Af vesturförum

Hér á ég ennþá þetta fína bloggsvæði og liðið næstum ár síðan það var uppfært síðast. Margt hefur gerst á þessum tíma sem vert væri að dokumentara. Í ljósi þess að ég skrifa hér pistil sirka einu sinni á ári þá er spurning hvaða efnistök maður velur.

BothellLíklega við hæfi að segja frá því að 4/6 af fjölskyldunni flutti til Bandaríkjanna í lok febrúar, nánar tiltekið í Bothell í Washington fylki. Bothell er bæjarhluti á Seattle svæðinu, rétt eins og Bellavue og Redmond sem kannski fleiri þekkja af þessu svæði, en Bothell er aðeins norðar. ( Hægt að smella á myndina til að sjá nánar )

 

 

HomeÁstæðan fyrir vali á þessu hverfi er fyrst og fremst skólarnir sem krakkarnir ganga í, Bothell High Scool og Skyview Junior High sem báðir eru með hæsta mögulega skor (10) fyrir public skóla. Húsnæðisverð í Bothell er líka viðráðanlegra en fyrir sunnan okkur, en fyrir vikið þá er húsið sem við búum í svolítið út úr. Það er stutt í flesta þjónustu en þurfum þó alltaf að keyra til að sækja hana. ( Hægt að smella á myndina til að sjá nánar )

Ég færði skrifborðið mitt frá Egilsstöðum og til Bothell og er að sinna sömu vinnu og heima, er bara nær viðskiptavinunum. Ég er með H1B visa í gegnum SAGlobal sem er einn af eigendum AXnorth, þannig að hérna úti er ég starfsmaður SAGlobal. Kristbjörg er með Visa í umsóknarferli í gegnum SAGlobal líka. Þessa dagana er hún í þjálfun til ráðgjafa í Dynamics AX og er búin að vera mikið á ferðalögum. Viku í New Jersey, viku í Cleveland Ohio og verður svo 3 vikur samfleitt í Fargo í North Dakota.

Isar er í Skyview Junior High school og æfir svo fótbolta með FC Alliance. Embla er í Bothell High, æfir söng hjá henni Kelly Ash niður í Seattle. Þeim líður vel í skólanum og óhætt að segja að skorið sem skólarnir eru með hafi staðið undir væntingum.

Tara Ösp flutti til Danmerkur þar sem hún nemur margmiðlun við KEA í Kaupmannahöfn. Ísold Birta býr svo hjá pabba sínum á Egilsstöðum ( er reyndar í heimsókn hjá mömmu sinni þegar þetta er skrifað ), þannig að fjölskyldan er dreifð um allan heim og Skype því góður vinur þessa dagana.

Ég hef mikið verið spurður út í veðurfar, enda Seattle þekkt fyrir mikla rigningu. Ég get bara sagt að veðrið hérna er fullkomið fyrir mig, frá því ég kom hérna í lok janúar hefur nánast alltaf verið gott veður. Það hefur vissulega rignt, en mun minna og sjaldnar en ég er vanur frá Íslandi. Reyndar er talað um að veturinn hafi verið mjög góður, þannig að ég hitti kannski bara vel á hvað það varðar.

Látum gott heita í bili, sjáum hvort sama bið verður eftir næstu færslu.


Framboðsfundur á Fljótsdalshéraði

Ég mætti á framboðsfund í kvöld, kom nú aðeins of seint á fundinn og náði ekki þremur fyrstu ræðunum. Missti því af ræðu Ingunnar Bylgju frænku minnar, sem átti við víst góða innkomu.
 
Hér er mín upplifun af frammistöðu framboða á fundinum.

Af því sem ég sá, þá fannst mér heildaryfirbragð Héraðslistans best. Kannski hlutdrægur af því ég hef unnið með þeim og þekki ágætlega til þriggja efstu, t.d. er Árni Kristinsson í mínum huga hinn fullkomni bæjarfulltrúi og Sigrún Blöndal stóð upp úr í kvöld án þess að hafa mikið fyrir því. Hún er bara einhvern veginn með'etta.

Stefán Bogi var að svara ágætlega og stóð upp úr hjá meirihlutanum og átti bestu lokaræðuna fannst mér, þó orðið framsóknarflokkur hafi verið soldið ofnotað þar, svona fyrir minn smekk. Hann er svolítið með'etta líka.

Flott hjá E-listanum að hafa kjark til að stíga fram með framboð, þó deila megi um ýmsilegt þar og framboðið beri þess merki að vera illa skipulagt. Veit reyndar að þeir náðu einu atkvæði í kvöld út á hugmynd um sólarorku framleiðslu á húsþökum á Egilsstöðum.

Sjálfstæðisflokkurinnn skipti um forrystusveit, sem getur verið erfitt þegar hinn framboðin sem eiga bæjarfulltrúa eru með nær óbreyttan hóp. Veit að Anna er hörkudugleg og það reynir á  hjá henni að keyra baráttuanda í sinn hóp. Hún stóð sig vel fannst mér.

Á-listinn virðist vera með ýmsar áhugaverðar hugmyndir sem skera sig úr. Ég hef talsvert álit á Gunnari Jónssyni sem leiðtoga, en það var samt eitthvað við yfirbragð Á listans í kvöld sem var ekki að gera sig. Kannski gerði maður meiri kröfur á að framboð sem er búin að vera í meirihluta í fjögur ár væri meira afgerandi.

Aðrir voru líka bara að standa sig ágætlega. veit sjálfur að þetta er stressandi að vera þarna í fyrsta skipti og ég tek bara ofan fyrir því fólki sem er að fara 'gefa' tíma sinn í þessa vanþakklátu vinnu.

Annars minnti þetta mig á sama fund fyrir fjórum árum. Sennilega helmingur spurninga þær sömu og voru þá. Atvinnumálafulltrúi, Sláturhúsið, sameining skóla, skuldastaðan og 150 prósentinn osfrv. Það er erfitt að ætla fólki að svara mjög djúpt á svona framboðsfundi hvernig sýn það hefur og hvernig það ætli að útfæra og framkvæma hlutina. Mikið af slíkum spurningum býr til froðusvör, sem hafa ekkert innihald því þarna er ekki staður eða stund til að úttala sig um útfærslur. Hvað ætli hafi verið oft sagt 'Það þarf bara að skoða það', típskt pólitískt svar, sem svarar engu en hafnar engu heldur.

Fyrir mér ætti stóra málið í sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs vera að bæta vinnu umhverfi kjörinna fulltrúa, á það sennilega við fleiri sveitarfélög. Fólk getur gert endalausar kröfur á kjörna fulltrúa um að það þurfi að gera þetta og hitt, setja fram stefnur, útfæra lausnir, koma með hugmyndir, eiga samtal við kjósendur, íbúalýðræði og svona má lengi telja. Öllu þarf þessu svo að sinna þegar venjulegum vinnudegi lýkur hjá fólki, sem er fáránlegt í raun þegar öll vinnuorka er nánast búin. Mjög oft koma menn bæði þreyttir og illa undirbúnir þó að séu flókin erindi til umræðu því teygjast þessir fundir og mál jafnvel ekki afgreidd og frestað til næsta fundar eða fært á milli nefnda. Ef vinnuumhverfi kjörinna fulltrúa og nefndarfólks er lagað þá er fyrst hægt að fara gera alvöru kröfur á bæjarfulltrúa og nefndarfólk. Þetta kann að vera sjálfhverft mál fyrir verðandi bæjarfulltrúa að tala fyrir, en þetta verður bara að gerast!

Heilt yfir var fundurinn hinsvegar ágætur og örugglega einhverjir fundið farveg fyrir atkvæðið sitt á laugardaginn.  Ég er allavega nokkurn vegin búin að hólfa mitt niður.
Held ég !

Árið 2013 - Fjölskyldan

Þetta ár var mjög viðburðaríkt hjá mér og fjölskyldunni. Verð þó að viðurkenna að ég var ekki þátttakandi í öllum þeim viðburðum sem  voru á árinu vegna  anna í vinnu þar sem ég var næstum þrjá mánuði erlendis. Ég náði þó að taka þátt í einhverju og fylgjast með öðru.  Ætla að renna hérna yfir mánuði ársins  eins og ég man þá úr hugskoti mínu.

Janúar:

Ætlaði að taka árið með trompi og fékk fyrrum atvinnumann í knattspyrnu til að hjálpa mér í form. Það var strax ljóst eftir nokkrar mælingar að ég var í mjög slæmu ástandi, nálægt 100 kílóum og með blóðþrýstings vandamál. Það var því farið hægt af stað og Ívar sýndi mér ótrúlega þolinmæði. Hélt ég þetta prógram út svona nokkurn vegin út Mars mánuð eða þegar vinnuferðirnar til Bandaríkjanna hófust.

Febrúar:

Þessi mánuður strembin vinnumánuður og lítið annað komst að hjá mér. Náði þó að eyða afmælisdeg Kristbjargar með henni.

Mars:

Um miðjan mánuð var Goðmótið í 5 flokk á Akureyri. Hrafnkell Ísar að sjálfsögðu mættur þar með sitt fjölskyldu fylgdarlið. Hattar strákarnir  mættu þar með tvö  lið og stóðu liðin sig með mikilli prýði eins og venjulega. Þetta var síðasta mótið sem Búi var með þeim sem  þjálfari, þó hann hafi verið umdeildur þá var Hrafnkell mjög ánægður með hann sem þjálfara.

Í lok mánaðar var svo stór áfangi í fjölskyldunni þegar Embla Ósk staðfesti skírnarheitin sín með fermingu á skírdag. Veisla  haldinn í Hlymsdölum þar sem vinir og vandamenn samglöddust með henni. Fékk hún mikið af fínum gjöfum og er þakklát fyrir daginn.

Apríl:

Fyrsta vinnuferðin af fjórum til LA á árinu var fyrri part mánaðarins, kom til baka á afmælisdegi Emblu 14 apríl. Ísar fór og keppti á  Andrésar Andarleikunum sömu helgi og ég hóf næstu vinnuferð til LA. Sama dag bárust okkur þær hræðulegu fréttir að Hera væri látinn. Það voru erfið símtölin við Kristbjörgu þann dag og dagana á eftir, en Hera og Kristbjörg voru mjög góðar og nánar vinkonur. Það er  hrikalegt að horfa upp á unga konu deyja í blóma lífsins. Ekki laust við að maður staldri við og hugsi sinn gang. Lífið er svo skrítið  og ófyrirsjáanlegt og getur tekið enda fyrirvaralaust.

Maí:

Allan þennan mánuð er í ég LA og daglegt líf litaðist af þeirri staðreynd. Náði samt að heimsækja Elvar æskuvin minn, en hann er nýfluttur til LA. 

Kristbjörg og Embla brugðu sér svo til Ítalíu í lok mánaðar. Reyndar var það þannig að sama dag og ég lenti á Egilsstöðum  eftir 5 vikna dvöl í LA, þá lögðu þær af stað í Ítalíuferðina. Þetta var semsagt ferð á vegum fimleikadeildar Hattar, en Embla fór  sem iðkandi og Kristbjörg sem fararstjóri.

Júní:

Eftir að ég kem frá LA dreg ég fram gamla golfsettið mitt og fer að kíkja á golfvöllin. Dró svo Unnar með mér og það var ekki aftur snúið á þeim bænum  allavega. Unnar reddaði mér svo Ping setti á góðum kjörum og hann útvegaði sér líka Ping sett. Við skráðum okkur svo í Golfklúbb Fljótsdalshéraðs og tókum þátt í móti á Ekkufellsvellinu. Baráttan við fogjöfina var hafinn á ný, en þar sem mín 25 ára gamla forgjöf frá golfklúbbnum á Eskifirði var úrelt, þá byrjaði ég bara á fullri forgjöf. Náði að klípa hana undir 30 áður en ég slasaði mig í byrjun ágúst.

Júlí:

N1 mótið var á Akueryri í byrjun mánaðar, sem var aðalmót 5 flokks. Hrafnkell var þar að standa sig mjög vel með sínu liði og þeir  voru eiga flotta leiki Hattarmenn. Gaman að sjá hvernig fótboltinn hjá þeim er að breytast og sjá mátti flott spil oft á tíðum.  Hinsvegar er þetta mót ofmetið sem viðburður. Það er teygt yfir alltof marga daga, fáir leikir og ekki mikil stemming í kringum  mótið sjálft. Í samanburði við Shellmótið í eyjum í 6 flokki, þá er þetta bara mjög lélegt mót.

Sumarhátið UÍA var svo haldinn helgina á eftir. Þar kepptu bæði Embla og Ísar. Embla þó í færri greinum en áður, þar sem  meiðsli háðu henni. Hún vann þó til verðlauna í Kringlukasti. Ísar var skráður í allar greinar þó hann kynni þær varla, hann sópaði til sín gullverðlaunum í öllum hlaupagreinum, meðan tæknigreinarnar voru lakari.

Seinni hluti mánaðarins var ég svo meira og minna frá vegna veikinda.

Ágúst:

Þessi mánuður byrjaði á unglingalandsmóti á Hornafirði, þar sem Embla og Hrafnkell kepptu bæði. Keppt var í fótbolta, frjálsum  og fimleikum. Veðrið var reyndar ógeðslegt allan tímann, þar sem það var öskrandi rok. Ég skráði í mig í golfmót sem átti að fresta en var haldið í 20 metrum á sekúnda. á 6 braut studdi ég við dræverinn minn og braut hann og tognaði svo illa að ég varð að hætta og reyndar varð þetta síðasta golfferð sumarsins. Þannig að ég rétt náði tveggja mánaða törn í golfinu, en stefni að því að halda áfram næsta sumar.

Ísold Birta hélt upp á fyrsta afmælið sitt og var það mikill gleðidagur. 

September:

Sennilega einhver besti mánuður sem ég hef átt í mörg herrans ár. Því við fórum í frí til Bandaríkjanna, þ.e. ég, Kristbjörg, Embla og Ísar. Við byrjuðum í New York, þar sem Óli Trausta gædaði okkur meðal annars og erum við þakklát fyrir að hann skyldi gefa sér tíma með okkur. Við dvöldum í NY í fjóra daga og náðum að taka helsu NY tourista staðina, auk þess að fara á söngleikinn Wicket.

Á fimmta degi keyrðum við frá NY til Conneticut og gistum í bæ sem heitir Norwich, á þeirri leið stoppuðum við m.a. í bæ sem heitir Clinton og eyddum þar tíma í versla. Fórum svo á strönd við New London í 33 stiga hita, hittum Klöru frænku Kristbjargar og fórum í lítinn bæ sem heitir Mistic og borðuðum þar á Mistic Pizza.

Á 8 degi keyrðum við svo til Boston og eyddum þar síðustu dögunum af fríinu. Tókum siglingu á Charles ánni þar sem skemmtilegur leiðsögumaður fræddi okkur um það sem fyrir augu bar. Þrír heimsfrægir háskólar þar á meðal, þ.e. Boston University, Harvard og MIT. Fórum í sædýragarð og vísindasafn og röltum um Boston.

Við vorum ótrúlega heppinn með allt í þessari ferð, frábært veður og þrátt fyrir talsvert flókið ferðaplan þá gekk allt upp í því.

Í lok mánaðar tók svo Embla þátt í forkeppni fyrir söngvakeppni félagsmiðstöðva sem er kallað Samfella. Hún vann þá keppni með lag sem heitir Secret, en Tara systir hennar bjó til flottan íslenska texta við lagið. Hún tryggði sér með þessu þátttöku í Samaust, sem keppni fyrir allt Austurland.

Október:

Dæmigerður rútínumánuður, þar sem skólar og íþróttastarf komið í gang. Var í hálfan mánuðinn í LA í vinnuferð.

Nóvember:

Um miðjan mánuð voru úrslitin í söngvakeppni framhaldskólanna fyrir Austurland, Samaust sem haldin var á Hornafirði. Embla keppti þar eftir að hafa unnið undankeppnina á Egilsstöðum. Hún gerði sér lítið fyrir og vann aftur með sama lag og í Samfellu og nokkuð örugglega ef marka mátti orð dómara þegar þeir kváðu upp úrslitin. Við Kristbjörg vorum á staðnum og fylgdumst með og vorum mjög stolt af framlagi hennar þarna. Hún keppir svo næst í Laugardagshöllinni 8. mars. Eftir keppnina þá keyrðum við saman til Reykjavíkur, en ég var á leið til LA og Ísar var að keppa á fimleikamóti í Garðabæ með Hetti, þar sem hann stóð sig eins og hetja.

Ég endaði svo mánuðinn í vinnuferð til Mexikó og LA.

Desember:

Mánuður sem er mikið rót í eins og hjá flestum. Hinsvegar var einstaklega gaman að fylgjast með facebook þennan mánuðinn, því það voru poppa upp mikið af barnamyndum merktar "Tara Tjorva photography", auk þess að fá mörg jólakort með myndum af fjölskyldum sem höfðu komið til hennar í myndatöku. Hún er semsagt farin að taka að sér myndatökur og er að vinna það mjög vel og fær mjög jákvæð viðbrögð. Hún hefur greinilega mikla hæfileika á því sviði og verður gaman að fylgjast með því hvernig hún vinnur með það áfram.

Ísold Birta talsvert í heimsókn þennan mánuðinn. Hún farin að hlaupa um, rannsakar og skoðar allt og talar mjög mikið. Ekki allt mjög skiljanlegt, en margt farið að taka á sig mynd. Er mjög dugleg að segja 'Nei' við afa sinn og segir svo 'gaedetta' sem útlegst 'Hvað er þetta'. Dásamlegt barn Ísold Birta. 

 


Árið 2013 - Fyrirtækin

Ég ætla hér að fara yfir árið 2013 í tvennu lagi. Fyrst að fara í gegnum atvinnuþáttinn, sem snýr að fyrirtækjarekstrinum og svo að taka það sem snýr að fjölskyldunni. Alla jafna hefði ég haft þriðja þáttinn um stjórnmál, en ég hef hinsvegar algerlega skilið mig frá þeirri þátttöku og reyndar líka umræðu.

Fyrirtækin

Árið 2013 var viðburðarríkt í fyrirtækjarekstri  hjá mér. Ég hef aðkomu að fjórum fyrirtækjum sem öll eru í rekstri þó mismikill sé, þetta eru fyrirtækin Austurnet, AN Lausnir, Austurfrétt  og AXnorth. Þetta árið átti AXnorth allan minn fókus, enda það fyrirtæki sem hefur stækkað hvað mest og hvar mestu vaxta og tekjumöguleikarnir  liggja. AN Lausnir var með talsvert umfang í upphafi árs en minna seinni hlutann, en segja má að Austurnet hafi legið talsvert í dvala hvað mína aðkomu varðar.  Austurfrétt tók kipp og þar eru spennandi hlutir að gerast og gerjast.

Ég ætla taka hérna yfirborðskenndan rúnt yfir fyrirtækjaárið 2013, lýt nú mest á þetta sem logg fyrir sjálfan mig.

Janúar:

Árið 2012 var fyrsta rekstrarár AXnorth. Við vorum líklega eitt fyrsta fyrirtæki á Íslandi til að fara í Dynamics AX 2012 og lentum því í ýmsum byrjunarörðugleikum. Enda kom á daginn að vandamál sem við glímdum við í uppgjöri var búið að leysa með uppfærslu pakka kerfisins. Eftir þá uppfærslu náðum við að skila af okkur ársreikningi eftir talsvert mikla yfirlegu og vinnu bæði með erlendu eigendunum og íslenskum endurskoðendum. Þetta fyrsta rekstrarár sem var 6 mánuðir var í góðu jafnvægi.

Febrúar:

Fyrirtækin sem höfðu leigt saman að Miðvangi 1-3 ( Níunni ) fluttu í nýuppgert húsnæði að Kaupvangi 6. Það húsnæði hýsti áður KHB og nýr eigandi þess gerði það upp í samræmi við okkar þarfir.

Sama dag opnaði svo starfstöð AXnorth á Akureyri, þegar Bergþór Friðriksson ( Beggi ) hóf störf þar. Skrifstofan er staðsett í Oddeyrarskála.

Mars:

Örvar Sigurgeirsson hefur störf á Akureyri þannig að þar er komið tveggja manna teymi.

8 mars er svo Hugvangur með opið hús þar sem gestum og gangandi gafst kostur á að skoða húsnæðið og fyrirtækin, sem þar eru kynntu sína starfssemi.

Apríl og Maí:

Fyrsta og önnur vinnuferð ársins til Mikuni í LA í Kaliforníu vegna innleiðingar á Dynamics Ax 2012 sem var gangsett hjá þeim í lok Maí. Samtals var ég 45 daga í LA á þessum tíma.

Unnið að því með Unnari og Gunnari að koma nýjum vef Austurfréttar sem fór í loftið í Maí og fékk fljúgandi gott start og er enn á góðri siglingu.

Júní og Júlí:

Eftirfylgni vegna Mikuni einkenndi þennan mánuð ásamt mikilli innri vinnu fyrir bæði AN Lausnir og AXnorth.

Viðræður um aðkomu CPS ráðgjafar að AXnorth komnar í góðan farveg.

Sumar hittingur AXnorth í lautinni hans Ella, þar sem var grillað og sungið.

Tveimur síðustu vikum í júlí eyddi ég svo í veikindi, sem voru líklega til kominn vegna ofkeyrslu síðust mánuði á undan.

Ágúst

Guðmundur Örn ( GOS ), bætist í Akureyrar teymi AXnorth sem telur þá orðið þrjá starfsmenn með vel yfir 40 ára reynslu í þessum geira.

Samningar nást við Jón Magnússon í CPS ráðgjöf sem hefur reynst AXnorth gríðarlega mikilvægt.

Í lok mánaðar kom svo þríeyki frá Greenlight í heimsókn, þeir Jim Hunnicut, Brian Lounds og Jan Sorensen. Akureyrar teymið kom austur og tók hópurinn stefnuna á Borgarfjörð Eystri. Við fengum frábært veður og síðbúnar ferðaplans reddingar gengu fullkomlega upp. Frábær ferð.

September

Viðburðaríkasti mánuður í stuttri sögu AXnorth. Fyrsti mánuðurinn með nýjum eiganda Jóni Magnússyni, sem kom inn með annan starfsmann Pálma Örn. Garðar og Siggi færa verkefnin sín frá AN Lausnum yfir til AXnorth og Kristbjörg kemur inn sem fjármálastjóri AXnorth.

Starfsmenn AXnorth eru allt í einu orðnir 13 talsins, en réttu ári áður voru stöðugildin 4.

Október:

Enn ein vinnuferð til Mikuni í byrjun mánaðar, núna er Örvar með í för.

Seinni hluta mánaðarins tekur AXnorth þátt í AXUG í Tampa þar sem AXtend vörurnar okkar voru kynntar. Ágúst og Hafsteinn voru þar fyrir hönd AXnorth

Nóvember:

Í lok mánaðar erum við Örvar aftur í Mikuni leiðangri, sem hefst núna niður í Mexíco en endar svo í LA. Ekki laust við að það sé að verða heimilislegt að mæta þangað reglulega.

AXnorth hélt sameiginlegan fund á Akureyri þar sem farið var yfir helstu mál sem varða framtíð AXnorth. Þeim fundi fylgt eftir með jólahlaðborði á hótel KEA sem tókst afskaplega  vel og gistu austfirðingar og sunnlendingar á hótel KEA.

Desember:

Fjölnir fær slæmar fréttir af föður sínum í Noregi og í kjölfarið ákveður öll hans fjölskyldan að flytja til Noregs. Mál þróast svo þannig að Fjölnir þarf að hætta hjá AXnorth og hefur störf hjá norsku fyrirtæki í ERP geiranum þar. Þar missti AXnorth góðan liðsfélaga og snjallan hugbúnaðarsérfræðing.

Starfsmenn AXnorth eru því 12 talsins í lok árs 2013.

 


Á lífi

Það eru 17 mánuðir síðan ég skrifaði inn á þessa bloggsíðu síðast. Þá fór ég yfir ástæður þess að hætta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.  Þar á undan var voru tvö innantóm blogg sem ég var bara að tala um bloggþurrð. Síðasta sem ég hef skrifað hérna efnislega inn er frá því í ágúst 2010. Einmitt þann vetur urðu breytingar hjá mér sem voru undanfari fyrirtækjarekstursins í kringum AN Lausnir og síðar AXnorth. Ég hef í raun ekki litið upp úr þeim verkefnum síðan.
 
Hef á þessum tíma ekki gefið mér stund í að pæla í neinu sem viðkemur öðru en fyrirtækjarekstri og svo reynt að passa upp á að eiga fjölskyldu, sem er bara ekki sjálfgefið. Hefði ég vitað hvaða vegferð ég var að leggja upp í fyrir þremur árum með allri þeirri vinnu og álagi sem því fylgir, er ég ekki viss um að ég hefði valið þá leið. 
 
Þannig að ég hef ekki fylgst mikið með dægur eða þjóðmálum, eins og ég hafði og hef mikinn áhuga á þeim. Hef ekkert tjáð mig á síðunni minni eins og síðustu þrjár færslur eru til vitnis um.  Ég er svo sem ekkert laus við skoðanirnar, áhugasviðið kannski færst svolítið til. Líklega hef ég líka færst örlítið til á pólitíska litrófinu eða meira kannski útvatnast, upplifi hálfgert landleysi. Það vera í fyrirtækjarekstri setur líka önnur og ný sjónarhorn í forgrunn, sem útiloka ekkert endilega þau sem maður horfði helst á áður. Kannski og vonandi að maður sé bara jafnvel færari um að sjá hlutina frá fleiri vinklum.
 
Ég spyr mig stundum hvort þetta brölt er að skila mér sem betri manneskju. Fram að þessu finnst mér það ekki, en þetta breytir manni. Út á við til hins verra held ég. Inn á við hefur samt safnast reynsla sem ég vonandi get lært af og nýtt mér til að verða betri manneskja. Held að þetta umhverfi hafi gert mig ómeðvitað svolítið hrokafullan og sjálfhverfan í samskiptum. Kannski var pólitíkin búin að gera það líka þá fáu mánuði sem ég sinnti því. Langar til að laga þetta. 
 
Langar svo að vera duglegri að setja fram hugrenningar mínar hérna á síðuna, því mér finnst mjög gaman að skoða aftur í tímann það sem maður var að spá og spekulera um einstök málefni á hverjum tíma. Þetta tjáningarform endurspeglar líka aðeins hvar maður er staddur hverju sinni, hvernig maður hugsar og jafnvel hvernig manni líður.
 
Kannski skrifa ég ekkert annað en þessa stuttu hugleiðingu næstu 20 mánuði. Það er allavega komið kvitt fyrir því að ég var á lífi seinni hluta ársins 2013.


Hættur í bæjarstjórn

Af gefnu tilefni vil ég koma upplýsingum á framfæri.

Í síðustu bæjarstjórnarkosningum var ég kosinn inn í bæjarstjórn fyrir Héraðslistann á Fljótsdalshéraði. Á þeim tíma starfaði ég sem forritari hjá hugbúnaðarfyrirtækinu HugurAx og hafði ég velvilja hjá því góða fyrirtæki að sinna bæjamálum samhliða þeirri vinnu. Frá 2007 tók ég einnig þátt í uppbyggingu á klasafyrirtækinu Austurnet ehf jafnframt með góðum skilningi frá stjórnendum HugarAx.

Rétt fyrir áramótin 2010-2011 eiga sér svo stað róttækar breytingar hjá HugAx sem voru undanfari þess að það fyrirtæki er ekki lengur til í dag. Á sama tíma var framtíð Austurnets á tímamótum sem þurfti að taka afstöðu til. Í því ljósi ákvað ég að segja upp vinnu minni hjá HugAx til 14 ára og fara að sinna framgangi Austurnets í fullu starfi. Þar voru fyrir nokkur staðbundin hugbúnaðarverkefni sem höfðu gengið vel, auk annarra verkefna tengd upplýsingatækni. Austurnet hefur sem fyrirtæki þá sérstöku sýn að mega ekki safna eignum eða skuldum og ekki vera með starfsfólk á sýnum snærum. Því voru að skapast ákveðnir áhættuþættir gagnvart nokkrum verkefnum sem ýtti undir stofnum hugbúnaðarfyrirtækisins AN Lausnir ehf. Það fyrirtæki er í raun afurð út úr Austurneti og lýtur nokkurn veginn hefðbundnum lögmálum í fyrirtækja rekstri er varðar eignamyndun og starfsmenn.

Í fyrstu voru það þau verkefni sem hefðu þróast innan Austurnets sem voru uppistaðan í tekjum AN, en fljótlega var farið að kanna möguleika á verkefnum í Bandríkjunum í gegnum sambönd þar. Þau verkefni gengu mjög vel og vöfðu upp á sig og bættust tveir forritarar í hópinn á haustmánuðum 2011. Samstarfið við Bandaríkjamennina þróaðist svo enn frekar og var ákveðið að binda það samstarf inn í frekari skuldbindingar með því að deila eignaraðild með þeim. Ákveðið var að það væri skilvirkast með því að taka út þau verkefni AN sem tengdust Bandaríkjunum og stofna um það sérstakt félag sem fékk nafnið AxNorth ehf. Nú eru starfsmenn AxNorth og AN orðnir 10 talsins og bætist a.m.k. einn við á haustmánuðum.

Vegna þessara hröðu framvindu í þessum fyrirtækjum bað ég um ársleyfi frá störfum í bæjarstjórn í september 2011 og fram í september 2012. Nú er ljóst að þróun og framvinda AxNorth og AN þarf áframhaldandi fókus og ljóst að lítið pláss verður fyrir bæjarmálavinnu eins og ég tel rétt er að vinna hana.
 
Þegar þessi framvinda fór að skírast nú á vormánuðum þá fór ég yfir það minni fjölskyldu og mínu samstarfsfólki hvað væri rétt að gera gagnvart þeirri skuldbindingu sem ég var kosinn til sem bæjarfulltrúi. Það er mín skoðun að bæjarfulltrúi sem ætlar að standa sig í sínu hlutverki, þurfi að hafa til ráðstöfunar að lágmarki 40 klukkustundir í mánuði ef hann ætlar að stunda hlutverk af metnaði. Það er ljóst að það er erfitt fyrir mig að búa þann tíma til miðað við bæði verkefnastöðu AxNorth og AN Lausna og ekki síður vegna þess hvar fyrirtækin eru stödd í uppbyggingarfasanum.

Í framhaldi að því tók ég þá ákvörðun að réttast væri að ég stigi algerlega til hliðar sem bæjarfulltrúi Héraðslistans og Ragnhildur Rós Indriðadóttir taki alfarið við mínu hlutverki sem bæjarfulltrúi. Það er ekkert auðvelt að taka svona ákvörðun, eftir hafa sinnt bæjarfulltrúa hlutverkinu í einungis 15 mánuði. Ég vona samt að það fólk sem ég hef unnið með í bæjarmálunum og þeir sem kusu mig til að sinna þessu hlutverki, hafi skilning á þessari ákvörðun minni. Vonandi mun svo sú vinna við uppbyggingu frumkvöðla fyrirtækis vera framlag inn sterkara samfélag og gefa fleiri valkosti í atvinnu og þróun atvinnulífs á Fljótsdalshéraði, sem það hefur reyndar þegar gert.
 
Héraðslistinn hefur á að skipa frábæru fólki sem leggur metnað sinn í störf fyrir bæjarfélagið. Það er bara forréttindi að tilheyra slíkum hóp og ég er mjög stoltur af því að vera hluti af honum.

Erindi mitt um þetta hefur nú þegar verið tekin fyrir af bæjarstjórn Fljótsdalshérað og afgreitt á síðasta fundi fyrir sumarfrí þann 20 júní 2012.
 
Vil þakka öllum fyrir gott samstarf og óska ég bæjarstjórn velfarnaðar í sínum störfum.
 


Meiri bloggþurð

"Bloggþurð" var titill á síðasta blogg fyrir 10 mánuðum síðan!
Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Ég tók mér t.d. árs frí frá bæjarpólitíkinni vegna anna í fyritækjarekstri AN Lausna. Hjá AN Lausnum eru áhugaverðir hlutir að gerast sem vonandi gefst tækifæri til að segja frá fyrr en seinna. Ég hef því leitt hjá mér pólitíkina í þessum önnum, þó erfitt sé að slíta sig algerlega frá henni. Nú er t.d. áhugaverð gerjun í gangi í landsmálunum og vonandi fara verða til sannfærandi trúverðugir valkostir við fjórflokkinn. Ég fylgist allavega af áhuga með þeim valkostum sem eru að verða til.

Bloggþurrð


Sjö mánuður frá síðasta bloggi! Hvað er málið, hef ég engar skoðanir á neinu lengur?
Þarf að fara að bæta úr þessu!

Það er reyndar búin að vera umbrotatími og miklar breytingar hjá mér, sem eru að taka á sig mynd loksins. Hef í 13 ár unnið hjá HugAx, en vann þar minn síðasta vinnudag 31.mars og er nú farin að vinna hjá mínu eigin fyrirtæki sem heitir Austurnet ehf, en það á ég ásamt nokkrum öðrum austfirðingum. Tók mér frí frá bæjarmálunum tímabundið á meðan þessar breytingar eru að ganga í gegn, en stefni að því að koma til baka þangað í lok apríl og reyni þá að láta eitthvað að mér kveða þar.

Vor í lofti og áhugaverðir tímar framundan!

 

 


Enn um þjóðveg 1 og Öxi

Kallað hefur verið eftir beittum viðbrögðum sveitarstjórnarmanna á Fljótsdalshéraði eftir "tilfinninga- og lágkúrulausar rökræður bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á stöðfirskum íbúafundi".  Ég ætla mér hins vegar ekki að fara niður á þeirra plan, en vegna umræðunnar varðandi Öxi og þjóðveg 1 þá vil ég setja fram mínar skoðanir á þeim viðfangsefnum.

Eftir að hafa skoðað gögn um samgöngur sem snerta Fljótsdalshérað og rætt við fólk með mismunandi skoðanir, þá er þetta mín niðurstaða:

  1. Mikilvægasta samgöngubótin fyrir Austurland allt og þar með Fljótsdalshérað eru Norðfjarðgöngin frá Norðfirði yfir á Eskifjörð.
  2. Mikilvægasta samgöngubótin fyrir Fljótsdalshérað er uppbygging heilsársvegar yfir Öxi og skal sú vegaframkvæmd hafa forgang. 
  3. Fyrir Fljótsdalshérað þá skiptir það engu máli hvort að þjóðvegur 1 liggur um Breiðdalsheiði, Öxi eða firðina. Færsla á vegnúmeri skyldi þó aldrei vera á þeim forsendum að auka þjónustustig í einum  þéttbýliskjarna, en ef hægt er að sýna fram á öryggissjónarmið við þá færslu þá gæti ég stutt hana. 

Tek fram að þetta er mín persónulega skoðun og endurspeglar á engan hátt skoðanir Héraðslistans eða Bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Nánari gögn má finna hér.


Þjóðvegur 1

Það hafa átt sér stað nokkur skrif um legu Þjóðvegar eitt á Austurlandi upp á síðkastið. Þær hófust með bókun bæjarráðs Fjarðarbyggðar og svo í kjölfarið bókun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Í kjölfarið skrifaði Esther Ösp Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi Fjarðarlistans grein í Auturgluggann 23 júlí, á vef Fjarðarlistans og sinn vef, þar sem hún færir rök fyrir flutningi þjóðvegar 1 um Suðurfjarðarveg og Fagradal. Greinin er á margan hátt vel unnin, þar sem hún hefur aflað sér gagna um umfjöllunarefnið og vísar í heimildir, auk þess sem hún spyr spurninga. Hún dregur þetta svo saman í niðurstöðu sem réttlætir skrif greinarinnar sem bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð. Hennar niðurstaða er að þjóðvegur 1 skuli liggja um Fagradal og firði.

Andrés Skúlason Djúpavogi svarar grein Estherar í Austurglugganum 30 júlí. Þar fer hann yfir nánast alla þá þætti sem Esther lagði fram og dregur fram þau atriði sem ekki komu fram í grein Estherar, t.d. núverandi stöðu á uppbyggingu á Axarvegi og þá staðreynd að vegfarendur munu alltaf nýta sér þennan veg, jafnvel þó þjóðvegur 1 yrði færður.

Eiður Ragnarsson er með nýlegt blogg um þessi mál og kallar eftir málefnalegri umræðu. Hann hefur verið duglegur að tjá sig um þetta mál í gegnum tíðina bæði í bloggheimum og á öðrum vettvangi.

Þjóðvegur 1 liggur nú yfir Breiðdalsheiði um Skriðdal og hefur umræða um flutning á honum ekki farið formlega fram nema hjá kjörnum fulltrúum í Fjarðabyggð. Umræða um uppbyggingu á Axarvegi hefur því ekkert með þjóðveg 1 að gera, heldur fyrst og fremst aukna þjónustu við vegfarendur. Í matsáætlun um Axarveg er farið yfir faglega þætti sem snúa að Axarvegi og hollt fyrir alla sem hafa skoðun á þessum málum að lesa þá skýrslu. Þar er t.d. 30 spurningum frá Ásmundi Ásmundssyni á Reyðarfirði sem er svarað af vegagerðinni. 

Önnur gögn sem vert er að skoða í þessari umræðu eru listuð hérna neðst og skora á sem flesta sem vilja hafa skoðanir á þessum málum að lesa í gegnum þessar greinar og gögn. Ef menn hafa upplýsingar um fleiri gögn eða umræður, þá má gjarnan setja inn athugasemdir til að ég geti bætt þeim í listann.

Ég hef sjálfur ekki tekið beinan þátt í þessari umræðu eða setið fundi þar sem þetta hefur verið rætt, því þarf ég að treysta á unninn gögn um málið. Hinsvegar hef átt í skoðanaskiptum um þetta mál og þar liggja rök með og á móti. En í mínum huga er uppbygging Axarvegar og færsla á þjóðvegi 1 sitthvort málið.

Það er hinsvegar bæjarráð Fjarðabyggðar sem hefur þessa umræðu þetta kjörtímabilið og því eðlilegt að spyrja hvaða verkefni var á þeirra borði sem kallaði á úrlausnina „Færa skal þjóðveg 1 um Fagradal og firði". 

Það fyrsta sem manni dettur í hug er að það sé verið að svara yfirlýsingum sem frambjóðendur hafi látið frá sér fara í kosningabaráttunni og því sé í raun ekkert raunverulegt verkefni á bak þetta annað en bregðast við því. 

Önnur spurning sem gæti kallað á þessa úrlausn gæti verið:  Hvernig nær Fjarðabyggð í opinbert fjármagn til að koma á lagfæringum á vegasamgöngum innan Fjarðabyggðar?

Hér vísa ég ég blogg frá Eiði Ragnarssyni þar sem hann vísar í tillögu sem hann og Andrés Elísson komu með á aðalfundi SSA 2006, sem hljóðar svona: "Setjum þá peninga sem ætlaðir eru í endurbætur á Breiðdalsheiði í Axarveg og færum þjóðveg eitt niður um firði. " Þetta átti víst að vera málmiðlunartillaga!  En miðað við þetta, þá gæti þetta verið verkefnið, þ.e.a.s. finna fjármagn til vegabóta innan Fjarðabyggðar.

Verkefnið gæti líka verið þetta: Hvernig er hægt að auka umferð ferðamana og annarra vegfaranda um Fjarðabyggð, með það markmið að byggja upp og nýta þjónustu sem þar er í boði?

Það hafa verið færð fyrir því einhver rök að það eitt að færa þjóðvegsnúmerið gæti bætt þjónustuframboð og nýtingu þjónustunnar. En hvaða fordæmi hefði þetta fyrir önnur sveitarfélög í landinu sem ekki skera þjóðveg 1? Væri ekki alveg eins hægt að taka sambærilegt verkefni upp í bæjarráðum Ísafjarðar eða Húsvíkur og fá sambærileg svör um að færa skuli þjóðveg 1 í gegnum þau byggðarlög til að auka þjónustustigið?  Það er allavega langsótt í mínum huga að fara fram á færslu þjóðvegar til að auka þjónustustig eins sveitarfélags, þó að Esther reyndar geri það í sinni grein.

Líklegasta verkefnið á borðinu hlýtur að hafa snúið að heildarhagsmunum Austurlands:

Með hvaða hætti er hægt að tryggja sem best þjónustu við vegfarendur á öllu Austurlandi, m.t.t. öryggis, umferðarþunga, styttingar, vetrarþjónustu, osfrv.?

Ef þetta er verkefnið, þá er þetta væntanlega verkefni sem getur legið inn á borði allra sveitastjórna á Austurlandi, ekki bara Fjarðabyggðar.  Bókanir bæði Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs gefa báðar til kynna að öryggismál sé í forgang. En að besta svarið við henni sé færsla á þjóðvegi 1, get ég ekki komið auga á í fljótu bragði og þó búin að rýna talsvert í þau gögn sem eru aðgengileg. Því ef þetta snýst um öryggi vegfaranda, þá er þjóðvegur eitt raunar aukaatriði í umræðunni. Það mun þurfa að bæta veginn yfir Öxi vegna öryggissjónarmiða, því hann mun alltaf verða mikið notaðar, alveg sama hvað vegurinn um firði verður lagaður mikið og breytt um vegnúmer.

Ég get verið sammála Eiði Ragnarssyni í niðurlagi á bloggi sínu, þann 31 júlí, þar sem hann leggur til að það unnið verði hlutlaust að þessum málum.  Ég mun allavega styðja þannig nálgun til að fá sanngjarna og réttláta niðurstöðu sem hægt er að vinna eftir á markvissan hátt.

Það má reyndar líka hugsa sér að vinna önnur stór verkefni með sömu nálgun. Til dæmis staðsetning Fjórðungssjúkrahúss til framtíðar. Hvar er það best staðsett með tilliti til öryggis? Það er ekki síður brýnt hagsmunamál fyrir alla á austurlandi!

------------------------------------------------------------------------------------ 

Gögn og umræður um málið:

Blogg - Esther Ösp Gunnarsdóttir

http://www.raudhausar.com/esther/?p=3137

 

Blogg - Eiður Ragnarsson

http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/445221/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/137227/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/21685/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/522205/

http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/1081209/

Vegagerðin - Hæð vega yfir sjó

http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/yfir_sjo/$file/Yfir_sjo.pdf

Vegagerðin - Matsáætlun um Axarveg

http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Axarvegur_Mau_2008.06.05_Tillaga/$file/Axarvegur%20939-01_M%c3%a1u_2008.24.11_Tillaga%20a%c3%b0%20mats%c3%a1%c3%a6tlun.pdf

Vegagerðin - Meðaltöl um keyrslu á vegum                                                  

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/umferdin/umfthjodvegum/

Vegagerdin - Upplýsingar um vegalengdir milli staða

http://www.vegagerdin.is/vegakerfid/vegalengdir/

Skýrsla um styttingu þjóðvegar 1 í Húnaþingi

http://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2006/Skyrsla_loka_hunathing.pdf

Bókun Bæjarráðs Fjarðabyggðar

http://fjardabyggd.is/Stjornsysla/Fundargerdir/Sjananar/199-fundur-baejarrads

Bókun Bæjarráðs Fljótsdalshéraðs

https://fundagatt.fljotsdalsherad.is/meetingsearch/DisplayMeeting.aspx?id=201006001F

Síminn - Upplýsingar um símasaband

http://www.siminn.is/einstaklingar/netid/dreifikerfid/

Samgönguáætlun

http://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/0973.pdf

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband