The video speaks for itself and also this article in soccerwire.com.


Árið 2016 kvatt

Þá er árið 2016 á enda runnið og 2017 gengið í garð. Ég ætlaði að setja saman smá facebook status með yfirferð ársins, en það endaði í löngum texta sem ég ákvað bara að setja hérna inn sem skjölun á árinu.

----

Árið hjá okkur fjölskyldunni hefur verið svona ár aðlögunar og úrlausna eftir mjög erfitt ár 2015. Við fluttum frá Bothell til Redmond í Mars á frábæran stað, sem er í raun á bæjarmörkum, Kirkland, Redmond og Bellevue. 

Við ferðuðumst ekki mikið hérna innanlands í USA. Náðum að fara til Portland tvisvar að heimsækja vinafólk þar, annað skiptið yfir helgi. Vorum svo í sumarbústað yfir helgi í Levenworth í apríl með íslendinga mafíunni sem heppnaðist afar vel, ótrúlega flott umhverfi í þessum litla bæ með Tyrola yfirbragðið.

Þegar Ísar og Embla voru bæði á Íslandi þá vorum við hjónin ein í kotinu í hálfan mánuð. Við náðum að nýta þennan tíma mjög vel hér í nærumhverfinu okkar. Hjóluðum mikið, fórum í nokkrar fjallgöngur, spiluðum golf og byrjuðum að hlaupa reglulega. Þannig náðum við að kynnast svæðinu aðeins betur og er óhætt að segja að við urðum ekki fyrir vonbrigðum með það. Það er ótrúlega mikið hægt að gera í útivist og ekki skemmir fyrir hvað er fallegt hérna.

Við fórum svo til Íslands í lok júlí og var fjölskyldan öll saman á Íslandi í rúma viku. Við náðum að ferma Isar og í leiðinni hitta ótrúlega mikið af okkar fólki á einu bretti.

Þegar við komum til baka frá íslandi þá tókum við Kristbjörg og Isar þátt í nokkrum utanvegahlaupum hérna á svæðinu, en það er mjög mikið framboð á keppnishlaupum um hverja helgi. Hlaupin hjá mér urðu hinsvegar að lúta í gras fyrir gamalkunnum bakeymslum sem lögðu mig flatan í nokkrar vikur í byrjun október og hef ekki getað hlaupið neitt síðan.

Um miðjan desember þá tókum við fjölskylda pakka í LA fitness og erum öll að sprikla þar. Vonandi nær maður að halda reglu á því og styrkja sig til að geta hlaupið aftur.

Við fengum nokkrar heimsóknir til okkar frá Íslandi. Ólína Helga var hjá okkur í viku í byrjun Febrúar meðan við bjuggum enn í Bothell, mjög viðburðarík vika. María Jóngerð og Emilía Sól heimsóttu Emblu í Mars, Valdimar Brimir heimsótti Ísar í júlí. Adda Birna, Daníel Freyr og Jóel Freyr voru hjá okkur í lok október og svo var rúsínan í pylsunendanum að fá þær Töru Ösp og Ísold Birtu til okkar í lok Nóvember.

Það voru líka fjöldamargir hittingar hjá Íslendinga mafíunni hérna svæðinu, áramótahittingar, þorrablót, sumarbústaðaferð, 17 júní, EM leikir, thanksgiving, skötuveisla og óteljandi afmæli svo eitthvað sé nefnt. Hópurinn er orðinn meira en 50 manns þegar allir koma saman og fólk er meira segja farið að mæta frá Kanada á suma viðburðina. Óhætt að segja að það eru forréttindi að þekkja þetta fólk allt saman og eiga sem vini. Frábær hópur.

Kristbjörg hefur sótt líkamsrækt sem heitir Bar method í Redmond center, sem er víst mikil snilld. Þó það hljómi alltaf soldið óheilbrigt að vera að fara á Bar í hádeginu á virkum dögum.

Kristbjörg og Ísar leigðu sér svo skíði og hafa farið einu sinni en stefnt að frekari afrekum þar fljótlega. Ætla að sjálfur að bíða með skíðin, þar til ég finn að bakið heldur.

Kristbjörg hefur svo verið einna duglegust af okkur að nýta sér endalausa hjólastígana í Redmond og nágrenni og á þar nokkur hundruð km að baki.

Sjáflur nýtti ég mér það aðeins að búa við hliðina á golfvelli. Spilaði nokkra hringi með Hjalta og Kristbjörgu, auk þess að fara á "Driving range" -ið. 

Ég hef aðeins reynt að grípa í gítarinn og reyndum við í stofu hljómsveitinni "More cowbells" að hittast nokkrum sinnum, þurfum hinsvegar að hittast oftar á þessu ári og slípa okkur saman.

Vinnan hjá AXnorth/SAGLobal gekk nokkurnvegin sinn vanagang, þó fyrri hluta ársins hafi ég aðeins verið frá. Ég leigði mér skrifstofupláss í Orange studios í Redmond síðasta vor og er nú þar með mjög góða vinnuaðstöðu í skemmtilegu umhverfi.

---

Það hefur ekki verið nein lognmolla í kringum krakkana okkar heldur.

---

Árið hjá Töru minni byrjaði með því að hún var valinn austfirðingur ársins hjá Austurfrétt/Austurglugganum fyrir framlag sitt til opinnar umræðu um þunglyndi og aðra geðsjúkdóma og m.a. um stöðu þeirra á austurlandi. Verkefnin sem hún hratt af stað 2015 voru t.d. facebook grúppan Geðsjúk, átakið #Egerekkitabu, árið 2016 hefur hún svo fylgt þessu eftir með verkefni Faces of depression og stofnað samtökin Stigma. Hún var svo valin framúrskarandi íslendingur ársins , var með erindi á TED ráðstefnu , auk viðtala í ýmsum fjölmiðlum. Hún hefur því helgað sig talsvert þessu málefni.

Tara er í margmiðlunarnámi í Danmörku, en klárar það í fjarnámi þar sem hún flutti til Íslands og tók upp sambúð með Rakel Sölvadóttur og búa þær í Garðabæ ásamt Ólínu Helgu, Daníel Breka og Ísold Birtu. Tara vinnur hjá Skema sem markaðsráðgjafi og við kennslu, auk þess að sinna ljósmyndunarverkefnum. Hún útskrifast svo sem margmiðlunarhönnuður frá KEA í Kaupmannahöfn núna í lok janúar.

Ísold Birta flutti til mömmu sinnar í Garðabæinn síðasta vor og var þar í allt sumar eða þar til hún flutti aftur nú haust í Egilstaði til pabba síns.

Þær mæðgur komu í heimsókn til Seattle/Redmond til okkar í nóvember og var það algerlega frábær tími. Dásamlegt að vera með þeim og finna hve samrýmdar þær eru, þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður á árinu. Það var eitthvað allt svo fullkomið og rétt að sjá þær saman. Sönn ást.

Ísold er ótrúlega skýr og klár krakki með ótrúlega góða nærveru, það einhvernvegin verður allt bjart þegar hún er nálægt. Það lang,lang erfiðasta við dvöl okkar hér í USA er að vera ekki nær þeim mæðgum.

---

Það er ekkert auðvelt að flytja til útlanda þegar maður er rétt að verða 16 ára, það hefur hún Embla mín sannarlega fengið að reyna. Fyrstu mánuðir ársins hjá Emblu voru bísna erfiðir fyrir marga sakir. Hún hafði skipt um Highschool haustið 2015 og hafði aðlögun við nýjan skóla ekki gengið alveg upp. Það leit því út fyrir að hún þyrfti að fara í sumarskóla til að halda í við árganginn sinn. Hún hinsvegar tók rosalegan endasprett og náði öllum fögunum sem hún þurfti og því var enginn þörf á sumarskóla. Þess í stað fór hún til Íslands og bjó hjá Siggu ömmu sinni og vann á Salt myrkrana á milli. Þar stóð hún sig afar vel og náði að vinna sér inn góðan vasapening. 

Embla byrjaði í æfingaakstri í byrjun ársins og tók svo bílpróf í byrjun júní og rúllaði því upp í fyrstu tilraun ( sem er meira en pabbi hennar getur sagt ). Hún fór því til Íslands nýkominn með bílpróf, sem ég hef grun um að hafi leitt til misnotkunar á bíl ömmu sinnar á Íslandi.

Hún fékk góða heimsókn í Mars, þegar þær Emelía Sól og María Jóngerð komu í heimsókn og voru hjá henni í viku.

Embla skipti svo um söngkennara í haust og hittir hana Brittany einu sinni í viku og tekur þátt í tónleikum á hennar vegum í lok Janúar.

Embla ákvað að prófa að fara í áheyrnaprufu hjá Seattle Talent nú í haust og var hún valinn áfram og er kominn inn í prógram þar. Hún er núna í workshop hjá þeim um hverja helgi. Hún þarf að skila inn bæði studio upptöku af lagi og ljósmyndum af sér til að hafa í profile. Systir hennar tók af henni myndir í Nóvember þegar hún var hjá okkur og setti svo upp heimasíðu fyrir Emblu fyrir prófílinn hennar. Lagið/lögin verða svo tekin upp fljótlega.

Þegar hún var á Íslandi í sumar þá vorum við upplýst um að hún væri kominn í samband með íslenskum dreng, sem reyndar vill svo heppilega til að er búsettur í Seattle ( Kirkland ), en er í raun austfirðingur í húð og hár (Neskaupstaður/Reyðarfjörður). Patrekur hefur reyndar búið meira og minna hjá okkur síðan í haust, afskaplega geðþekkur og góður drengur.

Skólinn hjá Emblu hefur svo gengið mun betur núna í haust og er hún að ná topp einkunum í flestum fögum. Við vonum því að hún nái að útskrifast úr Highschool í sumar.

----

Árið byrjaði ekkert mjög vel fyrir Isar. Hann hafði ekki getað spilað heilan leik í Desember 2015 vegna sársauka og dofa í hnjám. Þjálfari Isars sem spilaði með Sounders, hafði milligöngu um að við hittum Dr.Morris sem er liðs læknir hjá Sounders og jafnframt bæklunarskurðlæknir.

Eftir röntgen og sneiðmyndatökur þá kom dómur frá honum um miðjan Janúar um að bæði hnén væru í raun í messi. Vinstra megin hafði hnéskelin brotnað þegar hann var 11 ára og fengum við þá greiningu hjá bæklunarlækni á Íslandi að þetta brot myndi bara lagast. Hinsvegar var alltaf til staðar sársauki þar í ákveðnum líkamsstöðum sem aldrei lagaðist, auk þess var hann með fæðingargalla, Bipartite patella sem er einhverskonar auka brjósk á hnéskelinni sem ýtti enn frekar undir sársauka . Þetta varð til þess að það myndaðist óeðlilegt álag á hægra hnéð, sem hafði valdið kvilla sem var mun verri og heitir Osteochondritis Dissecans .

Bæði hnén voru því óstarfhæf og lausnin felst allajafna í skurðaðgerð í báðum tilfellum. Aðgerð á vinstra tiltölulega einföld, en mjög flókin á hægra hné. Hinsvegar vegna þess að hann var ný orðinn 13 ára og ekki fullvaxta þá var möguleiki að hægra hnéð þyrfti bara hvíld í 8-12 mánuði. Vinstra hnéð hinsvegar yrði að skera upp ef hann ætti einhverntíma að losna við sársaukan þar. Niðurstaðan var því að aðgerð var framkvæmd á vinstra hné í lok febrúar, en hægra hné þurfti algera hvíld í lágmark 6 mánuði. Hann mátti ekki stunda neinar íþróttir allan þennan tíma nema sund og hjóla á jafnsléttu.

Þetta var talsvert áfall fyrir Isar, ekki síst af því hann var að spila með besta liðinu í WA fylki í sínum aldursflokki og líklega eitt af þeim bestu í USA, en nú var allt komið á núllpunkt.

Eftir að hann gat labbað aftur eftir aðgerðina þá byrjaði hann að æfa sund, en nýtti tímann líka sem áður hafði farið í hreyfingu í að læra á gítar, tefla, forrita og lesa fræðibækur.

Í byrjun júlí var svo myndtaka á hægra hnénu og þá fékk hann leyfi til að byrja að hreyfa sig aftur og sparka aðeins í bolta, hann þyrfti hinsvegar að vera þolinmóður því það myndi taka langan tíma að koma sér af stað aftur. Það kom líka á daginn að það gekk mjög illa að komast í gang, auk þessa að díla við hefðbundna endurhæfingu eftir skurðagerð og langa hvíld, þá hafði hann stækkað um eina 15 centimetra á þessum tíma. Það var ekki fyrr en í byrjun Nóvember sem Dr. Morris skoðaði hann og gaf út að bæði hné væru completely healed, sem hann fór að sína alvöru framfarir. Síðan þá hefur þetta gengið betur og hann að ná upp hraða, snerpu og farinn að skora mörk með liðinu sínu.

Í júlí kom Valdimar Brimir í heimsókn til Isar frá Egilsstöðum. Það var mikið brallað þann tíma sem hann var hér og mikið rosalega var gaman að hafa hann hjá okkur og mjög mikilvægt fyrir Isar sem hafði hrokkið aðeins til baka félagslega verandi ekki með æfinga og leikja hitting reglulega.

Isar fór svo með Valda til Íslands um miðjan Júlí og eitt það fyrsta sem var gert var þátttaka í Reycup. Isar var skráður þar, en gat lítið spilað með gamla liðinu sínu því hann átti langt í land að vera í keppnisformi. Þetta reyndist líka erfitt mót fyrir Valda þar sem hann handleggsbrotnaði í einum leiknum. Framhaldið af dvölinni á Íslandi litaðist aðeins af því að nú gat Valdi lítið sem ekkert gert vegna sársauka, þannig að þeir vinirnir voru soldið komnir í haltur leiðir blindan gírinn. Það varð því ekkert úr landsmótsferð, en Hilmar var hinsvegar duglegur að halda Isari við efnið og fá hann til að hreyfa sig og erum við afar þakklát Hilmari og Stefu fyrir að þennan tíma.

Það hafði verið ákveðið með stuttum fyrirvara að ferma Isar og fengum við okkar gamla prest á Eskifirði, Davíð Baldurson til að sjá um það fyrir okkur. Fermt var í Eskifjarðarkirkju og svo smá veisla í safnaðarheimilinu þar. Þarna fengum við tækifæri til að hitta sem flesta vini og ættingja á einu bretti á þeim stutta tíma sem við vorum á Íslandi. Erum við afar þakklát fyrir alla sem komu að því að gera þetta mögulegt með stuttum fyrirvara.

Isar skipti svo um skóla í haust og byrjaði í Highschool í Lake Washington High School. Hann hefur staðið sig mjög vel í skólanum og er með topp einkunnir.
Vægast sagt mjög viðburðaríkt ár hjá Isari.

---

Af Teklu er það helst að frétta að hún er allajafna mjög ljót í augunum, en á afar fallegan og skemmtilegan hátt.

---

Þetta er svona í grófum dráttum sem á daga okkar dreif árið 2016. Árið litaðist vissulega líka af hlutum sem voru almennara eðlis. Allar þessar kosningar, alþingi, forseti íslands, Brexit og hápunkturinn náttúrulega kjörið á Donald Trump. Við komum saman hérna úti og ætluðum að fagna sigri Clinton, en það dofnaði fljótlega yfir þeirri stemmingu þegar leið á kvöldið. Það er hægt eyða miklu púðri í að ræða þann óskunda allan. Læt það vera hér.

Íslendingar voru hinsvegar mun skynsamari í sínu vali á forseta, held að Guðni verði okkur til sóma, þó ég hefði valið Höllu hefði ég kosið.

Hinsvegar voru þessar alþingiskosningar í haust hálfgert klúður fyrir margar sakir, sem svo umbirtist í stjórnarkreppu, sem þó að leysist mun varla verða með mjög starfhæfa ríkistjórn.

EM í fótbolta setti allt á hliðina á Íslandi og við fengum alveg skerf af því hérna úti. Þó að fótbolti sé ekki vinsælasta íþróttagreinin í USA, þá er hún mjög vinsæl hér á Seattle svæðinu og allir leikir sýndir á ESPN. Það vita því allir eitthvað Ísland núna sem fylgjast með fótbolta, svo ekki sé nú talað um víkingaklappið.

Seattle Sounders sem er fótbolta (soccer) félagið hérna í MLS deildinni, unnu svo MLS bikarinn í fyrsta skipti á árinu. Það ævintýri er nánast á við Leicester og Ísland frammistöðuna, því þeir voru neðstir í lok júlí þegar þeir skiptu um þjálfara. Ég fór á nokkra leiki með þeim og er mögnuð stemming á leikjum, enda státar sounders af því að hafa langflesta áhorfendur í MLS að meðaltali á leikjum hjá sér, 44.000, sem er eitthvað sem Premier Leuge félög gætu sum verð fullsæmd af.

Seattle Seahawks eru svo á góðu rönni í NFL og hver veit nema það verði Superbowl ævintýri framundan á þeim vígstöðvum.

---

Þó að nú í lok mánaðar sé Trump að taka við hérna í USA, þá erum við þrátt fyrir allt bara þokkalega bjartsýn fyrir árið 2017.


Forsetakosningar USA

Það er mikið að gerast í pólitíkinni hér vestanhafs og reyndar líka heima á klakanum. Mér finnst alltaf gaman að fylgjast með í aðdraganda kosninga hverjar sem þær eru.

Í kvöld voru kappræður númer tvö milli þeirra Hillary Clinton og Donald Trump. Það var með ólíkindum að fylgjast með þessu og svei mér ef skítalyktin náði ekki bara í gegnum vírin inn í stofu. Það er ótrúlegt að þetta skuli vera forsetakosningar um valdamesta embætti í heiminum. Margt má eflaust segja um Hillary Clinton og hennar feril og reyndar er það hálfgert slys að hún skuli vera í framboði fyrir Democrata með óuppgerð mál í eftirdragi. Hinsvegar er mótframbjóðandin og fígúran Donald Trump, eitthvað sem maður bara ekki skilur engan veginn hvernig gat mögulega verið í þessari stöðu. Það er alveg sama hvað hann segir eða gerir, hann heldur alltaf góðu fylgi. Hann sagði á einum af sínum framboðsfundum að hann gæti skotið mann inn á miðri 5th Ave in NY og hann myndi ekki missa fylgismenn og það er einmitt tilfellið.

Trump and HillaryEftir að hafa fylgst aðeins með og sett í samhengi þá kannski er kannski ekkert skrítið að hann skuli fá þetta mikið fylgi. Hann selur sig sem "outsider", þ.e.a.s. hann er ekki hluti af hinu pólitíska kerfi, ekki dæmigerður pólitíkus. Það er bara akkurat það sem er halda fylginu hjá honum og hvernig hann talar í einföldum frösum sem fólk vill heyra. Þetta fólk telur að kerfið sé ónýtt og spillt og ætlar að kjósa á móti kerfinu, á móti pólitíkusum, á móti pólitískri spillingu. Þetta fólk er tilbúið að kjósa fígúru sem talar út í loftið í innantómum frösum og gerir það sem honum sýnist. Þetta gerir fólk fyrst og fremst til að "make a point". Þannig sýnir það í verki að lýðræðið virkar í raun og veru.

Eigum við ekki einmitt sambærilegt dæmi frá Íslandi? Þar gerðum við fígúru að borgarstjóra í Reykjavík. Mann sem vissi ekkert í sinn haus og ruglaði bara steypu og fékk yfirburða kosningu. Hann vissulega hafði hjálpar hellu sem gat haldið í hendina á honum í verkefnum og fjarstýrði, meðan borgarstjórinn sjálfur sagði brandara.
Nú er þetta kannski ekki raunhæfur samanburður, að öðru leyti en því að þarna endurspeglast vilji almennings til að beita lýðræðinu til að gefa skít í kerfið.

Kappræðurnar í kvöld voru tiltölulega jafnar, en það komum mörgum á óvart að Hillary skyldi ekki keyra meira á Trump eftir alla hans skandala upp á síðkastið. Það var lítið um málefnalegt framlag nema frá Hillary. Trump talar hinsvegar bara á neikvæðu nótum, hvað sé skelfilegt, ónýtt, spillt. Hann  bíður hinsvegar ekki upp á neinar lausnir, nema það er "eitthvað" miklu betra, en hinsvegar ekki orð um hvað það er eða hvernig á að framkvæma. Það hefur verið umræða síðustu dagana innan Republikana að Trump ætti að víkja fyrir öðrum kandídat og Mike Pence varaforsetaefni hans aðallega nefndur. Skoðanakannanir sýna að Pence  myndi vinna Clinton tiltöluega auðveldlega. Það er í því samhengi, sem uppi kenning um það að Hillary hafi verið uppálagt að fara ekki of geyst í þessar kappræður í kvöld og alls ekki láta Trump lýta illa út. Því hún vill fyrir alla muni halda Trump inn í keppnini um hvíta húsið, því það er hennar eini möguleiki á að vinna kosningarnar.

Kannski var það nálgunin, hver veit. Held að flest sem kemur úr hennar herbúðum sé mjög vel calcularað og það sé ekki mikið um tilviljanir, meðan Trump er óútreiknanlegur með sín niðrandi ummæli og nætur tweet. Það er nokkuð ljóst að það eru spennandi vikur framundan og rétt að hafa lyktareyði við höndina þegar hlustað er fréttir af baráttunni.


Vistin í útlöndum

Nú hefur fjölskyldan búið á Seattle svæðinu í USA í rúma 16 mánuði og það er óhætt að segja að það hafi gengið á ýmsu.

Þar til í mars á þessu ári bjuggum við í einbýlishúsi í Bothell WA í mjög aflokuðu hverfi. Ef ekki hefði verið fyrir nágrannan á móti, sem var eldri maður sestur í helgan stein sem eyddi deginum í að bóna bílana sína og slá blettinn sinn þá hefði leikið vafi á að væri búið í húsunum í þessari götu. Reyndar er þessi maður það eina eftirminnalega úr þessu hverfi alla þessa 12 mánuði. Frekar óviðkunnalegur náungi og eiginlega bara soldið 'Creapy'. Isar kallaði hann Red John eftir persónu úr sjónvarpsþáttunum Mentalist, hver sem það nú var. Allavega virkaði á okkur eins og hann hefði vafasama fortíð, njósnari hjá CIA, eiturlyfjabarón í vitnavernd, nú eða bara gamall rótari hjá Jimmy Hendrix. 

Það var því ekki svo gott að við hittum á réttu staðsetninguna í fyrstu tilraun. Embla þurfti að skipta um skóla og skólahverfi síðasta haust og samhliða því þá var ákveðið að flytja. Það gekk ekki upp fyrr en í mars en þá fengum gott hús í Redmond, sirka helmingi minna en það sem við höfðum, en mun betur staðsett, á bæjarmörkum Bellevue, Redmond og Kirkland og nær Seattle. IMG_0565

Það er almenningsgarður beint á móti okkur, með upplýstum fótboltavöllum, baseball, körfubolta og tennis svo eitthvað sé nefnt. Tenging við hjólastígakerfi Redmond er við dyrnar hjá okkur, þar sem hægt er að hjóla hundruði kílómetra á stígum og svo er Belleveu golfvöllurinn í næstu götu. Stutt er í skólana og þá þjónustu sem við notum mest, læknar, sjúkraþjálfarar, tannlæknir o.s.frv.

IMG_0572

Ég leigði mér svo vinnu skrifborð í frumkvöðlasetri í Redmond og get hjólað þangað. 

Vinnustöð í Orange CenterÞað vera með góða staðsetningu þýðir reyndar meiri umferð í kringum okkur og kvöldin og helgar stundum skrautleg. Höfum t.d. orðið vitni af lögregluaðgerðum fyrir framan húsið hjá okkur um miðja nótt.

Neysla og sala á Marijuana er lögleg ( með takmörkunum þó ) í Washington fylki og því er maður orðinn vanur weed lyktinnni, en maður fer varla í göngutúr án þess að verða hennar var. 

Það er mjög blönduð menning hérna og hefur nálægðin við Microsoft og önnur tæknifyritæki eitthvað með það að gera. Hér er mjög mikið af fólki frá Asíu og eru Indverjar mjög áberandi en einnig fólk frá Kóreu, Japan eða Kína. Fólk af suður-amerískum uppruna áberandi líka, þó minna sé um þá hér miðað við sunnar í USA.

Ég myndi segja að í Redmond væri mjög umburðarlynt fólk, þar sem mætast öll möguleg þjóðerni, kynþættir og trúarbrögð. Mjög gaman að fylgjast með umferðinni í almennings garðinum handan götunnar, þar sem fjölskyldur hittast og þá sér maður þessum menningar afbrigðum bregða fyrir. Garðurinn er yfirleitt stútfullur af fólki hvert einasta kvöld og sérstaklega um helgar.

Mín upplifun af þessu nýja umhverfi okkar er því frekar jákvæð og almennt séð erum við semsagt nokkuð sátt við veru okkar hér í USA.  


Forsetakosningar 2016

Nú á að kjósa forseta á morgun og hef ég reynt hérna í útlandinu að fylgjast aðeins með og reynt að mynda mér afstöðu án þess að ná að hitta neitt af þessu frambjóðendum og ég náði ekki heldur að kjósa utankjörstaðar.

Ég skrifaði blogg fyrir tveimur vikum með yfirskriftinni að búa til forseta, þar sem mér fannst hafa hallað á Höllu Tómasdóttur. Það hefur komið á daginn að Halla eykur stanslaust við sig fylgið eftir því sem hún sést meira og hittir fólk og svo ber hún venjulega af í umræðuþáttum.

Sama var upp á teningnum í kvöld í fyrra hluta umræðuþáttar um frambjóðendur. Halla bar þar af að mínu mati. Strákarnir allir ágætir, hver á sinn hátt.

Mér þótti það á vissan hátt spennandi að Davíð Oddson skyldi bjóða sig fram og hélt í einfeldni minni að hann myndi nota tækifærið og sýna þjóðinni jákvæða hlið á sér og fá smá uppreisn æru. Hann myndi nota þá miklu reynslu, meðbyr og mótbyr til sýna þjóðinni styrk sinn. Það var ekki raunin, heldur birtist bara bitur einstaklingur barinn áfram af sjálfshóli og hroka. Það er því miður birtingarmyndin, þó hörðustu stuðningsmenn reyni að halda öðru fram ( fyrir 25 árum var ég í þeim hópi ). Það er eiginlega sorglegt að horfa upp á þennan mikla mann verða svona lítinn. Hann átti sín skítaskot í kvöld eins og áður, en átti líka jákvæð tilþrif.

Guðni finnst mér svolítið vera þessi náungi, sem allir geta sætt sig við. Ég mun alveg gera það líka, held þetta sé góð manneskja. Hans styrkleiki er helst hvað hann veit mikið um embættið og veit hvað allir hinir hafa gert, en um leið finnst mér það vera ákveðinn veikleiki. Held að hann muni ekki verða afgerandi forseti með nýjar hugmyndir eða sýn, heldur fletta upp í hvað hinir hefðu mögulega gert. Enda hefur hann svo sem lýst því að hann vildi vera einhver blanda af þeim öllum. Hann er svona þessi öruggi kostur fyrir flesta og ásættanlegur.

Andri hefur hefur kannski aðeins ferskari sýn, en er líka svolítið umdeildur. Hann myndi líklega breyta embættinu, allavega velja sér áberandi verkefni tengd sínum hugðarefnum. Sé hann samt ekki fyrir mér taka á erfiðum málum, en kannski lærist það og því mikilvægt að hann hafi góða ráðgjafa þegar að því kemur. Vonandi að hann hafi það. Ég er kannski ekki að öllu leyti sammála hans skoðunum, en ég held hann myndi samt gera þetta vel. Ég myndi ekkert taka bakföll þó hann yrði kosinn.

Halla hefur bara einhvern sjarma og viðmót sem er heillandi, sterkt og jákvætt. Hún er skelegg og virkar á mig eins og hún geti tekið á málum af ákveðni. Ég er nokkuð viss um að ef kjósendur hafa ekki verið búnir að gera upp hug sinn fyrir þáttin í kvöld muni mjög margir gefa Höllu sitt atkvæði.

Í seinni hluta umræðuþáttarins var rætt við hina 5 frambjóðendurna. Af þeim stendur Sturla upp úr og hann bara vex. Held að hann hafi lagt góðan grunn að því að fara fram til alþingis í haust og er algerlega sannfærður um að hann nær kjöri þar. Elísabet hefur lífgað upp á þetta með skemmtilegri nálgun og býr yfir reynsluheimi sem er öllum er hollt að setja sig inn í.  Því miður þá eru Guðrún, Hildur og Ástþór ekki að skilja neitt eftir.

Það er nokkuð ljóst að Guðni verður kosinn forseti á morgun og ég held við getum svo sem alveg verið sátt við það. Hinsvegar er ég sannfærður um að Halla hefði ekki þurft nema nokkrar vikur í viðbót til að teygja sig upp í fylgi Guðna og ég er líka sannfærður um að ef það hefði verið tveggja umferða kosning hefði hún haft betur.  Ég hef t.d. heimildir fyrir því að fólk sem kaus utankjörstaðar og ætlaði sér að kjósa Höllu, ákvað á síðustu stundu að kjósa Guðna eftir ráðleggingar um að það væri öruggast svo að Davíð Oddsson yrði ekki kosinn! Þannig hefur einhvern veginn allt unnið með Guðna í þessum kosningum. Í kosningu milli tveggja frambjóðenda er ekkert svoleiðis rugl í boði.

Ef ég hefði möguleika á að kjósa á morgun þá myndi ég kjósa Höllu Tómasdóttur.


Að búa til forseta

Ég fylgdist aðeins með umræðuþætti á ruv, þar sem allir frambjóðendur til forseta Íslands mættu. Fannst gaman að sjá og heyra í frambjóðendum sem hafa lítið rými fengið í fjölmiðlum. Það kom líka svolítið ljós hversu vettvangurinn við að fara í framboð getur verið góður til að koma boðskap til skila, burtséð frá möguleikum að ná kjöri. Getur reyndar virkað í báðar áttir, þ.e.a.s. ef menn geta ekki komið því almennilega frá sér fyrir hvað þeir standa.

Tveir frambjóðendur komu mér á óvart og finnst jákvætt að hafa þá í þessum hóp. Hefði fyrirfram ekki hvarflað að mér hversu skemmtileg og opin Elísabet Jökulsdóttir er og hún er líka með skilaboð. Sturla Jónsson, finnst mér ótrúlega röggsamur og veit alveg hvað hann stendur fyrir. Mér finnst þessi tvö bæði hafa hæfileika til að koma sínu til skila og ættu ef til vill bæði heima á Alþingi. Vil samt ítreka að ég er engan vegin skoðanasystkin þeirra, en held þau væru góðir fulltrúar þeirra sem deila með þeim skoðunum og lífsýn.

En af því að umræddur þáttur var nú á RUV. Það hefur verið uppi gagnrýni á Guðna Th, um að hann sé 'Frambjóðandi RUV' allavega búin til af RUV og sumum finnst það ósanngjörn gagnrýni. Nú tek ég fram að mér finnst Guðni Th afskaplega frambærilegur og ég gæti alveg hugsað mér að kjósa hann. Hvað er það hinsvegar upphaflega sem kemur honum í þessa stöðu sem hann er með í dag? Var það ekki vegna þess að hann fékk óvenju mikið rými á sjónvarpskjánum þegar Wintris og SDG málin voru algleymi? Í kjölfarði fer einhver bylgja af stað full af jákvæðum skrefum fyrir mögulegt framboð Guðna. Spurning hvaðan var því stjórnað? Varð það RUV eða tengt RUV? Og ef svo er, skiptir það bara nokkru máli? Því Guðni er mjög frambærilegur einstaklingur sem á augljóslega fullt erindi í embættið.

Hvað ef Wintris og SDG hefði ekki verið í algleymingi en í stað þess mál þar sem þótt hefði rétt að kalla Höllu Tómasdóttur til álitsgjafar? Hún hefði svo verið fastagestur á skjánum í einhverjar vikur og staðið sig þar afarvel eins og hún gerir jafnan þar sem hún er í forsvari. Hefði ekki getað myndast jákvæð bylgja í kringum hana, sem hefði svo verið stutt af réttum fjölmiðlum með jákvæðri umfjöllun? Halla hefur allt til að bera finnst mér til að verða forseti, en hún fékk klárlega ekki forskotið sem Guðni fékk!

Mér finnst því sú gagnrýni um að RUV hafa svolítið búið Guðna Th til alveg eiga rétt á sér. Mér sjálfum finnst það hinsvegar ekki skipta máli, því ég held að RUV hafi þá allavega fundið góðan kandídat. Mér finnst það hinsvegar einna ósanngjarnast gagnvart Höllu, því hún er mjög frambærileg en ekki jafn þjóðþekkt og t.d. Ástþór, Davíð og Andri Snær. Nú er hún að taka mestu fylgissveifluna til sín, því fólk er að sjá hana meira og kynnast hennar röggsemi. Held hinsvegar að það sé að gerast of seint, enda án forgjafar.

Það er klárt mál að fjölmiðlar og sérstaklega RUV hefur haft mikil áhrif á framvindu mála í þessu framboðsmálum. Því það skiptir máli hvort það er RUV, Útvarp Saga eða mogginn sem beitir sér. Ábyrgð RUV er meiri. En var RUV kannski bara að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðill allra landsmanna og finnur frambærilegan kandídat með víðtæka og jákvæða skírskotun til bjóða sig fram til forseta Íslands? Er ekki embættið í eðli sínu þjónustuhlutverk og ætti þá ekki að sitja þar einstaklingur sem er þokkaleg almenn sátt um, en ekki einhver sem er að svala persónulegum metnaði?

Ég persónulega mun nú sennilega ekki ná að kjósa hérna úti, en ef ég legði það nú á mig þá eru allavega tveir, jafnvel þrír af þeim sem eru í framboði sem kæmu til greina.


Þakkir

Þakka góð viðbrögð við pistlinum mínum. Það var ákveðinn léttir að koma þessu frá sér. Ætla svo sem ekki að fara á meira dýpi varðandi mín veikindi í bili, er bara að díla við þau á hverjum degi eins og svo margir aðrir.

Langar á næstunni að deila hérna hugrenningum mínum um daginn og veginn. Segi kannski líka frá því sem á daga okkar drífur hér í Ameríkunni.


Byrðin afhjúpuð

Síðustu árin hef ég ekki verið duglegur að tjá mig í rituðu máli, reyndar bara að átt erfitt með tjáningu yfir höfuð. Átti það til að blogga reglulega og hafði skoðanir á flestu og fannst gaman að rökræða. Við pabbi höfðum t.d. mismunandi sýn á suma hluti og gátum átt í löngum samtölum og bréfaskriftum, sérstaklega um pólitík. Ég bloggaði mest fyrir sirka 10-11 árum, eins þegar ég var í pólitíkinni með Héraðslistanum 2010. Síðan þá hef ég í raun ekkert skrifað um skoðanir mínar, rétt komið frá mér almennum fréttum. 

Nú hef ég fundið hvöt til þess að byrja að skrifa eitthvað aftur, en til þess að geta það þá verð ég eiginlega að koma frá mér smá byrði sem hefur litað mig síðustu misserin.

  • Byrði sem náði hámarki á síðasta ári og var farið að hafa veruleg áhrif á mitt daglega líf.
  • Byrði sem hefur fylgt mér leynt og ljóst í nokkur ár og hefur nærst á persónulegum áföllum í fjölskyldu og nærumhverfi
  • Byrði sem ég reyndi að fela og ljúga mig frá í lengstu lög og ekki viljað viðurkenna.
  • Byrði sem sneyddi mig öllu sjálfstrausti og frumkvæði.
  • Byrði sem ég skammaðist mín fyrir og geri jafnvel enn, þótt í ég dáist af öðrum sem hafa viðurkennt hana og eru að takast á við hana.
  • Byrði sem lengi hafði ekki heiti á og reyndi að vinna svör við sjálfur í gegnum t.d. andleg málefni
  • Byrði sem ég hélt ég myndi geta leyst úr sjálfur með tímanum.

Það urðu hinsvegar straumhvörf síðasta ári þegar dóttir mín hún Tara Ösp sem borið hafði byrðar af svipuðum toga mjög lengi, bara margfalt erfiðari, fór að tala um þessa hluti við mig. Hún var á góðum stað í sínu bataferli og sá einkenni hjá mér og benti mér á nokkur ráð sem ég reyndi að tileinka mér. Það sem hinsvegar gerði útslagið voru facebook samskipti milli okkar 27 September í fyrra. Þá sendi hún mér facebook skilaboð eftir andvöku nótt hjá sér og í viðhengi var bréf þar sem hún hafði skrifað niður upplifun sína og átök síðustu árin við að kljást við sína byrði. Ég las bréfið og ég grét látlaust í langan tíma. Þetta voru tár sem áttu sér margar stoðir út úr þessum lestri.

  • Ég grét því sem foreldri fannst mér ég hafa brugðist að hafa ekki geta skilið hana mikla fyrr.
  • Ég grét því sem foreldri gat kom ekki í veg fyrir hluti sem hún varð fyrir í æsku og voru líklega rót þess sem hún var að kljást við.
  • Ég grét því sem foreldri hafði ég gefist upp fyrir austfirska heilbrigðiskerfinu og gerði ekki nóg til að finna aðrar leiðir.
  • Ég grét líka af þakklæti yfir því að dóttir mín skyldi vera á lífi. Því að útfrá því sem við höfðum gengið í gegnum með henni og lýsingum hennar þá var það engan vegin sjálfsagt.
  • Ég grét ekki síst vegna þess að hún var að lýsa að stórum hluta minni eigin líðan. Dóttir mín hafði opnað augu mín fyrir því ég var veikur og talsvert mikið veikur.
  • Ég grét því að dóttir mín hafði treyst mér fyrir sínum tilfinningum og upplifunum til þess að hjálpa pabba sínum.

Byrðin sem hún lýsti var þunglyndi, ég semsagt viðurkenndi þarna fyrir sjálfum mér í tárataumunum að ég gæti mögulega þjáðst af þunglyndi. Ég pantaði mér tíma hjá heimilslækninum mínum samdægurs og fékk tíma næsta dag. Í náði að stynja því út úr mér að mér hefði verið bent á að ég væri mögulega að kljást við Depression. Án þess að blikna sótti hún ítarlegt próf sem hún lét mig taka. Þar krossaði ég samviskusamlega við það sem ég taldi eiga við mig. Niðurstaðan staðfesti þann grun að ég væri haldin alvarlegu þunglyndi. Meðferðin hefðbundinn, geðlæknir, sálfræðingur og lyfjagjöf.

Ég byrjaði að nota þunglyndislyf 3 dögum eftir bréfið frá Töru og þau fóru að virka mjög fljótlega. Það var ekki síst þá sem ég gerði mér grein fyrir á hversu vondum stað ég var, því hinn stingandi kvíðasársauki og þyngsli fyrir brjósti var horfinn og allt einu var kominn meiri orka til að takast betur á við dagsins önn, meiri drifkraftur.


Hinsvegar var bara hálfur sigur unninn með þessu, því ég hélt daglegri rútínu en ég náði ekki að byggja mig upp. Til þess þurfti ég að ná meira andrými og því þurfti ég að viðurkenna þetta fyrir vinnuveitendum mínum og sameigendum. Það var virkilega erfitt skref, en þeir sýndu mér mikinn skilning sem var ekki endilega sjálfsagt. Það létti vissulega pressu við þetta þó ég ynni oftast fullan vinnudag, því verkefnin urðu viðráðanlegri. Smá saman hefur svo sjálfstraustið aukist og meira segja farið að örla á frumkvæði. 


Eftirmálarnir af þessum samskiptum okkar Töru minnar má svo sjá víða í dag, því bréfið sem hún sendi mér þennan dag fyrir átta mánuðum varð að grein sem birtist á vefmiðlinum pressunni 30 September, Enginn á að ganga í gegnum þessa byrði einn. Grein skrifuð af tilfiningu á mannamáli sem auðvelt er að skilja. Viðbrögðin sem hún fékk voru ótrúleg, því það rétt eins og hjá mér þá tengdu svo ótrúlega margir sína líðan við hennar lýsingu.  Í kjölfarið hefur hún svo hrundið af stað hlutum eins og #egerekkitabu, gedsjuk.is, faces of depression, farið í óteljandi viðtöl, valin austfirðingur ársins, valin Framúrskarandi Íslendingur ársins 2016 og hefur talað á TED ráðstefnu. Núna vinnur hún svo að heimildarmynd um þunglyndi.

Í flestum viðtölum og efni sem Tara hefur notað vísar hún í þessi samskipti okkar, en þó þannig að ekki væri hægt að lesa út um hvern væri að ræða. Það er ekki fyrr en núna eftir 8 mánuði að ég er tilbúin að viðurkenna þetta fyrir öllum og þannig taka undir að #egerekkitabu.  Nú hef ég náð að skrifa þetta niður og ákveðið að birta hér á síðunni minni. Þar með hef ég afhjúpað byrðina og viðurkenni að ég þjáist að þunglyndi og er að díla við það! 

#egerekkitabu.


Sólin er í Seattle

Þær hafa verið skrítnar þessar síðustu vikur hérna í nýja heiminum okkar í Seattle. Áform okkar tóku aðeins nýja stefnu eftir að niðurstaða kom úr umsóknarferli Kristbjargar fyrir atvinnuleyfi, en hennar umsókn var ekki dreginn út til afgreiðslu. Það þýðir einfaldlega að hún má ekki vinna hérna úti, allavega ekki þiggja laun fyrir vinnu. Við þurftum því að endurskoða öll okkar áform og skoða okkar möguleika um framhaldið. Eftir nokkra hringi með þeim sem hafa með okkar mál að gera, þá er niðurstaðan sú að við ætlum að vera hérna áfram fram á sumar 2016 eins og upphafleg plön stóð til, bara með örlítið öðrum formerkjum.

Kristbjörg mun vera í verkefnum innan fyrirtækisins og byggja upp reynslu og þekkingu sem mun skila sér til lengri tíma, en hún er búin að vera í þjálfunarbúðum upp á síðkastið meðal annars hjá Microsoft.

Krakkarnir hafa líka náð að aðlagast vel þessa fyrstu mánuði og vilja láta reyna á lengri viðveru og ná heilu skólaári.

Þá er bara að verða sér út um golfsett og reyna nýta sér eitthvað af þessu fáránlega veðurfari sem er hérna. Eftir að hafa verið varaður við rigningu og sudda, þá hefur hér verið meira og minna sól og blíða allt frá því við komum í hingað í lok febrúar.

Svona lýtur t.d. spáin út fyrir restina af Júní.jynuseattle

Góða veðrið er því í Seattle þessi misserin þið sem eruð að leita. Hér ekki of heitt og ekki of kalt, bara svona ljómandi passlegt.cool


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband